23.04.1947
Sameinað þing: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

12. mál, fjárlög 1947

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég á hér brtt. á þskj. 702 við 13. gr. fjárlagafrv. Flutti ég sams konar till. hér við 2. umr., en tók þá aftur. Fer till. mín fram á 100 þús. kr. framlag til Útnesvegar. Undanfarin ár hefur verið veitt nokkurt fjárframlag til þessa vegar, m.a. 90 þús. kr. á síðasta ári. en hefur nú verið fellt niður. Virðist þetta vera gert að ófyrirsynju, þar sem þörfin er engu síður nú en áður. Þá kemur það hér til greina, að flugferðir hafa verið teknar upp vestur á Snæfellsnes. og lenda flugvélarnar á flugvelli við Gufuskála, sem er skammt frá Hellissandi, en hins vegar vantar algerlega veg milli þessara staða. Það er því mikil nauðsyn á, að vegasamband komist þarna á, og þess vegna er ætlazt til með till. minni, að 50 þús. af umræddri upphæð verði varið til vegagerðar frá Hellissandi að flugvellinum við Gufuskála.

Þá flyt ég ásamt þrem öðrum hv. þm. brtt. á sama þskj. undir IX., þar sem farið er fram á 40 þús. kr. til Karlakórs Reykjavíkur vegna söngfarar 1946 til Bandaríkjanna gegn jafnháu framlagi frá bæjarstjórn Reykjavíkur. Um þessa glæsilegu söngför karlakórsins til Vesturheims á s.l. hausti þarf ekki að fara mörgum orðum, þar eð hún er öllum kunn. Hins vegar varð kostnaðurinn af förinni svo mikill, að ógerningur er, að þátttakendur geti tekið hann á sig að öllu leyti. Varð því að samkomulagi í bæjarstjórn Reykjavíkur, að bærinn legði fram 40 þús. kr. til þess að greiða upp í hallann, sem af ferðinni varð, og fannst okkur í bæjarstjórninni, að fullkomlega réttmætt væri, að ríkisvaldið kæmi þarna á móti, þar sem karlakórinn með för sinni vann þjóðinni hið mesta kynningar- og menningarstarf. Vil ég því leyfa mér að vænta þess, að hv. Alþ. taki á þessari till. með skilningi og samþykki hana.

Ég mun ekki ræða aðrar þær till., sem ég er meðflm. að, nema aðeins eina, sem ekki hefur verið útbýtt. Fjallar hún um, að nýr liður bætist við 22. gr. fjárlagafrv., um að verja allt að 300 þús. kr. til vatnsveitna. Eins og kunnugt er, hafa vatnsveitumál kaupstaðanna verið mjög dofin undanfarin ár, og var fyrir 2 árum samþ. þáltill., þar sem ríkisstj. var falin rannsókn í þessum efnum. — Á þessum vetri lagði samgmrh. síðan fram frv. um styrk til vatnsveitna. Þessi till. mín í heimildagr. fjárl. er miðuð við, að hvort sem þetta verður afgr. sem styrkur eða lán, ef frv. verður að l., þá er hvor aðferðin, sem farin yrði, opin með minni till. Það hlýtur öllum að vera ljóst, að þörfin er hér svo gífurleg, að ekki má dragast lengur að bæta úr, þar sem aðstæður eru verstar hvað vatnsveitur snertir.

Síðasta brtt., sem ég mun gera hér að umtalsefni. er á þskj. 702, XIX. Er þar farið fram á að taka allt að 15 millj. kr. lán til íbúðarhúsabygginga samkv. III. kafla laga nr. 44 7. maí 1946. Það er mála sannast, að lítið hefur orðið um aðgerðir af hálfu ríkisstj. til þess að efna fyrirheit samkvæmt þessum i., en í þeim er lögð sú skylda á sveitarstj. að útrýma heilsuspillandi íbúðum á 4 árum, og á ríkisvaldið sjálft að lána 85% af stofnkostnaði. Hefur bæjarsjóður Reykjavíkur lagt fram 4 millj. kr. í þessu skyni án þess að fá nokkuð á móti úr ríkissjóði. sem þó er bein lagaskylda. Ég hef samt ekki flutt till. við fjárlagafrv. í þessu sambandi og taldi það ekki heyra beint undir fjárl. að samþykkja lánsheimild í þessu skyni, enda er það sannast að segja mjög hæpið samkvæmt stjskr. að samþykkja slíka lánsheimild á fjárl. Til þess þarf sérstök l., og var ætlunin að bera fram sérstakt lagafrv. um nauðsynlega lánsheimild til handa ríkissjóði í þessu skyni eða frv. um breyt. á l. um íbúðarhúsabyggingar í þessu sama skyni.