20.03.1947
Neðri deild: 100. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í C-deild Alþingistíðinda. (4327)

203. mál, þjóðhátíðardagur 17. júní og frídagur 1. maí

Flm. (Hermann Guðmundsson):

Það er rétt hermt hjá hv. 7. þm. Reykv., að viðræður hafa átt sér stað milli mín og hv. þm. N-Ísf. um þetta mál. Það var nokkuð snemma á þessu þingi, að ég ræddi við hann um það, að við flyttum saman frv. um þetta efni. Eftir miklar viðræður tjáði hann mér, að hann mundi eigi geta verið með í því að flytja frv. um að gera 17. júní að þjóðhátíðardegi, þar sem ágreiningur væri kominn fram um það, sem hv. 7. þm. Reykv. minntist á — ákvæðið um 1. maí. Um það að gera 1. maí að fánadegi er það að segja, að með því öðlaðist sá dagur ekki það, sem farið er fram á í þessu frv., að vera lögboðinn frídagur. Það er rétt að lögbjóða 1. maí sem frídag, því að með því nær hann til fleiri manna en hann gerir nú. Ég sé svo ekki ástæðu til að taka fleira fram í sambandi við ræðu hv. 7. þm. Reykv.