16.04.1947
Neðri deild: 115. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í C-deild Alþingistíðinda. (4335)

222. mál, almannatryggingar

Flm. (Hermann Guðmundsson):

Herra forseti. Það hefur löngum þótt við brenna, að fólk, sem stundar íþróttir, hafi ekki verið tryggt gegn slysum eins og vera ber, en um gildi íþrótta þarf ég ekki að ræða hér, íþróttastarfsemin er fyrir löngu síðan orðin viðurkennd, bæði af alþýðu manna og Alþ. En einmitt með tilliti til viðurkenningar Alþ. á þessari starfsemi í landinu er það næsta undarlegt, að ekki skyldi vera tekið tillit til íþróttamanna, er þessi lagabálkur var endurskoðaður fyrir ári síðan og þá raunverulega sett ný löggjöf. Af þessum sökum er frv. þetta flutt. Viðvíkjandi því, að íþróttafólk njóti ákvæða tryggingalaganna, er það að segja, að íþróttir eru nú viðurkenndur liður í uppeldi æskunnar í landinu, og er ekki nema sanngjarnt, að þetta fólk njóti þeirra ákvæða, sem ná til launþeganna. Íþróttamenn verða stundum fyrir slysum og eru oft lengi frá verkum af þeim sökum og bíða tilfinnanlegan skaða við það, og er ekki nema sjálfsagt, úr því þjóðfélagið viðurkennir, að greiða beri veikindabætur, að íþróttafólk komi þar undir eins og aðrir. En í þessu sambandi er eðlilegt, að sú spurning komi upp í huga margra, hver ætti fjárhagslega að standa straum af því, ef þetta frv. yrði samþ. Það eru íþróttafélögin, sem eiga að greiða iðgjöldin fyrir íþróttafólkið eða íþróttaiðkendur, og þarf það ekki að íþyngja þeim um of, því að tryggja má ákveðinn hóp eða fjölda manna, eins og atvinnurekendur gera, og nær þá tryggingin tel allra, sem keppa eða æfa íþróttir á vegum félagsins. Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta. Óskir íþróttamannanna sjálfra liggja til grundvallar þessu frv. Á ársþingi íþróttamanna hafa oft komið fram raddir um þetta, og nú síðast hefur íþróttabandalag Hafnarfjarðar samþykkt ákveðna áskorun um þetta atriði. Frv. mitt er afleiðing af þessum óskum íþróttamanna, og auk þess lít ég þannig persónulega á þetta mál, að það sé mikið réttlætismál og bæti úr mikilli vöntun í tryggingalöggjöfinni, og ég vænti þess, að það verði samþ. Að svo mæltu óska ég eftir, að málinu verði vísað til heilbr.- og félmn.