10.02.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í D-deild Alþingistíðinda. (5100)

333. mál, húsaleigulöggjöf

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagðist vita, að meiri hörku væri beitt gegn húseigendum í Noregi en hér. Mér finnst það ekki að furða. Þar er ástand ólíkt því, sem hér er. Þar voru þýzkir hermenn, er ráku fólk úr íbúðum sínum og eyðilögðu heil hverfi. En jafnvel í Englandi hafa menn aldrei séð sér fært það nauðungarsambýli, sem komizt hefur inn í l. hér á landi. Hér standa nú um 400 íbúðir ónotaðar vegna þess, hve löggjöfin er óhentug. Það er óhætt að fullyrða, að það er kominn tími til að fara með þetta mál eins og önnur vandamál. L. hefur verið illa framfylgt, og allar tegundir af sleifarlagi hafa haldið innreið sína í þetta mál. Út af því, hvort heppilegt sé að setja eina fjölskyldu með nauðung til annarrar, þá var eitt skáld bæjarins, er kom fram með röksemdir, sem eyðilögðu þetta, og gerði hann þessu góð skil í leikritinu „Leynimelur 13“, og er í því gengið að kjarna málsins. Það, sem gerðist í leikritinu, var, að íbúð fannst, sem ekki þótti fullsetin, t.d. var þar rúmgóð forstofa. Þar setti sig niður ný fjölskylda, er hagnýtti forstofuna og hengdi upp þvott þar, og í húsinu fannst málverk eftir Kjarval, og var það tekið af hinum nýkomnu og notað sem bakki. Það er kannske ekki hrós fyrir okkur þm., að þegar við erum að reyna að rökstyðja mál, þá er oft eins og eyru manna séu lokuð, en skáldum tekst oft miklu betur. Þessi skáldskapur drap hugsunarhátt nauðungarframkvæmdanna, og mér dettur í hug, að hann mundi geta hindrað, að um 400 íbúðir standi hér ónotaðar. Ég vænti því, að þessu máli verði sinnt sæmilega.