17.05.1947
Efri deild: 134. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

215. mál, flugvellir

Gísli Jónsson:

Ég vil byrja með því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann veitti í þessu máli. Mér þótti ákaflega einkennilegt, ef það væri satt, sem hv. frsm. hélt fram, og skal færa fyrir því nokkur rök. Þegar var rætt um skipun í raforkuráð í fyrra, var það á svipuðum grundvelli og hér á að gera, eða sambland af kosningu Alþ. og skipun ráðh. Og þá var það einmitt núverandi hæstv. utanrrh., sem beitti sér fyrir því, að 50. gr. yrði breytt á þann hátt. sem nú er í l. þ.e. að sameinað Alþ. kýs með hlutfallskosningu fimm manna raforkuráð. Var það gert með þeim sömu rökum, sem ég hef nú fært fram, að eðlilegt sé, að jafnstórkostlegt fjárhagsatriði og þar er á ferð og snertir allan landslýð, krefjist þess, að Alþ. skipi þessa menn. Það kom sjálfsagt aldrei til greina að setja raforkumálastjóra sem einn mann í það ráð frekar en t.d. eftirlitsmann hjá rafmagnseftirlitinu sem forstjóra hjá rafmagnseftirlitinu. Það var bent á þetta sama og nú, að ekki væri hægt að búast við sérfræðingum í þetta, ef Alþ. ætti að kjósa mennina. Ég viðurkenni ekki, að það sé gildandi regla hjá Alþ., að kjósa pólitíska snápa í slík störf. (Menntmrh.: Það er ekki tryggt.) Kannske hjá flokki menntmrh., en ekki er þetta svo hjá þeim flokki, sem ég tilheyri, að gengið sé fram hjá þeim mönnum, sem þekkinguna hafa, en teknar einhverjar pólitískar „trillur“, aðeins til að fara með atkvæðið. (Menntmrh.: Þm. er sjálfur pólitísk „trilla“.) Hann hefur aldrei verið eins mikil pólitísk „trilla“ og menntmrh., sem hefur nú opinberað sig sem slíkur svo rækilega, að hann getur ekki hugsað sér að skipa nema helzt einhvern slíkan í þetta ráð.

Ég vil benda á annað mál, l. um almennar tryggingar. Í frv. um almennar tryggingar kom fram frá ráðh., sem fór með það mál, að það ætti að hafa átta menn í ráðinu, þar af 3 sérfræðinga eftir till. landlæknis. 4 menn voru skipaðir af ráðh., 1 af Alþ., svo að tryggt væri, að ráðh., sem færi með þessi mál, fengi 5 menn. Þá var tekin upp baráttan fyrir því að breyta þessu í lýðræðishorf. Það endaði með því, að 5 menn voru kosnir af Sþ. Sú stefna er því mörkuð á síðasta Alþ. í tveimur stórum málum, að Alþ. skuli kjósa slíka menn með hlutfallskosningu. Og það er alveg auðsjáanlegt, af hverju á að breyta þessu nú, — af því að Framsfl. vill kúga menn inn á aðra braut, og ráðh. Sjálfstfl. hefur látið af stefnu sinni í þessu máli. Enda hefur hæstv. menntmrh. viðurkennt, að um samkomulag sé að ræða, og hæstv. utanrrh. upplýst, að samkomulag hafi orðið, af því að hann hafi ekki fengið öðru framgengt. Hann fékk ekki framgengt réttlætinu í þessu máli fyrir Framsfl. Það er sannleikurinn í málinu. Það kann að verða skammgóður vermir fyrir menn að beita slíku í Alþ., því að ekki er víst, að völdin endist um aldur og ævi, og þeir gætu vissulega seinna orðið fyrir því sama.

Hvað um kosningu í utanrmn., ef hún væri framkvæmd á sama hátt? Ég veit ekki, hvort hennar mál eru að öllu leyti viðkvæmari, en þetta stóra öryggismál. Hæstv. menntmrh. sagði, að ekki væri hægt að tryggja sérfræðinga, ef samþ. er mín till. Fyrst og fremst er alveg ákveðið, að tveir af mönnunum skuli vera sérfræðingar. Og þá er ekki kjörgengt í ráðið, ef ekki eru tveir sérfræðingar á listum, sem koma fram. Þá mundi forsetinn, sem lætur fara fram kosninguna, vísa listunum frá. Að flokkar geti ekki komið sér saman um að útnefna sérfræðinga í ráðið, er slík fjarstæða um Alþ. yfirleitt, að ekki er berandi á borð. Það má nefna kosningu sérfræðinga í raforkuráð. Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri er formaður þess, kosinn af ákveðnum flokki sem sérfræðingur. En ef menn geta ekki hugsað sér annað en að flokkshagsmunirnir eigi að vera efstir og þekkingin á eftir, er eðlilegt, að þeir haldi slíku fram, eins og hæstv. menntmrh. gerði. Minnir þetta á það, sem einn þingbróðir og flokksbróðir hæstv. menntmrh. sagði eitt sinn, að það væri ekki hægt að nota einn flokksbróður sinn sem dómara, af því að hann léti sömu dóma ganga yfir flokksmenn og andstæðinga.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri opið að hafa flugmálastjóra og flugvallastjóra í flugmálaráði. Aldrei hef ég heyrt aðra eins firru. Þetta ráð á alveg sérstaklega að vera sem stjórn yfir framkvæmdastjóra, sem er að sjálfsögðu flugvallastjóri. Svo á framkvæmdastjórinn að sitja sjálfur í ráðinu! Hvað mundi Eimskipafélagsstjórnin segja og eigendur í því félagi, ef Guðmundur framkvæmdastjóri ætti að vera formaður stjórnarinnar, og síðan ætti einhver fulltrúi að vera með honum í stjórninni? Það væri ekki ólögulegt. Það verður að sjálfsögðu að krefjast þess fyrst og fremst, að hvorki flugvallastjóri né flugmálastjóri sitji í þessu ráði. Ráðsmennirnir eiga að vera þeim til aðstoðar, en flugvallastjóri og flugmálastjóri eiga sannarlega ekki að vera í ráðinu. Ég held það væri ágætt fyrir stjórnina að beizla svolítið gandreið þessa hæstv. ráðherra, áður en hann fer lengra.

Hv. frsm. gat um ýmis embætti hér, sem væru orðin nokkuð umfangsmikil, eins og t.d. embætti vegamálastjóra. Ég vil mjög taka undir þetta. Þetta starf, sem veitir nú 20–30 milljónum króna gegnum hendur eins manns, er orðið það umfangsmikið, að sannarlega er tímabært að athuga, hvort ekki skuli gera breytingu á, annaðhvort setja fjórðungs-vegamálastjóra í landinu, verkfræðinga eða sérstaka meðstjórn með þessum framkvæmdum. Og það er sannarlega vert að athuga, hvort ekki á að hafa sérstaka stjórn yfir Skipaútgerð ríkisins. Ég get ekki hugsað mér, að nokkrum manni þætti heppilegt, að framkvæmdastjóri Eimskipafélagsins réði einn því félagi, a.m.k. hefur ríkisstj. á hverjum tíma gert kröfu til að eiga sinn fulltrúa þar. Nú hefur Skipaútgerð ríkisins haft milljónarekstur og líka milljónatöp, og sum slík töp er ekki hægt að verja. Samt sem áður má ekki minnast á að setja neina stjórn með þeim mönnum, sem þar ráða. Landssmiðjan hefur haft milljónatöp, og það svo, að vafasamt er, hvort ekki verður að gera fyrirtækið upp sem gjaldþrota. Það hefur ekki borgað skatta og sótt verkalaun í ríkissjóð iðulega. Hverjir eru þar nú í stjórn? Vegamálastjóri, maður yfirhlaðinn störfum, vitamálastjóri, líka yfirhlaðinn störfum, forstjóri fyrir skipaútgerð ríkisins, sem líka er yfirhlaðinn störfum. Þessir menn eru settir til að stjórna þessu fyrirtæki og eru um leið langstærstu viðskiptamenn fyrirtækisins. Það er ekki að furða, þó að fyrirtækið sé komið eins og komið er. Það getur ekki farið neina aðra leið. Það er orðið tímabært fyrir stjórnina að taka þetta mál til athugunar. Ég er algerlega á móti því að skipa menn til átta ára. Ég vil láta kjósa menn til slíkra starfa, sem hér um ræðir. Það virðist vera, að nefndin hafi sýnt stjórninni meira traust í þessu máli, en 3. landsk. hefur stundum gert áður. Ég tel mig styðja stjórnina fullkomlega, en þó leyfi ég mér hiklaust að benda henni á það, sem ég tel miður fara, eins og það, sem hér liggur fyrir. Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar, en mun greiða atkv. á móti till. á þskj. 830.