28.04.1947
Efri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í C-deild Alþingistíðinda. (4513)

206. mál, innflutningur búfjár

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þetta er ákaflega einkennilega undirbúið mál, og raunar tveimur ólíkum málum blandað saman. Annað er að koma upp sóttvarnarstöð, sem er alveg sjálfsagt, en hins vegar er heimild til að flytja inn búfé. Það þarf að flytja tvö frv. um þessi mál. Þetta er sérstaklega augljóst með tilliti til 4. gr., en þar er tekið fram, að byggja verði sóttvarnarstöðina, áður en búfé eða önnur dýr eru flutt inn samkv. l. þessum. Það þarf því fyrst að samþ. frv. um stöðina, því að það er skýrt fram tekið í 4. gr., að stöðvaður verði allur innflutningur dýra, unz stöðin er komin upp.

Hins vegar er enginn stafur í þessu frv. um kostnað af þessum framkvæmdum eða hvort hægt væri að byggja þetta í sambandi við önnur fyrirtæki, sem ríkið á og rekur, t.d. á Hesti í Borgarfirði eða á Keldum í Mosfellssveit. Mér er kunnugt um, að á Keldum á að rannsaka og einangra dýr, og á Hesti er verið að rannsaka, hv aða kyn þoli bezt mæðiveikina, og ég hef heyrt, að af 20 tegundum, sem þar eru gerðar tilraunir með, væru vonir um, að tvær gætu staðizt veikina, og þó kostar sú stöð hundruð þúsunda á ári hverju. Hér er verið að ana út í óundirbúið mál, og hafa verið nefndir a.m.k. þrír staðir í því sambandi, en engum dettur í hug að tengja þessa fyrirhuguðu stofnun öðrum svipuðum ríkisstofnunum, sem fyrir eru, og í sambandi við afgreiðslu fjárl. var heimilað að kaupa Engey í þessu skyni.