23.04.1947
Sameinað þing: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

12. mál, fjárlög 1947

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég flyt hér aðeins fáar brtt. við fjárl. að þessu sinni. Áður en ég kem að því að mæla fyrir þeim, vil ég aðeins með örfáum orðum minnast á afgreiðslu hv. fjvn. á fjárveitingum, er varða kjördæmi mitt, Norður-Ísafjarðarsýslu. Ég tel, að þó að nokkrar upphæðir til vega þar séu allháar, til Bolungavíkurvegar t.d. 170 þús. kr. og til Súðavíkurvegar um 110 þús. kr., þá séu yfirleitt fjárveitingar til vega í Norður-Ísafjarðarsýslu langtum lægri en rök standa til. Ég hef við umr. fjárl. á hverju þingi á undanförnum árum bent á þá staðreynd, að þetta hérað hefur lengstum á því tímabili, þegar mest hefur verið unnið að vegaframkvæmdum í þessu landi, engan eyri fengið til þessara framkvæmda. Þetta hérað hefur verið svo að segja vegalaust. Þetta hefur frá ári til árs átt að heita að vera afsakað með því, að héraðið hefði allríflegan styrk til samgangna á sjó, það hefði haft um langt árabil og lengra árabil, en nokkurt annað hérað allriflegan styrk til flóabátaferða. Það er rétt, að við Norður-Ísfirðingar tókum fyrstir upp flóabátaferðirnar með gufubátum. En ég hygg, að það liggi í augum uppi, að þó að fólkið í þessu héraði hafi með myndarskap byrjað á þessu á undan öðrum, þá sé það ósanngirni, að það eigi fyrir það að vera dæmt úr leik um það um langa framtíð, þegar um vegabætur ríkisins er að ræða. Kröfur hafa mjög aukizt um bættar samgöngur yfirleitt í landinu, og þær hafa gert það einnig í þessu héraði. — Þörfin hefur verið sú sama í þessu héraði fyrir vegabætur eins og í flestum öðrum héruðum og byggðarlögum þessa lands. Og þarfirnar í þessu efni eru þarna ekki aðeins þarfir fólksins í hinum dreifðu byggðum, heldur líka fólksins, sem er í þéttbýlinu, þorpum og stærri kaupstöðum, sem fær neyzluvörur sínar frá nærliggjandi sveitum. — Ég vil ekki láta hjá líða að benda á, að ég tel fullkomið ósamræmi í afgreiðslu fjvn. á vegaframlögum til þessa héraðs, miðað við ýmis önnur héruð, og það jafnvel héruð á Vestfjörðum. Ég er ekki að mæla á móti því eða harma það, að önnur héruð en mitt kjördæmi komist sem fyrst í akvegasamband við önnur byggðarlög landsins. En ég hygg. að í þessum efnum hafi þess ekki verið gætt sem skyldi að hafa samræmi í þessum framkvæmdum.

Ég hef, eins og aðrir hv. þm., gengið inn á það, við hæstv. ríkisstj., að slegið yrði nokkuð af framlögum til verklegra framkvæmda. Ég hef talið, að nauðsyn bæri til þess, eins og komið er afgreiðslu fjárl. og fjárhag ríkissjóðs. En ég verð að segja, að á sama tíma sem verið er að kreista þessi 15% af einstökum vegafjárveitingum og hafnarfjárveitingum, þá koma sumar fjárveitingar, sem hæstv. ríkisstj. og fjvn. beita sér fyrir, nokkuð einkennilega fyrir sjónir. Á sama tíma sem verið er að setja l. um það, hvernig borgararnir megi haga sínum framkvæmdum, hvort ég eða Pétur eða Páll megi byggja hús og af hvaða stærð o.s.frv. þá finnst mér gæta ósamræmis milli þess og annars, sem hæstv. ríkisstj. leggur til. En á þessu stigi hirði ég ekki að ræða það miklu meira.

En ég vil sérstaklega undirstrika það, að til þess að sæmilega sé séð fyrir þörfum Norður-Ísafjarðarsýslu í samgöngumálum, þá þarf að stíga stærri skref en þau, sem mörkuð eru í þessum brtt., sem hér liggja fyrir. Það geta sjálfsagt fleiri hv. þm. sagt það sama viðkomandi sínum héruðum, en ég held, að fáir þm. geti bent á jafnlélegan skilning á þörfum síns héraðs í þessum efnum eins og við Norður-Ísfirðingar viðkomandi till. á Alþ. nú.

Ég flyt hér nokkrar brtt., ásamt hv. 3. landsk. þm. sumar og sumar einn. Ég bið hæstv. forseta afsökunar á því, að ég ræði þær nú, þó að þeim hafi ekki verið útbýtt. Fyrsta brtt., sem ég flyt, er um það, að hæstv, ríkisstj. verði heimilað að greiða Jörundi Gestssyni. bónda á Hellu í Steingrímsfirði. 5 þús. kr. til þess að koma upp hjá sér bátaviðgerðaverkstæði fyrir smærri báta. Á síðasta Alþ. fékk ég slíka samþ. um heimild til handa ríkisstj., og hún hefur verið notuð. Þessum bónda, sem er þjóðhagasmiður og kunnur í sínu héraði fyrir hagleik sinn, hefur þannig verið mögulegt að leggja grundvöll að þessari bátaviðgerðarstöð. En til þess að hún geti komið að fullum notum fyrir þá, sem til hennar þurfa að leita, þarf hann að fá fullkomin tæki o.s.frv. Og til þess þarf að gera nokkru meira, og það reyndar miklu meira en það, að þessar 5 þús. kr. hrökkvi til, sem ég legg til, að ríkisstj. verði heimilað að greiða í þessu skyni. Ég vænti, að hæstv. Alþ. láti ekki staðar numið með það að hjálpa þessari virðingarverðu viðleitni þessa bónda í Steingrímsfirðinum, til þess að hann geti haldið þessu starfi áfram, ekki aðeins til hagsbóta fyrir hann, heldur fyrir þá útgerð. sem er þarna í Steingrímsfirðinum og víðar í Strandasýslu.

Þá flyt ég ásamt hv. 3. landsk. þm. brtt. um það að heimila ríkisstj. að greiða Jóni M. Jónssyni bónda í Engidal í Skutulsfirði 12 þús. kr. skaðabætur fyrir tjón, sem hann beið við það að vera í 12 ár settur í sóttkví á heimili sínu ásamt því, að honum var bönnuð afurðasala. Ég vil skýra frá því, hvernig þessu máli er varið.

Árið 1925 var þetta heimili grunað um, að þar væru taugaveikismitberar, og var heimilið þá sett í sóttkví og bannað að selja frá búi þessa bónda mjólk og mjólkurafurðir. sem var þá aðalframleiðsla bóndans eins og annarra bænda í nágrenni Ísafjarðarkaupstaðar. Nú var það svo, að það var látin fara fram ýtarleg rannsókn, eins og að líkum lætur, hvort þetta væri þannig, að heimilið væri hættulegt. Niðurstaðan varð sú, að árið 1927 fékk bóndinn vottorð um, að af honum væri engin smithætta og hann mætti fara frjáls allra sinna ferða. en heimilið átti samt sem áður að halda áfram að vera í þessari sóttkví, og afurðasölubanninu var ekki létt af í 12 ár. Allan þann tíma mátti þessi bóndi ekki selja mjólk eða mjólkurafurðir frá heimili sínu. Ég hirði ekki að rekja þessa sögu lengur. Það er ekki fyrr en 1937, sem þessu sölubanni er létt af. Það var mjög tilfinnanlegt tjón fyrir þann bónda, sem hafði nýlega keypt ábýlisjörð sína, að mega ekki framleiða mjólk. Það tjón, sem hann hefur beðið af þessu, nemur áreiðanlega ekki þeirri upphæð, sem farið er fram á í till. minni og hv. 3. landsk., heldur miklu meira. Ég vænti því, að á þetta mál verði litið sem sanngirnismál og Alþ. samþykki að leggja úr ríkissjóði þennan litla skerf til að létta þessum bónda það tjón, sem hann varð fyrir þarna.

Þá flyt ég ásamt hv. 3. landsk. till. um að heimila stjórninni að greiða fólki því, sem varð fyrir tilfinnanlegustu tjóni í snjóflóðunum í Skutulsfirði í vetur, 25 þús. kr. bætur úr ríkissjóði. Eins og þm. rekur minni til, þá féllu mjög mikil snjóflóð síðari hluta vetrar í Skutulsfirði í nágrenni Ísafjarðarkaupstaðar. Við það sópuðust á brott allmargir sumarbústaðir á Ísafirði og stórskemmdust eða sópuðust gersamlega á brott tvö íbúðarhús. Nú er það þannig, að það er ekki kleift að tryggja gegn snjóflóðahættu, og Brunabótafélag Íslands, sem þessi hús eru tryggð í, telur, að sér beri ekki skylda til að bæta þetta tjón. Það eru aðallega tvær fjölskyldur, sem biðu mjög tilfinnanlegt tjón vegna þessa snjóflóðs. Annað íbúðarhúsið stórskemmdist, en hitt fór á sjó út og gereyðilagðist, og eigandi þess missti þar aleigu sína. en hann hafði nýlega keypt húsið og eignazt umhverfi þess. Við flm. þessarar till. teljum ekki óeðlilegt, að ríkið hlaupi undir bagga með fólki, sem verður þannig fyrir sérstöku tjóni. Það má að vísu gera ráð fyrir því, að þetta fólk fái tjón sitt að einhverju leyti bætt vegna aðstoðar frá hjálpsömum samborgurum. Samt sem áður er þetta tjón það mikið, að það má gera ráð fyrir, að það fái ekki tjónið bætt nema að mjög litlu leyti. Þess vegna höfum við flm. þessarar till. viljað stuðla að því. að Alþ. veiti smávægilegan styrk þessu fólki, sem hefur orðið fyrir þessu skakkafalli.

Þá hef ég flutt ásamt hv. 3. landsk. brtt. við 22. gr., að ríkisstj. verði heimilað að verja fé til að byggja björgunarskútu fyrir Vestfirði í samræmi við þá samninga, sem hæstv. fyrrv. ríkisstj. gerði við slysavarnasveit Vestfjarða og Slysavarnafélag Íslands um að byggja slíkt skip. Þeir samningar voru gerðir, að ég hygg, 1945 og liggja fyrir í fullu gildi, en af því hefur enn ekki orðið, að þeir yrðu framkvæmdir. Ég flutti á síðasta reglulegu þingi. 1946, þáltill. um þetta mál, að fela ríkisstj. að framkvæma þennan samning. Sú till. varð af sérstökum ástæðum ekki útrædd. Ég taldi þá, að von væri til þess, þrátt fyrir að þessi till. náði ekki afgreiðslu, þó að n. hefði fjallað um málið og meiri hl. mælt með henni, að möguleikar kynnu að vera á því, að hafin yrði bygging skips á s.l. sumri. En svo reyndist ekki. Björgunarskútumál Vestfjarða er mjög vel undirbúið, og björgunarfélagssamtökin á Vestfjörðum hafa gert samning við ríkisstj. um, að málið yrði leyst á ákveðinn veg. Ég tel þess vegna eðlilegt og við flm. þessarar till., að þessu máli sé hreyft nú. Nokkru eftir að ég lagði þessa till. inn, átti ég tal við hæstv. fjmrh. um þetta mál. Hann tók málinu vel og tjáði sig vera því samþykkan, að hafizt yrði handa um byggingu björgunarskútu fyrir það fé, sem kom, er skilað var aftur hinum hraðskreiðu mótorskipum, sem keypt voru í Englandi. Ég fagna því mjög, að hæstv. fjmrh. tók þannig í málið. Ég var ekki viðstaddur hér, þegar hv. þm. Ísaf. beindi til hæstv. ráðh. fyrirspurn um þetta, en mér er tjáð, að hæstv. ráðh. hafi gefið hv. þm. Ísaf. þau svör, að ríkisstj. vildi framkvæma samninginn, og býst ég við, að við flm. getum mjög vel sætt okkur við þá yfirlýsingu hæstv. ráðh. Að vísu spillti það sízt fyrir að fá slíka till. samþ. sem þessa, sem ég hef nú lýst. Hún væri frekari undirstrikun á því, að Alþ. ætlaðist til þess, að við þennan samning yrði staðið. En ég og við flm. treystum orðum hæstv. fjmrh., og við munum taka til athugunar ef til vill að taka þessa till. aftur.

Ég held þá, að ég hafi mælt fyrir þeim brtt., sem ég flyt hér ásamt öðrum hv. þm. En ég vil leyfa mér í sambandi við brtt. hv. fjvn. að spyrjast fyrir um það, hvernig skilja beri 32. brtt. hennar á þskj. 691. Þar stendur: Til íbúðarhúsabygginga samkvæmt 3. kafla l. nr. 44 7. maí 1946, 400 þús. kr. Eins og hv. alþm. er kunnugt, þá var á síðasta þingi sett löggjöf um opinbera aðstoð ríkisins við byggingar verkamannafélaga og samvinnubústaða og enn fremur aðstoð ríkisins við íbúðarhúsabyggingar sveitarfélaga. Nú er það þannig, að 3. kafli, sem um þetta fjallar, hefur alls ekki verið framkvæmdur. Það eru að vísu einstök bæjarfélög, sem hafa hafizt handa að byggja samkvæmt því loforði, sem þar er gefið um aðstoð ríkisins, Reykjavík og Ísafjarðarkaupstaður. Mér er ekki fullkunnugt um, hvaða atbeina Reykjavík hefur fengið frá ríkinu í sambandi við þessi l. Ég hygg, að þeir hafi enn þá enga aðstoð fengið, en mér er fyllilega kunnugt um, að Ísafjörður hefur ennþá enga aðstoð fengið til þess að vinna að þessum málum, þó að honum sé heimilt að fá ekki svo óríflegan styrk til þess samkvæmt þessum kafla, en þessi kafli er á þessu stigi málsins gersamlega pappírsgagn, eins og að líkindum verður, ef ríkissjóður sér sér ekki út eitthvert fé til þess að gera það kleift að standa við þessar skuldbindingar að l. Nú sé ég, að þarna eru áætlaðar 400 þús. kr. samkv. 3. kafla þessara l. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. félmrh., hvort þessi upphæð sé áætluð beint til þessara framkvæmda eða hvort það sé vaxtamismunur eða eitthvað slíkt. Það liggur nokkurn veginn í augum uppi, að ef þessi upphæð, 400 þús. kr., á að nægja til að standa við skuldbindingar l. um lán og styrk til þessara framkvæmda, þá hrökkva þær skammt.

Ég hygg, að ekki verði hjá því komizt, fyrst löggjafinn hefur sett þessi lagaákvæði, að sjá fyrir fé til þessara framkvæmda, sem hafnar eru samkvæmt loforði löggjafans. Það væri skrípaleikur, ef ríkið færi að gera sér leik að því að ginna opinbera aðila, sveitar- og bæjarstjórnir, út í framkvæmdir án þess að sýna lit á að standa við gefnar skuldbindingar. Það er áreiðanlega þörf á, að ríkið standi við gefnar skuldbindingar í þessu efni. Löggjöfin er sett fyrst og fremst af því, að brýn þörf er fyrir hendi, og er fyrst og fremst ætlazt til þess, að bæjarstjórnir og sveitarstjórnir setji sér það verkefni að útrýma heilsuspillandi íbúðum. Mér er kunnugt, að á nokkrum stöðum fór rannsókn fram, hversu margar heilsuspillandi íbúðir væru á viðkomandi stöðum. Á Ísafirði, þar sem þessi rannsókn fór fram svo að segja daginn eftir, að l. voru sett. reyndust vera 32 íbúðir, sem væru heilsuspillandi og nauðsynlegt væri, að fólkið flyttist úr í heilsusamleg húsakynni. Bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar hófst handa að byggja 12 íbúðir, og að svo miklu leyti sem þær eru komnar á rekspöl, hefur bærinn orðið að leggja fram hvern eyri sjálfur. Ég vil gjarnan heyra frá hæstv. félmrh. eða hv. frsm. fjvn., hvernig þessi fjárveiting er hugsuð.

Ég sé ekki ástæðu til á þessu stigi málsins að hafa fleiri orð um það mál, sem hér liggur fyrir. Ég tel, að það hafi ekki mikla þýðingu, þó að maður fari að gera ýmsar almennar aths., sem vissulega er þó ástæða til. Ég vék nokkuð að ýmsum atriðum í upphafi máls míns og get látið við það sitja, sem komið er.