13.05.1947
Efri deild: 131. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

217. mál, innkaupastofnun ríkisins

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Hv. 4. landsk. hefur nú gert grein fyrir þeim brtt., sem hann hefur borið fram við þetta frv. — Ég þarf í rauninni ekki miklu til að svara því, sem hann tók fram, því að ég vék í ræðu minni áðan nokkuð að þessum brtt. og gerði grein fyrir þeirri afstöðu, sem n. á sínum tíma tók til þeirra. Ræða hans gaf mér þess vegna litið tilefni til andsvara. En auk þess sem ég vísa til þess, sem ég sagði í ræðu minni áðan, þykir mér rétt að fara nokkrum orðum um ummæli þessa hv. þm.

Hann minntist fyrst á fyrri brtt. sína, sem er um það að færa starfssvið innkaupastofnunarinnar út til verulegra muna, þannig að hún annaðist ekki aðeins innkaup fyrir ríkisstofnanir, heldur ættu einnig aðrir rétt á að fá nauðsynjar sínar keyptar frá stofnuninni, ef þeir óska þess, eða eins og segir í till.: „Enn fremur skal hún annast innkaup á vörum fyrir aðra aðila, ef þeir óska þess.“ Þessi brtt. leggur beinlínis þær skyldur á herðar innkaupastofnun ríkisins, að hún skuli annast þau innkaup, sem aðrir en ríkisstofnanir kunna að óska eftir. Eins og menn sjá, eru með þessu lagðar nokkuð ríkar skyldur á herðar innkaupastofnuninni, og meiri hl. fjhn. finnst ekki rétt á þeim tíma, sem verið er að setja þessa stóru stofnun á fót, að binda stofnuninni þessar skyldur á herðar og láta hana þannig taka á sig margs konar erfiði, einmitt þegar byrjunarerfiðleikarnir standa yfir í sambandi við stofnun stofnunarinnar. Það er áreiðanlegt, að þau verkefni, sem þeir fá til að leysa, sem með hana eiga að fara, verða ærin, að útvega ríkisstofnunum nauðsynjar þeirra, þó að ekki verði þegar í stað farið að skylda stofnunina til þess að sjá um innkaup fyrir aðra, sem eftir því kynnu að óska. Við, sem að þessu stöndum og áhuga höfum fyrir því, álítum það miklu öruggara að fara af stað með fullkominni festu og varkárni og binda ekki stefnunni í upphafi þann bagga, sem kynni að geta orðið henni að fótakefli í framtíðinni. Við teljum skynsamlegra að fá henni í upphafi það verkefni, sem hún á að leysa, þarfir ríkisins, en síðar, ef reynslan sýnir, að það mundi hagkvæmt, er sjálfsagt að færa starfsviðið út, og ég fyrir mitt leyti ber þá von í brjósti, að þessi stofnun muni reynast þannig, að fljótt komi að því, að allir verði sammála um, að ástæða sé til að færa hana út og auka verkefni hennar.

Hv. þm. hélt því fram, að tilgangurinn með 2. brtt. væri sá að koma þarna upp innkaupastofnun hjá ríkinu, sem fullkomlega gæti skorið úr því, hvort hagkvæmara væri, að ríkið annaðist innflutningsverzlunina eða aðrir. En til þess að fá úr því skorið, hvor leiðin væri betri, er það siður en svo, að brtt. hv. þm. sé nauðsynleg, því að eins og gengið er frá frv., á að fást úr því skorið, hvort betra sé að láta ríkið annast innkaupin eða einstaklinga. Það á að koma fljótt í ljós, þegar þessi stofnun fer að starfa, og miklu betur með því, að stofnunin sé hæfilega stór í upphafi, heldur en að binda henni bagga, sem kynnu að valda erfiðleikum í upphafi.

Hv. þm. gat um það, að eitt af þeim höfuðverkefnum, sem hann hefði í huga með brtt. sinni, væri ekki sízt innkaup á byggingarefni. og skal ég taka undir það með honum, að það er nauðsynlegt að koma annarri skipun á þau mál, en ríkt hefur hingað til. Þykist ég þekkja það vei frá þeirri reynslu, sem ég hef fengið sem formaður Byggingarfélags verkamanna. En ég vil benda þessum hv. þm. á annað, sem hann hefur þó orðið var við, að því er ég tel víst, að iðnaðarmenn eru sjálfir með hinum frjálsu samtökum sínum að vinna að því og eru þegar búnir að stiga gott spor í þá átt að koma þessum málum í miklu betra horf, en verið hefur. Öll byggingarfélög á landinu, sem starfa á samvinnugrundvelli, hafa myndað með sér samband, sem m.a. hefur það hlutverk með höndum að annast innkaup á öllu nauðsynlegu byggingarefni fyrir byggingarfélögin. Ég held a.m.k., að byggingarfélögin væru á einu máli um það nú, að það væri vafasamur greiði, ef fara ætti að gera ráðstafanir til þess að kippa þessum málum úr þeirra höndum.

Þá minntist hv. þm. á þá brtt. sína, sem fjallar um það að fela þessari stofnun að annast innkaup fyrir einkasölur. Eins og ég áður sagði, getur það vel verið til athugunar í framtíðinni, hvort slíkt sé rétt, en eins og löggjöfinni er nú háttað. hefur ríkisstj. til þess fulla heimild og aðstöðu að endurskipuleggja fyrirkomulagið á innkaupum fyrir einkasölur. Hún getur þar fært saman meira en verið hefur og tekið upp það fyrirkomulag í þeim efnum, sem hún sjálf telur heppilegast, án þess að þessi brtt. hans sé samþ., og sé ég því ekki betur en þessi till. sé með öllu óþörf.

Þá minntist hv. þm. að lokum á brtt. við 3. gr., að innkaupastofnun ríkisins skuli hafa forgangsrétt um gjaldeyri til vörukaupa sinna. — Það er rétt, að um gjaldeyrinn hafa verið settar vissar kvótareglur, sem þessum leyfum er úthlutað eftir, en hitt er staðreynd, að yfirstjórn þessara mála er raunverulega í höndum ríkisstj. sjálfrar, því að það er á hennar valdi að láta hnika þessum reglum þannig til, að hún geti notið forgangsréttar um gjaldeyri á þeim nauðsynjum, sem hún þarf á að halda. Hún hefur þá aðstöðu gagnvart bönkunum, að hún getur aflað sér forgangsréttinda, eftir því sem hún þarf á að halda. Til þess þarf engin lagafyrirmæli, og virðist mér því brtt. með öllu óþörf.

Ég sé þá ekki að sinni ástæðu til að taka þetta frekar fram, en vil undirstrika þá till. fjhn., að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.