21.05.1947
Neðri deild: 135. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

215. mál, flugvellir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls var þess getið, að von væri á brtt. frá mér. Er henni nú útbýtt og er hana að finna á þskj. 910. Eins og ég lýsti við 2. umr., er ég í öllum atriðum á móti efni frv., og sé ég ekki, að þær breyt., sem hér er gert ráð fyrir að gera á skipun flugmálastjórnarinnar, séu til neinna bóta, en held, að nokkurt samræmi sé á þeirri skipan á stjórn flugmálanna, sem þar er gert ráð fyrir, og skipan annarra hliðstæðra mála, sem gilt hafa. Þannig er það t.d. viðtekin regla um hliðstæða málaflokka, eins og t.d. samgöngumál, að vegamálastjóri fellur beint undir viðkomandi ráðh. Þykir ekki þörf á því að skipa yfir hann sérstaka n. manna milli ráðh. og vegamálastjóra, heldur hefur það alltaf þótt eðlilegt, að ráðh. væri næstur yfirmaður vegamálastjóra. Hið sama hefur gilt um vitamálastjóra, og fleiri dæmi mætti telja. Nú er hér hins vegar gert ráð fyrir því, að milli flugmálastjóra og flugmrh. eigi að koma sérstakt 5 manna flugmálaráð, og á það að ráða yfir flugmálastjóra. Get ég ekki séð, að þessi skipan henti okkur á nokkurn hátt. Ef flugmrh. telur það hins vegar nauðsynlegt fyrir sig að hafa eitthvert ráð sér til ráðleggingar, þá er það auðveldur hlutur að fá leyfi til þess að skipa slíkt ráð, en að hafa þá skipan, eins og gert er ráð fyrir í frv., get ég ekki fallizt á.

Í brtt. þeim, sem ég flyt við frv., er gert ráð fyrir því, að kosið verði að vísu flugmálaráð til ráðuneytis ráðh. og flugmálastjóra, en þó eingöngu ráðleggjandi ráð, en ekki á þann veg, sem gert er ráð fyrir í frv., að þetta ráð skuli sett yfir flugmálastjóra sem slíkt. Þarf ég ekki að fara um þetta fleiri orðum. Ég er í aðalatriðunum á móti efni frv. og mun, ef brtt. mínar verða ekki samþ., greiða atkv. gegn frv.