06.02.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í D-deild Alþingistíðinda. (5073)

285. mál, nýir vegir og brýr

Helgi Jónasson:

Herra forseti. — Ég skal ekki blanda mér mikið inn í þessa umr., en vil aðeins gefa nokkrar upplýsingar um það línurit, sem svo mjög hefur verið deilt um. Ég skal taka það fram, að það getur verið, að línuritið hafi verið lagt fyrir n., áður en hv. þm. Barð. tók sæti í henni, enda var þetta gamalt línurit, er náði fram til ársins 1939.

Hv. þm. S-Þ. telur það mjög æskilegt og nauðsynlegt að leggja vegi um óbyggðir, en ég álít, að það sé hagkvæmara fyrir almenning að leggja meiri áherzlu á vegagerð í byggð, meðan í hverri sýslu er tilfinnanlegur skortur á vegum, svo að menn geta vart haldizt við á jörðum sínum sakir lélegra samgangna. Þessi hv. þm. talaði einnig um það, að nauðsynlegt væri fyrir Rangæinga að fá veg upp á afréttina handan Tungnaár. En nú stendur svo á, að sá hreppur, sem hefur þarna afréttarland, má alls ekki nota það, og eru hreppsbúar nú árlega að skera niður fé sitt. Ef til vill getur hv. þm. S-Þ. sem meðlimur í sauðfjársjúkdómanefnd komið því til leiðar, að Rangæingar geti endurreist fjárstofn sinn, og væri það mjög æskilegt. En nú liggur Rangæingum áreiðanlega meira á því að leggja veg innan sýslu, og þó að þessi afréttarvegur sé góður fyrir skemmtiferðafólk, yrði ekkert gagn í honum fyrir atvinnuvegina.