14.02.1947
Neðri deild: 74. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í C-deild Alþingistíðinda. (4245)

161. mál, bátaútvegurinn o.fl.

Flm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Þetta frv. er, eins og hv. þdm. sjá, um breyt. á l. um ríkisábyrgð vegna bátaútvegsins og er flutt vegna þess, að við framkvæmd þeirra l. hefur komið í ljós, að fyrrv. hæstv. fjmrh. (PM) vildi ekki fallast á, að þessi ábyrgð, sem felst í þessum nefndu l., nái til þess að ábyrgjast útflutningsverð fyrir hrogn, þannig að tryggt væri, að hrogn sem útflutningsvara væru framleidd. — Hrognaframleiðsla landsins er á milli 15 og 20 þús. tunnur á ári, og mikill markaður er fyrir þessi hrogn og sennilega góður markaður, þrátt fyrir það að eitthvað um 4–5 þús. tunnur séu óseldar af fyrra árs framleiðslu af þeim. Er líklegt, að góður markaður sé fyrir framleiðslu þessa árs af hrognum, ef svo fer, að þau verði verkuð til sölu. En eins og nú standa sakir, treysta menn sér ekki til að kaupa þessa vöru föstu verði vegna óvissunnar um söluna.

Ef þetta sjónarmið, sem ég hef hér tekið fram, hefði komið til umr. í sambandi við afgreiðslu frv. um ríkisábyrgð vegna bátaútvegsins fyrir s.l. jól, þá hefði þessu þegar í stað verið bætt inn í það frv., af því að það var gengið út frá því sem gefnu, að þessi ábyrgð á fiskverðinu kæmi að fullum notum. En þarna verður allmikill frádráttur á ábyrgðinni á fiskverðinu, ef sjávarútvegsmenn verða að kasta hrognunum, sem þeir hafa getað hagnýtt og fengið fyrir kr. 0.50 pr. kg. Bæði hafði útvegurinn ástæðu til að ætla, að ábyrgðin, sem samþ. var fyrir jólin fyrir bátaútveginn, næði til þessarar vöru, hrognanna, þannig að ekki væri tekið með annarri hendinni það, sem gefið var með hinni, og eins er hitt víst, að þarna væri verið að kasta mjög þýðingarmiklu verðmæti, ef hrognin yrðu ekki verkuð til sölu, sem hægt mundi þó vera að fá mikinn markað fyrir, þegar að því kemur að gera viðskiptasamninga, sem nú er ráðgert að gera með sendingu n. í því skyni. Og með tilliti til þessa tvenns álít ég alveg nauðsynlegt, að hæstv. Alþ. kveði upp úr um það, hvað skuli vera réttur skilningur í þessum efnum, og bæti þannig inn í l. ákvæði, sem taki af allan vafa um, að ríkið taki á sig verðábyrgð á frystum og söltuðum hrognum, eins og það hefur tekið gagnvart verði á fiski.

Að lokinni þessari umr. legg ég til, að frv. verði vísað til hv. fjhn.