13.05.1947
Efri deild: 131. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

217. mál, innkaupastofnun ríkisins

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þarf í rauninni ekki að svara ræðu hv. 4. landsk. þm., sem hann hélt hér seinast, því að þar kom ekkert nýtt fram. Þó vil ég leyfa mér að vekja athygli á tveim atriðum, sem mér finnst ekki rétt að ganga þegjandi fram hjá. Þessi hv. þm. virðist sem sé í málflutningi sínum hér leggja allt annan skilning í þær brtt., sem hann hefur borið hér fram, heldur en í till. sjálfum felst, og er því ekki von, þegar hann vill ekki skilja sínar till. eins og ber að skilja þær, eftir því sem þær eru fram settar, að auðvelt sé að deila við hann um þær.

Varðandi 1. brtt. vildi hann ekki viðurkenna, að með henni væri verið að binda Innkaupastofnuninni neinn sérstakan bagga. Fæ ég ekki séð, að neitanir hans hafi hina minnstu þýðingu, því ef maður les gr., þá er með þessu ákvæði, sem hann vill taka upp í frv., verið að binda innkaupastofnuninni mikinn bagga, þar sem segir beinlínis: „Enn fremur skal hún annast innkaup á vörum fyrir aðra aðila, ef þeir óska þess.“ Innkaupastofnunin skal sem sagt annast innkaup fyrir alla, ef þeir óska þess. Ef till. verður samþ., getur hver, sem vill, farið til innkaupastofnunarinnar og krafizt þess, að hún annist innkaup fyrir sig á því, sem hann þarf á að halda, og er stofnunin skyldug til að gera þetta, og finnst mér engin tök fyrir hv. þm. að skýra þetta á annan veg. Það er þessi baggi, sem ég vil ekki binda innkaupastofnuninni þegar í upphafi, þótt ég geri mér vonir um, að þetta fyrirtæki eigi eftir að reynast þannig, að tilefni gefist til aukins starfsviðs þess í framtíðinni.

Þá kom fram annar misskilningur í ræðu hv. 4. landsk. þm. Hann sagði, að eins og frv. væri borið fram, felist ekki í því nein trygging fyrir því, að innkaupastofnunin muni ekki binda sig við að kaupa vörur af heildsölunum, en ekki annast innkaupin erlendis frá, og á þessu ætlar hann að ráða bót með brtt. sínum. Eins og frv. liggur fyrir, er ætlazt til þess, að innkaupastofnunin annist innkaup á vörum fyrir ákveðnar stofnanir og er ekkert ákveðið um það, hvar hún kaupi vörurnar. Það er auðvitað markmiðið, að kaupin séu gerð án milliliða, þótt innkaupastofnunin sé hins vegar ekki útilokuð frá því að skipta við heildsala hér, en þótt brtt. hv. 4. landsk. þm. verði samþ., yrði engin breyting á þessu, því að sú till. leggur ekki innkaupastofnuninni þær skyldur á herðar að kaupa vörur eingöngu erlendis frá. Stofnunin getur eftir sem áður gert sín innkaup, hvar sem hún sjálf telur hagkvæmast. — Það þýðir því ekkert fyrir hv. þm. að reyna að skýra sínar till. á annan hátt, en þær eru orðaðar, því að niðurstaðan verður aðeins á einn veg, svo sem ég hef nú tekið fram.