20.02.1947
Sameinað þing: 30. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í D-deild Alþingistíðinda. (5125)

290. mál, samvinnubyggð

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Ég hef verið að velta því fyrir mér, síðan till. kom fram, á hvern hátt ég gæti sýnt þakklæti mitt í verki fyrir það mikla traust, sem hv. þm. S-Þ. sýnir mér og mínum flokki með þessari till., og fyrir allan greiða, sem hann hefur gert okkur fyrr og síðar. Ég hef verið að hugsa um, hvað manni í hans stöðu og á hans aldri kæmi vel, því að ég vil vanda vel launin fyrir þessa till. og fyrir allt það, sem hann hefur gert fyrir okkur sósíalista og okkar flokk.

Það var siður í fyrri daga, að menn gæfu próventu sína til þess að eignast athvarf í ellinni, og ég get ekki hugsað mér neitt, sem gömlum manni eins og Jónasi Jónssyni kæmi betur í ellinni en að fá öruggt athvarf, fá svo góða grafskrift og þá einnig að fá grafhellu úr íslenzku efni á leiðið sitt. Með tilliti til þessa hefur mér dottið í hug að bera fram við síðari meðferð málsins á þingi brtt., sem sé að við till. bætist svo hljóðandi: „Enda veiti búið próventu Jónasar Jónssonar viðtöku og sjái honum fyrir athvarfi í ellinni, veiti honum heiðarlega grafskrift og leggi grafhellu úr íslenzku efni á leiði hans.“

Ég mun ekki leggja till. fram á þessu stigi málsins, en mun gera það síðar í þakklætisskyni fyrir þá umhyggju, sem hv. þm. S-Þ. ber fyrir flokki mínum, og það traust, sem hann ber til hans.