26.02.1947
Sameinað þing: 31. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í D-deild Alþingistíðinda. (4642)

75. mál, bætt starfsskilyrði á Alþingi

Einar Olgeirsson:

Ég vil taka undir það, sem hv. 1. þm. Eyf. ræddi um, varðandi þingmannabústað. Það er alveg rétt, að aðbúnaður utanbæjarþm. er mjög slæmur, og æskilegt, að hægt hefði verið að bæta úr því. En vafalaust yrði sú bygging út af fyrir sig, en ekki í sambandi við þinghúsið sjálft, og þess vegna, þó að það mál heyri undir þessa þál., eins og hún er hér, þá kæmi það ekki inn í það mál, sem ég og hæstv. forsrh. vorum að ræða áðan, framtíðarstarfsskilyrði Alþ. Ég vil segja það í sambandi við það, sem hæstv. forsrh. sagði, hugmyndina um að byggja nýtt þinghús, að ég held, að við eigum að fara hægt í þess háttar hluti. Það getur verið ágætt að byggja virkilega gott hús fyrir utanbæjarþm. og skapa starfsskilyrði fyrir þingið sem allra bezt. Það er vissulega rétt, að það er mjög gaman að því að sjá stór, nýtízku þinghús, eins og hann var að tala um í Helsingfors. En það er einn hlutur, sem maður saknar í slíkum húsum, en sér aftur á móti í þessum eldgömlu þinghúsum, sem eru að mörgu leyti miklu ópraktískari, eins og t.d. þinghúsinu í London, Prag o.fl., þar sem þau eru margra alda gömul. Það, sem hefur mest áhrif á mann í sambandi við þetta, þegar komið er inn í þessi eldgömlu þinghús, er þetta gamla umhverfi. Það er eins og allt sé lifandi í kringum mann. Það er enginn efi á því, að slíkt hefur áhrif á þann, sem er að vinna í slíku þinghúsi. Ég álít, að það sé lífsspursmál fyrir þjóð eins og okkur, sem á gamla þingsögu, að tryggja það í sambandi við starfsskilyrði Alþ., að þessi þingsaga sé lifandi fyrir alþm. allan þingtímann, að húsakynnin séu þau sömu, og helzt, að stólarnir, sem þm. sitja í, séu þeir sömu. Það er þetta, sem við getum ekki skapað í nýju þinghúsi, en gefur gömlu þinghúsunum það gildi, sem ekki er að finna í nýju þinghúsi. Það er hægt að skapa nýja sögu kringum nýja menn, en það verður ekki eins þægilegt, hvorki með málverkum né öðru, að tengja hana við þá gömlu.

Við Íslendingar erum alltaf að byggja og höfum tekið þannig við okkar landi, að við höfum ekkert af gömlum húsum, og í lok þessarar aldar má gera ráð fyrir, að ekki verði nema eitt hús af hverjum þúsund uppistandandi, og við megum vera vissir um það, að þær kynslóðir, sem á eftir okkur koma, kunna að meta það, sem gamalt er. En þá er það spurningin, hvaða stofnun það sé hér á landi, sem mesta kröfu á á því, að fyrst og fremst séu minningar tengdar við hana frekar en allar aðrar. Á nokkur stofnun ríkari kröfu á því en Alþ? Ég held, að ég hafi tilfinningu fyrir menntaskólanum eins og hver annar stúdent, en ég verð að segja það, að sumar endurminningarnar eru tengdar við gamla menntaskólahúsið. Það kemur að því, að þetta hús hættir að vera menntaskóli, því að það þarf að byggja fyrir uppvaxandi kynslóð nýtt hús. Alþ. hins vegar var 40 ár í þessu húsi og Alþ. á þarna sína glæsilegustu sögu. Jón Sigurðsson er þarna í þjóðfundarsalnum allan sinn tíma, og hann er forseti þarna allt það skeið, sem hann er forseti þingsins, og við salinn í menntaskólahúsinu eru tengdar minningar, sem fara, fyrir þjóðina og Alþ., langt fram úr öllu gildi, sem nokkrar minningar, sem maður getur haft sem stúdent frá menntaskólanum, geta haft, og þess vegna getur það aldrei orðið sambærilegt á móti slíku. Ég álít því, að Alþ. eigi kröfu á því, að þessi gamla stofnun verði tengd við það aftur, og það er eitt af því, sem við þurfum að gera til þess að slíta ekki tengslin í okkar sögu, það er að tengja þessa gömlu byggingu aftur við hana. Ef forseti lýðveldisins situr í þessu húsi og tekur 1/4 af því til sinna nota og þjóðfundarsalurinn er útbúinn sérstaklega sem viðhafnarsalur, þá er enginn efi á því, að húsið missir ekki að neinu leyti virðuleik sinn, og móttökur, sem fram færu í þessu húsi, mundu verða virðulegri en nokkru sinni fyrr. Ég held þess vegna, að það sé ekki rétt að tala um þessa hugmynd sem niðurlægingu fyrir menntaskólann; að útbúa hann fyrir Alþ., forseta lýðveldisins, lestrarsal o.fl. Ég álít, að þessi hugmynd sé þess verð, að ríkisstj. og forseti þingsins taki hana til athugunar. Þetta yrði ekki aðeins praktískt, heldur líka sérstaklega hitt, að það andlega umhverfi, sem þar með fengist, væri áreiðanlega eins dýrmætt og margt af því, sem ynnist við það að byggja nýtt hús til þess að bæta úr þessum skorti.

Um hitt spursmálið, að fara að byggja hér við á lóð þingsins hér í kring, þá veit ég ekki, hvernig það er hugsað í sambandi við skipulag bæjarins. Ég er hræddur um, að það sé verið að hugsa um að byggja stórhýsi vestan við okkur. Ég álít ófært að byggja t.d. 6–8 hæða nýtízku stórhýsi á svæðinu frá Tjarnargötu, sem gerði dómkirkjuna og alþingishúsið að smákofum. Ég held, að það ætti að rífa öll hús milli alþingishússins og Tjarnargötu og smám saman öll hús í hálfhring hér í kring, til þess að geta búið til fallegan garð hér allt í kringum. Við eigum að reyna að varðveita þennan gamla part af bænum, eins og hann er nú, og byggja ekki neitt nýtt þar í viðbót til þess að láta þetta tvennt, alþingishúsið og dómkirkjuna, verða eins og tákn fyrir þá gömlu Reykjavík, láta það halda sér og hafa í kringum það fallega grasvelli og torg, en ekki fara að byggja stórbyggingar á lóðunum hér í kring, sem mundu gera þetta að einhverjum smáhýsum. Þess vegna er ég á móti þeirri hugmynd að fara að byggja hér við, held, að einmitt þetta eigi að halda sér, fyrir framtíðina mundi það verða skemmtilegast. Ef Reykjavík heldur áfram að vaxa, þá verður það svo, að það verður varla nokkur blettur til, sem minnir á 19. öldina, og ef það verður byggt, eins og sumir hugsa sér, á næstu áratugum, þá verður það þannig, að það verður mjög lítið eftir af þessum gömlu byggingum inni á milli skýjakljúfanna, sem kunna að verða byggðar í framtíðinni. Þannig eigum við ekki að láta fara um þetta. Við eigum að láta gömlu húsin verða eins og gimsteina, sem búnir væru fallegri umgerð, en ekki að byggja hús í kringum þau, sem skara fram úr. Þess vegna held ég, þó að það sé skemmtilegt að eiga stór og flott þinghús, að fyrir okkur, sem höfum vald á því, hvernig hlutirnir mótast í kringum okkur, þá sé ekki heppilegt að fara út í slíkt. Við eigum að reyna að viðhalda þessu gamla, þannig að hið nýja umhverfi skaði það ekki. Við eigum að sjá til þess, að slíkir staðir, sem við höfum ennþá vald á að tengja við okkar sögu, verði notaðir einmitt á þann hátt. Þess vegna held ég í sambandi við úrlausn á þessu máli, að það eigi að athuga þetta spursmál mjög vel — menntaskólahúsið. Hins vegar er það rétt, að það mundu verða nokkur ár, þangað til þannig yrði bætt úr þessu. En hins vegar er bygging þingmannahúss brýn nauðsyn og það sem allra fyrst. Og vafalaust mætti þannig búa um þarna, að hægt væri að bæta úr starfsskilyrðum hér, og væri hægt að gera það tiltölulega mjög fljótt, ef ráðizt yrði í þetta, án þess að nokkur af þeim vandamálum, sem upp kynnu að koma í sambandi við það, sem hæstv. forsrh. var að tala um, yrðu þar með endanlega útkljáð.

Ég vildi aðeins segja þetta út af mótbárum á móti þessari hugmynd.