28.02.1947
Neðri deild: 83. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í C-deild Alþingistíðinda. (4294)

180. mál, fávitahæli

Flm. (Arnfinnur Jónsson):

Ég skil vel afstöðu hæstv. fjmrh. Hann vill, að tekið sé fullt tillit til fjárl. í sambandi við þetta mál. Og því gæti ég trúað, að finna mætti í fjárl. einhver þau útgjöld, sem ekki væru eins nauðsynleg og þetta, sem hér um ræðir. Ég efast um, að til séu margir útgjaldaliðir, sem séu jafnnauðsynlegir og aðkallandi og framkvæmd þessara l. Í grg. geri ég ráð fyrir, að veitt verði strax á þessu ári til að koma upp fávitahæli. Það gerði ég með það fyrir augum að láta það koma strax fram, að ég álít það óhjákvæmilega nauðsyn, að þegar sé hafizt handa um þessar aðgerðir. Mér dettur að vísu ekki í hug, að öll þau hæli, sem hér er gert ráð fyrir, komist upp. Þau þyrftu að vera minnst 3–4, en ég held, að það yrði að byrja svo myndarlega á næsta ári. að það fengist veruleg bót frá því, sem nú er í þessu efni. Það er í raun og veru ekki eitt einasta opinbert hæli fyrir þessa sjúklinga. Á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði eru 10–20 sjúklingar, en það er þannig til komið, að fyrir löngu kom ung og áhugasöm stúlka upp hæli fyrir þessi börn austur í Grímsnesi af eigin rammleik að mestu leyti, en fékk svo aðstoð bæjar og ríkis. Það sýndi sig, að ekki var hægt að reka þetta hæli eitt, svo að vel væri, svo að hún reisti almennt barnahæli í grennd við húsið, sem fávitarnir voru í. Þetta var látið afskiptalaust um nokkur ár, en varð algerlega óviðunandi, þegar fávitarnir eltust, og á stríðstímanum, þegar erfitt var að fá starfsfólk, varð að grípa til þess að láta elztu börnin sjá um gömlu fávitana, og var þá komið það ástand, sem ekki mátti við una, og fyrir það var gripið til þess ráðs að flytja sjúklingana að Kleppjárnsreykjum. En þetta var ekki hæli. heldur gamall læknisbústaður. Staðurinn var ekki ætlaður fyrir slíkt hæli.

Ég vil leyfa mér að bæta því við það, sem ég sagði áðan — þrátt fyrir það, sem hæstv. fjmrh. sagði um erfiðleika á fjárveitingum —, að ég vona, að Alþ. sýni þessu frv. fulla velvild og að það verði samþ.

Ég tel, eins og ég sagði áðan, eðlilegt að málið fari til allshn., en ekki til fjhn. á þessu stigi. Á eftir væri svo hægt að flytja brtt. við fjárl. um sérstaka fjárveitingu í þessu skyni.