26.02.1947
Sameinað þing: 31. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (4720)

53. mál, meðferð opinberra mála

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Allshn. er að sjálfsögðu fús til að ræða við hæstv. dómsmrh. um einhverjar aðrar till. í þessu máli en lagðar eru til í nál., sem till. hennar birtist í. Ég vil taka undir það, sem hæstv. ráðh. sagði, og lýsa því hér, að allshn. fannst ekki ráðlegt að leggja til, að þáltill. væri samþ., þannig að í henni fælist fyrst og fremst áskorun um það, að borið yrði fram óbreytt frv. það, sem legið hefur fyrir hæstv. Alþ. áður um meðferð opinberra mála. Það er alveg greinilega tekið fram í áliti n., að hún ætlast fyrst og fremst til þess, að það fari fram endurskoðun á þeim till., sem það frv. byggist á. Allshn. er það ljóst, að það hafa ýmsar breyt. gerzt, síðan það frv. var fram borið, og enn fremur má um það deila, eins og hæstv. ráðh. tók fram, hversu ýtarlegar og vel hugsaðar þær till. hafa verið, sem á sínum tíma voru fram bornar um málið. Ég vil því óska þess við hæstv. forseta, að umr. um þetta mál verði ekki lengur fram haldið nú á þessum fundi, svo að n. geti haft fund um málið til þess að hafa samráð við hæstv. dómsmrh. um endanlegt orðalag þáltill.