11.03.1947
Sameinað þing: 35. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (4679)

190. mál, togarakaup fyrir Stykkishólm

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Eftir þessari till. að dæma hafa íbúar Stykkishólms áhuga fyrir því að eignast togara. Hv. flm. segir hér í grg., að þeim hafi boðizt til kaups gamall togari, sem Viðey heitir, fyrir 1200,000,00 kr., en mér skildist á flm., að þeir væru búnir að festa kaup á þessu skipi.

Þetta skip, sem hér um ræðir, er nú ekki nýtt, það er 26 ára gamalt. Skip þetta hét áður Snorri goði og var þá eign Kveldúlfs. En svo seldi Kveldúlfur togarann hlutafélagi með sama nafni og skipið ber nú, Viðey. og var söluverð hans þá 9 hundruð þús. kr. Nú lítur út fyrir, að eigendur skipsins séu búnir að fá nóg af því og vilja láta það aftur, enda fyrir 1200,000,00 kr. og það á ábyrgð ríkissjóðs. Ég held, að þetta verð sé óeðlilega hátt. Það hafa nú undanfarið verið seld nokkur af gömlu botnvörpuskipunum til Færeyja, en verðið hefur verið lægra en þetta. Ég hygg, að það verð sé um það bil 1/3 lægra, eða 800–900 þús. kr. Með tilliti til þessa finnst mér það vera of hátt verð, sem þeir í Stykkishólmi eiga að borga.

Ég vil nú benda á það, að nú bjóðast nýir togarar til kaups, að vísu fyrir nokkru hærra verð en þetta. Ég sá nú fyrir skemmstu auglýsingu í blöðunum frá Gísla Jónssyni, hv. þm. Barð., þar sem hann auglýsir eftir kaupendum að brezkum dieseltogurum fyrir verð, sem mun láta nærri, að sé 1700000,00 kr. Þetta er raunar hærra verð, en hér er um nýtt skip að ræða. Ég vil því mæla með því, þegar stuðningur er veittur til þess að stækka skipaflotann, að það sé athugað vandlega, að sú aðstoð komi að sem beztum notum, en ég tel mikið vafamál, hvort eigi að veita ábyrgð fyrir svona gömlu skipi fyrir svo hátt verð. Ég vildi láta þetta koma hér fram, áður en málið fer til n. Þá vil ég einnig benda á það, að vextir þeir, sem hér er um að ræða, eru hærri en hjá stofnlánadeild sjávarútvegsins, þar sem heimilt er að veita lán, allt að 2/3 kostnaðar, gegn 21/2% vöxtum, en hér er gert ráð fyrir 4%. Það er gert ráð fyrir, að greiddar séu 200 þús. kr. á ári, og ég efast um, að þeir verði færir um að borga þá fúlgu árlega í afborganir af þessu skipsverði.

Það er óákveðið, hvort um hreppsfélagið eða hlutafélag verður að ræða, en engin ákvæði eru um það, að hreppsfélagið eigi að vera í ábyrgð fyrir því, ef hlutafélagið getur ekki staðið í skilum.

Ég vænti þess svo, að hv. n. taki þessi atriði málsins til athugunar.