06.02.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í D-deild Alþingistíðinda. (5070)

285. mál, nýir vegir og brýr

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Mér skildist á hv. þm. Barð., að hann efaðist um það, sem ég sagði um þetta línurit, og vildi helzt, að ég færi strax og sækti það, en ég get upplýst hv. þm. Barð. um það, að meðan hann var að halda sína ræðu, sagði vegamálastjóri mér, að hann hefði verið í fjvn. með þetta línurit, þótt það hafi ef til vill ekki verið í tíð hv. þm. Barð., og þarf hann því hvorki að vera með ásakanir í minn garð eða vegamálastjóra um þetta efni. — Annars hafði þessi hv. þm. einnig þau furðulegu ummæli eftir mér, að ég hefði látið í ljós þá skoðun, að öræfavegalagningar ættu að ganga fyrir vegalagningum til þess að bæta úr mjólkurskorti mjólkurlausra bæja. Sannleikurinn er sá, að ég hef alls enga skoðun látið uppi um þetta atriði, en hitt sagði ég, að ekki þyrfti að slá um það neinu föstu fyrir fram, í hvaða röð þessar athuganir yrðu gerðar. Hv. þm. hættir stundum við að líta of mikið á sjónarmið sinna héraða, og er hv. þm. Barð. engin undantekning í þeim efnum. Vil ég benda honum á, að það eru fleiri sýslur en Barðastrandarsýsla, sem ekki hafa fengið óskir sínar uppfylltar í vegamálum. Ég veit ekki, hvort það sé rétta leiðin, að hv. þm. togist á um þessi atriði, heldur að þau séu útkljáð af tiltölulega hlutlausum aðilum, sem hafa hina fullkomnustu reynslu og þekkingu á þessu sviði. — Hvað þau ummæli hv. þm. Barð. snertir, að ég og vegamálastjóri höfum hlunnfarið hann í vegalagningum í Barðastrandarsýslu, þá mótmæli ég því algerlega, a.m.k. hvað mig snertir. Ég hef enga tilhneigingu til þess að standa í vegi fyrir vegalagningum þar, og hef ég tekið mér ferð um þá sýslu til þess að reyna að kynnast vegaþörfinni þar af eigin reynd, þótt árangurinn af því hafi ef til vill ekki verið mikill, og sannast að segja hefur sú sýsla undanfarið fengið mjög sæmilegar upphæðir til vega, þótt þær hafi máske ekki nægt. En um þetta má endalaust deila, og er óvíst, að það sé gagnlegt fyrir afgreiðslu málsins, að vegamál þessarar sýslu séu rannsökuð af hlutlausum aðilum, sem sitja inni með meiri þekkingu og reynslu í þessum málum en menn hér, þar sem hver otar sínum tota — Skal ég svo ekki deila frekar við hv. þm. Barð., en vildi að þetta kæmi hér fram.