27.11.1946
Efri deild: 21. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í C-deild Alþingistíðinda. (4396)

86. mál, landshöfn og fiskiðjuver í Höfn í Hornafirði

Björn Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil segja það, að ég er glaður af því að heyra þann mikla áhuga, sem hæstv. ráðh. hefur á hafnargerðum yfirleitt. Ég er honum sammála um það, að áður en ráðizt er í nýjar framkvæmdir á því sviði fram yfir það, sem þegar er búið að lögleiða — á ég þar við landshöf n í N j arðvíkum — þá sé nauðsynlegt að athuga mjög vel staðhætti þar, sem kemur til mála að gera þessar landshafnir, bera saman og taka í fyrstu röð það, sem mesta og almennasta þýðingu hefur. Þó að ég beri fyrir brjósti og flytti á þinginu í fyrra frv. um landshöfn á Þórshöfn, þá fellst ég þó á það alþjóðarsjónarmið, að landshafnir verði ekki gerðar af handahófi, heldur verði vandlega athugað, bæði það almenna gagn, sem þjóðin hefði af því, að þær væru gerðar, og eins verði vandlega athugað um allan kostnað, sem að þessum framkvæmdum lýtur.

Eins og hv. þm. kannast við og líka kom fram í ræðu hæstv. ráðh., þá var sams konar frv. og hér liggur fyrir, og einnig frv. um landshafnargerð á Þórshöfn, flutt á þinginu í fyrra. Þessi mál voru afgr. í einu lagi með rökst. dagskrá á þá leið, að Alþ. skoraði á ríkisstj. að láta flýta sem mest rannsókn á þeim stöðum, sem nefndir eru í dagskránni, þeim tveimur, sem nú hafa verið nefndir, og auk þess Rifi á Snæfellsnesi og Þorlákshöfn. Það var tekið fram í dagskrártill., að þess væri óskað, að þessi rannsókn yrði gerð á næsta sumri, þ.e. á s.l. sumri. Nú held ég, að ég megi fullyrða að því er Þórshöfn snertir, að þar hafi engin rannsókn verið gerð á s.l. sumri, og stafar það sennilega af því, sem hæstv. ráðh. tók fram, annríki í vitamálaskrifstofunni. Verkfræðingur frá vitamálaskrifstofunni kom að vísu til Þórshafnar og var þar einn dag, sat á fundi með hafnarnefnd, en gerði engar rannsóknir. Nú er ekki að sakast um það, sem orðið er í þessum efnum, en ég vil rifja upp efni þessarar dagskrártill. og vænti þess, að hæstv. ráðh. láti gera meira en gert var á s.l. sumri í þessa átt.

En úr því að ég stóð upp, vil ég líka segja það, að ég er sammála hv. 1. þm. N-M. og hæstv. ráðh. um það, að það er alveg nauðsynlegt, áður en slíkar framkvæmdir sem þessar eru hafnar, að ríkið tryggi sér nægilegt land til umráða til þess að girða fyrir verðhækkun, sem hlýtur að verða, ef síðar á að framkvæma kaupsamninga við eigendur landsins. Að því er Þórshöfn snertir, vil ég mælast til þess við hæstv. ráðh., að hann léti fyrr en seinna athuga, hvort ekki er hægt að ná viðunandi samningum við þá menn, sem nú eiga landið að þeirri höfn, sem talað er um, að gerð kunni að verða á Þórshöfn, og ég vona, að verði gerð áður en langt um líður. Ég vil því mælast til þess, að þetta verði athugað sem fyrst, og það því fremur, þar sem ríkið hefur þegar keypt lóðarréttindi eða lóð, sem var í leigu á sínum tíma. Úr því að ríkið er búið að kaupa þá lóð, finnst mér sjálfsagt, að það leiti samninga um meira land. Þessu vildi ég skjóta til hæstv. ráðh.