03.03.1947
Neðri deild: 84. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (4306)

182. mál, út- og uppskipun á Ísafirði

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Ég ætla á þessu stigi málsins ekki að tala margt um málið á þskj. 452, sem þeir hafa rætt og nokkuð deilt um, hv. flm. (FJ) og hv. þm. N-Ísf. (SB). Það er þó eitt í grg. frv. og í sambandi við frv. sjálft, sem ég á erfitt með að skilja. Frv. er fram borið í þeim tilgangi að auka tekjur bæjarsjóðs, svo að hann fái staðið undir ýmsum framkvæmdum, sem gera á í kaupstaðnum, og mér sýnist eftir grg. að dæma, að kostnaður muni nema allt að 71/2 millj. kr., og tek ég þar stærri töluna. Eftir reynslu minni og þekkingu veit ég, að út- og uppskipunargjald er sá liður, sem mjög fer eftir kaupgjaldi á hverjum tíma, en nú er vitað, að kaupgjald — eða vísitala — hefur hækkað mjög frá þeirri vísitölu, sem miðað er við í grg., og ég hygg, að alls staðar sé haft vakandi auga með því, að út- og uppskipunargjald verði ekki neinn óeðlilega hár liður, og sízt átti ég von á slíku frv. sem þessu frá hv. þm. Ísaf., en honum ber að gæta hags skjólstæðinga sinna, en svo er og um bæjarstjórann, og ég á þar við, að vitanlega væntir neytandinn þess, að hann þurfi ekki að greiða óþarfa tolla af út- og uppskipunargjaldi. Ég vil minna á það, að það hefur verið þannig, að við höfum oft deilt á eimskipafélagið og skipaútgerð ríkisins fyrir það, hve út- og uppskipunargjald er óeðlilega hátt, en það hefur ekki eftir vísitölu og þeim taxta, sem hér gildir, verið hægt að hafa það lægra. — Ég vildi aðeins benda á þetta.

Mér heyrist, að vísa eigi málinu til fjhn., og hef ég þá ef til frekari aðstöðu til þess að fá þær upplýsingar, sem mig langaði sérstaklega til þess að fá, þegar ég varð þess var, að óskað er eftir að frv. þetta verði samþ. til tekjuaukningar fyrir Ísafjarðarkaupstað, og jafnvel til þess að létta undir með ýmsar framkvæmdir í bænum, eins og fram kemur í grg. En ég tel það vafasamt, að það sé í anda þessara hv. umboðsmanna Ísafjarðar, sem gæta eiga hagsmuna neytenda, að koma fram með þetta. — Ég vildi hafa skotið viðhorfi mínu þannig fram, að þær umr., sem hér hafa átt sér stað, eru að vísu ekki eðlilegar að einu leyti, því að annars vegar er maður, sem álítur málunum bezt borgið með því móti, að rekstur verði að mestu í höndum ríkis eða bæjarfélaga, en hins vegar er svo maður, sem álítur, að hið frjálsa framtak og samkeppni í útboði í einu og öðru sé enn heppilegri leið og mundi í þessu tilfelli verða til þess að skapa neytendum hagkvæmari aðstöðu og betri kjör. Og það er skylda hvers bæjarfélags fyrst og fremst að gæta hagsmuna neytendanna í heild. Ég mun eindregið telja mig fríhyggjumann í þessu efni, og þess vegna álít ég, hvað þetta mál snertir a.m.k., að það þurfi ýmislegt að athuga í sambandi við frv., áður en sú verði niðurstaðan, sem vænzt er með flutningi þess, að það verði nokkur tekjulind fyrir Ísafjarðarkaupstað.