28.03.1947
Sameinað þing: 41. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (4690)

190. mál, togarakaup fyrir Stykkishólm

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Út af þessari skrifl. brtt. vildi ég benda á nokkur atriði. Ef hún næði samþykki, væri haldið inn á nýja og mjög varhugaverða braut, því að það er ekki hægt að byrja á að veita ríkisábyrgð á láni til hlutafélaga, nema það verði almennt. Og ef slík brtt. væri samþ., þyrfti ýmislegt að taka fram í því sambandi; t.d. um hámark hlutafjárupphæðar, útborgun arðs, og í þriðja lagi yrði að búa svo um hnútana, að hlutabréfin bærust ekki nema að takmörkuðu leyti út úr viðkomandi kaupstað eða sveit, unz skuldin er greidd, sem ríkið ábyrgist, og ríkið þar með úr ábyrgð. Af þessum sökum er ég ekki fylgjandi þessari brtt., en fylgi fast fram þeirri skoðun, að rétt sé að samþykkja þá brtt., sem meiri hl. fjvn. hefur lagt hér fram á þskj. 594, þar sem ábyrgð ríkisins er miðuð við, að hreppsfélagið sé eini eigandi fyrirtækisins.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Borgf., að það eru ýmsir ágallar á skattal. í þessu sambandi, sem taka verður upp og leiðrétta, og verður það væntanlega gert innan skamms, t.d. að ýmis ríkisfyrirtæki greiði engan skatt til ríkisins og bæir reki skattfrjálsa stórútgerð. En því má ekki blanda inn í þetta mál. Það hefur t.d. verið byrjað á að láta landssmiðjuna greiða útsvar og skatta eins og hlutafélög, en það hefur enn ekki tekið til bæjarútgerðar, en að því hlýtur að stefna, að það sæki í það horf, að slíkur rekstur verði ekki skattfrjáls á ríkisins kostnað. Ég vænti þess svo, að aðaltill. fjvn. á þskj. 594 verði samþ., eins og meiri hl. nefndarinnar leggur til.