14.03.1947
Neðri deild: 95. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir nokkur ástæða til þess, vegna þess að umr. um þetta mál hafa fallið nokkuð almennt, sem ekkert er við að athuga, að segja um það örfá orð frá mínu sjónarmiði og Framsfl.

Fyrir nokkrum árum flutti ég hér í þinginu þáltill. um að skipa sérstaka n., sem rannsakaði og gerði sér grein fyrir því, eftir því sem unnt væri fyrir fram, hver verkefni væru þýðingarmest fyrir íslenzku þjóðina og hvaða framkvæmdir bæri að leggja mesta áherzlu á eftir styrjöldina. Ég flutti þessa þáltill. í samráði við Framsfl. og vegna þess, að mér var ljóst, að hér mundi verða og þyrfti að verða verulegt framfaratímabil, strax og hægt væri að fá erlent efni til landsins, og þá skipti miklu, hvaða verkefni væru tekin fyrir. Mér var ljóst, að ekki var hægt að gera allt í senn og þess vegna skipti miklu máli, að menn gerðu sér grein fyrir, hvað væri þýðingarmest. Þessi þáltill. var samþ. í þinginu, og þessi n. var sett, en starf n. lagðist niður. þegar fyrrv. stjórn tók við störfum og stofnaði nýbyggingarráð. En nýbyggingarráð mun hafa tekið við þeim plöggum, sem komin voru í þessari n., og það mun hafa verið þannig hugsað, að það héldi áfram þessari áætlunargerð. Ég segi þetta aðeins til þess að upplýsa það, að það er ekkert nýtt, þó að Framsfl. hafi áhuga fyrir því og vilji vera með í því að koma allsherjar skipan á þessi mál. Okkur hefur verið það ljóst um langan tíma, að mikil nauðsyn er á því, að ríkisvaldið hafi talsvert örugga stjórn á því, hverjar framkvæmdir eiga sér stað, ekki aðeins hjá bæjar- og sveitarfélögum og opinberum stofnunum, heldur einnig hjá einstaklingum. Ég hirði ekki að færa fyrir þessu mikil almenn rök, enda yrði það allt of mikil tímaeyðsla, og sumpart kem ég að þeim almennu rökum í sambandi við það, sem ég segi hér á eftir viðvíkjandi ástandinu, eins og það er í dag, og því, sem gerzt hefur á síðustu misserum. Það er mín skoðun, að löggjöf eins og sú, sem hér er fyrirhuguð, hefði þurft að vera sett fyrir nokkrum árum, og við höfum nú að mínum dómi fengið reynslu, sem hefur orðið til þess, að nú ljúka allir upp einum munni um það, að nauðsynlegt sé að hafa löggjöf af þessu tagi. En nýmæli í þessari löggjöf er aðallega það, að fjárhagsráð hefur viðtækara vald en nýbyggingarráð og viðskiptaráð höfðu áður, þannig að það má ekki ráðast í neinar verulegar framkvæmdir í landinu, án þess að samþykki ráðsins komi til. M.ö.o. getur ráðið valið og hafnað að þessu leyti og raðað niður verkefnum, bæði opinberum verkefnum og því, sem einstaklingar ætla að gera. Undanfarin ár hefur þetta vald í rauninni hvergi verið til fullkomið, þó að segja megi, að nýbyggingarráð hefði átt að geta haft nokkurt vald í þessu og viðskiptaráð nokkurt vald á því, vegna þess að margar framkvæmdir og eyðsla í framkvæmdaformi er þannig vaxin, að ekki er hægt að koma í veg fyrir hana eða stöðva hana, t.d. með því eftirliti, sem er á innflutningnum, og heldur ekki með því valdi, sem nýbyggingarráð hafði. Það hefur verið talað um það í þessum umr., að þetta frv. sé að sumu leyti neikvætt, að það sé borið fram að meira leyti neikvætt en jákvætt. En ég hygg, að það verði að játa það og styðjast þar við reynsluna, að það er ekki hægt að gera allt í einu og þess vegna sé nauðsynlegt, líka í þessum efnum, að hafa neikvætt vald. Við verðum líka að játa og styðjast þar við reynsluna, að ef veruleg uppbygging á að eiga sér stað hér á næstu misserum, þá þarf að minnka eyðsluna í mörgum greinum, því að það er ekki hægt að samræma það, að verulegar framfarir og eyðsla eigi sér stað, eins og hér hefur átt sér stað á undanförnum árum. Með orðinu eyðslu á ég við óþarfa framkvæmdir, sem ráðizt hefur verið í og er veruleg eyðsla, þó að þær séu taldar í framkvæmdaflokki og til þeirra hafi verið notað byggingarefni og annað slíkt. Hvað er það annað en eyðsla, ef hundruð af borgurum landsins byggja lúxusíbúðir og lúxushús og bera í það gegndarlaust, á sama tíma og skortur er á byggingarefni til nauðsynlegra húsa fyrir borgara landsins? Þetta er ekkert annað en eyðsla, þó að það sé í framkvæmdaformi, og eitt af verkefnum fjárhagsráðs á að vera að koma í veg fyrir óeðlilega eyðslu í framkvæmdaformi, og það er ekki hægt nema með því móti, að stofnun eins og fjárhagsráð hafi meira vald en áður hefur tíðkazt að gefa slíkum stofnunum. Að þessu leyti er starf fjárhagsráðs neikvætt starf, en neikvætt starf verður um leið jákvætt, þegar þess er gætt, að ekki er hægt að koma upp nægilega mörgum verkamannabústöðum og samvinnubústöðum, íbúðarhúsum í sveitum, raforkuverum. hafnargerðum o.s.frv. nema með því móti, að fjárhagsráð noti það neikvæða vald til þess að koma í veg fyrir, að efni og vinnuafl fari í lúxusbyggingar eða til ýmiss konar framkvæmda, sem mega og eiga að biða og eiga að víkja fyrir hinu, sem ég taldi upp, og öðru af þeirri tegund. Þess vegna verða menn að gera sér það ljóst, að það þýðir ekki að hafa á móti hinu neikvæða valdi, því að það er undirstaðan undir því, að nauðsynlegar framkvæmdir verði gerðar.

Ef við lítum á ástandið, eins og það er í dag, og íhugum, hvers vegna allir eru nú sammála um það að láta opinbera stofnun, ríkisstofnun, hafa svona mikið vald, þá kemur margt í ljós, sem nauðsynlegt er að draga fram í þessum umr., en hefur ekki ennþá verið dregið fram í neinni heild. Mér skilst, að undirstaðan undir framförum og framkvæmdum, sem stundum er kallað nýsköpun, sé með ýmsu móti saman sett, en þar megi þó nefna þrennt helzt: Það er erlendur gjaldeyrir, vinnuafl og það innlenda fjármagn, sem við höfum yfir að ráða. En mest markast þetta af erlendum gjaldeyri og vinnuafli. Erlendur gjaldeyrir kemur hér kannske í fremstu röð vegna þess, hversu lítið af kapítalvörum við getum framleitt sjálfir, við þurfum að kaupa mikið frá öðrum löndum fyrir erlendan gjaldeyri.

Hversu er svo ástatt í gjaldeyrismálunum nú í dag, tveim árum eftir styrjaldarlokin og tveim árum eftir, að við áttum tæpar 600 millj. kr. í erlendum bönkum? Það er þannig ástatt um gjaldeyrinn í dag, og það mun ekki sízt ástæðan til þess, að nú eru allir sammála um, að eitthvað verði að gerast, eftir því sem upplýst var fyrir nokkrum dögum á fundi í landsbankanefndinni, að bankarnir áttu þá utan nýbyggingarreiknings 4 millj. kr., en þeir hafa tekizt á hendur að yfirfæra upphæðir, sem nema 58 millj. kr., m.ö.o. meira en þeir áttu fyrirliggjandi af gjaldeyri. Á nýbyggingarreikningi eru 120 millj. kr., en leyfi, sem þar standa á móti, í kringum 150 millj. kr., eða ríflega á móti því, sem þar stóð inni. M.ö.o. er það staðreynd, sem ástæðulaust er að deila um, en við megum ekki gleyma og þjóðin verður að fá að vita til þess að geta myndað sér skoðun um þau verkefni, sem eru fram undan, — það er staðreynd, að það er búið að ráðstafa öllum erlendum innstæðum nú í dag og bankarnir horfa með kvíða til þess að yfirfæra núna þessa dagana, þegar við erum að ræða þetta frv. Erlendu innistæðurnar eru raunverulega búnar, þ.e.a.s. þannig, að það, sem eftir er af þeim, verður að standa á móti þeim innkaupaskuldbindingum, sem gerðar hafa verið. Til viðbótar þessu er svo það, að nýbyggingarreikningurinn hefur að vísu fengið þær 300 millj. kr., sem hann átti að fá eftir upphaflegu l. um nýbyggingarráð, og hann hefur fengið þau 15% af útflutningnum, sem hann átti að fá 1945, en nýbyggingarreikningur hefur ekki fengið þau 15%, sem hann átti að fá af útflutningnum 1946, og þeim 15% er búið að eyða nú í dag í almenna úttekt, og þau 15% koma aldrei til baka. Hitt er svo annað mál, hvort við berum gæfu til þess að fá á næstunni svo góða gjaldeyrisútkomu, að þessum tekjum verði skilað aftur, en um það skal ég ekkert segja, það veit ég jafnlitið um og aðrir. En þannig er þá ástatt um gjaldeyrinn, og það er alveg rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði í gær í þessum umr., að þjóðin verður að fá að vita það, að framhald nýsköpunarinnar og framfarir er undir því komið, hversu mikið við getum tekið af gjaldeyristekjum — af útflutningnum sjálfum á hverju ári til uppbyggingarinnar, við getum ekki framar ráðstafað innistæðum í þessu sambandi, þær eru búnar. Og þetta er mál, sem er svo alvarlegt, að þjóðin þarf að fá að vita það sem allra gleggst og gera sér grein fyrir því, hvað þetta þýðir. En þetta þýðir auðvitað það — og ekkert annað en það — að það er alveg óhugsandi, að íslenzka þjóðin geti notað jafnmikinn gjaldeyri á næstu misserum eins og hún hefur notað undanfarin misseri, og það þýðir aftur hitt, að ef framfarir eiga að verða verulegar framvegis, þá verður að skera niður mikinn gjaldeyri á öðrum sviðum, bæði með því að draga úr þeim framkvæmdum, sem mega bíða, og eins með því að draga úr nauðsynjavöruinnflutningi.

Frammi fyrir þessu stöndum við og verðum að gera okkur fullkomna grein fyrir því. Ég hef ekki hér í höndunum, hversu mikill gjaldeyrir hefur verið brúkaður á ári undanfarin ár, og skal ég ekki fara út í tölur í því efni, en mér er nær að halda, að það hljóti að svara til 500–600 millj. kr. á ári. og það eru engar líkur til þess, að við getum notað jafnmikinn gjaldeyri árlega framvegis. Ég skal ekki fara út í deilur í sambandi við það, hvernig þessum gjaldeyri hefur verið varið, en vil þó aðeins segja það, að það er ægilegur hlutur, að innistæðurnar skuli vera búnar tveim árum eftir styrjaldarlok, og ég vil segja það sem mína skoðun, að þær framfarir og framkvæmdir, sem hafa fengizt fyrir þetta gífurlega fjármagn, eru undarlega litlar, samanborið við það fjármagn, sem notað hefur verið. Það lítur út fyrir það, að menn hafi á undanförnum misserum haldið, að Íslendingar væru orðnir svo ríkir, að þeir gætu haldið uppi stórkostlegum framförum og leyft sér alla eyðslu jafnhliða. En þetta hefur aldrei verið hægt og verður aldrei hægt, reynslan hefur sýnt okkur það á þann hátt, sem verður okkur allt of eftirminnilegur. Við sjáum þess vegna, að varðandi gjaldeyrismálin stöndum við ákaflega tæpt og hættulega, og af þeim ástæðum er það meðal annars, að við erum svona sammála um það, að það þurfi að grípa til meira eftirlits um verkefnavalið í framkvæmdum heldur en áður.

Ef við lítum svo á vinnuaflið, sem er annar þýðingarmesti þátturinn, þá sjáum við, að þar er líka mjög ískyggilega ástatt. Við vitum, að það er von á fleiri skipum og fleiri bátum í flotann og nokkurri framleiðsluaukningu að öðru leyti í ýmsum greinum. En til þess að þessi framleiðsluaukning geti gengið, verða að fást menn á skipin og í þennan atvinnurekstur. Ef þeir fást ekki, þá fáum við ekki þær auknu gjaldeyristekjur, sem við vonumst eftir af auknum framleiðsluháttum. En eins og nú er ástatt, þá er þenslan svo gífurleg í alls konar framkvæmdum, nauðsynlegum og ónauðsynlegum, að mjög miklir erfiðleikar eru á því að fá fólk til framleiðslustarfa og til þess að koma upp þeim byggingum, sem mestu máli skipta, og ef ekki verður tekið hér í taumana og reynt að velja og hafna eftir einhverjum skynsamlegum linum, þannig að það verði tekið út úr, sem má bíða, þá stöndum við frammi fyrir því innan lítils tíma, að það verði meiri eða minni stöðvun. En verði sú stöðvun af handahófi, þá getur farið svo, að það stöðvist helzt, sem sízt skyldi, en hinu verði haldið áfram, sem mætti bíða, og það er þetta, sem hefur átt sér stað undanfarin misseri, eins og hæstv. dómsmrh. vék að í sinni ræðu, — og þetta hefur orðið til þess að torvelda ýmsar framkvæmdir, sem eru mjög þýðingarmiklar, að ég nú ekki tali um það, að það er vonlaust verk að ætla sér að stöðva verðbólguna með því ástandi, sem hér er að þessu leyti og áreiðanlega er engum til góðs og hefur í för með sér margar skaðsamlegar afleiðingar.

Ef við lítum svo á þriðja þáttinn, innlenda fjármagnið, þá er það líka sýnilegt, að þar er ástandið afar ískyggilegt. Það er búið að vera þannig ástatt í landinu, svo að mánuðum skiptir, að það hefur verið nærri ómögulegt að selja ríkistryggð skuldabréf, m.ö.a. að lánamarkaður fyrir opinberar framkvæmdir er svo að segja alveg lokaður. Við höfum sett hér löggjöf um stofnlánadeild sjávarútvegsins og ný lán til byggingar í sveitum og margs konar lagabálka og heimildir viðvíkjandi nýjum raforkuframkvæmdum, nýjum hafnargerðum og þar fram eftir götunum — heimildir fyrir ríkisstj. til að takast á hendur slíkar ábyrgðir. En svo að segja ekkert af þessum lánum hefur enn fengizt — lánamarkaðurinn hefur verið alveg lokaður. Menn hafa haldið fjármagni sínu til baka, sumpart í alls konar miður þarfar framkvæmdir og sumpart legið með fjármagnið vegna þeirrar óvissu, sem ríkir í peningamálunum. Sem sé fjáröflun til nýsköpunarinnar er fyrir löngu algerlega stöðvuð, og þetta stafar meðal annars af ofþennslunni, af því að það eru alls konar möguleikar fyrir fjármagnið, sem ætti að loka, til þess að fjármagnið fengist inn í þessar nauðsynlegu framkvæmdir. Svo stafar þetta þar að auki af því, að aldrei hafa verið gerðar neinar verulegar ráðstafanir til þess af Alþ. hálfu eða ríkisstj. að afla fjár til nýsköpunarinnar. En þessi dæmi, sem ég hef talið viðvíkjandi innlenda fjármagninu, sýna, að það er fleira, sem þar kemur til greina. Það er ekki ótakmarkað fjármagn, sem menn hafa yfir að ráða, og menn gá að sér í því sambandi, og þess vegna þarf fjármagnsins vegna að hafa meiri og betri yfirstjórn á þessum málum en verið hefur og gæta þess, að fjármagnið renni í framkvæmdir, sem miklu máli skipta. Og fyrsta atriðið, til þess að svo geti farið, er að koma í veg fyrir það, að aðrar framkvæmdir séu gerðar og sogi fjármagnið til sin. Síðan koma aðrar ráðstafanir í framhaldi af því til þess að fá fjármagnið inn í þau verkefni, sem leyfð eru af fjárhagsráði og talið er nauðsynlegt, að komið verði upp.

Skal ég nú aðeins víkja að því síðasta í sambandi við gagnrýni frá hv. 2. þm. Reykv. Þessar ástæður, sem ég hef rakið hér, þær sýna það glögglega, að hér þarf að verða alger stefnubreyting að þessu leyti. Það þarf að taka miklu fastari tökum á framkvæmdum en verið hefur, ef það á að forðast allsherjar handahófsstöðvun og margs konar vandræði, sem af því mundi leiða, og setning þessarar löggjafar er fyrsta sporið í þessa átt — með henni eru gefnar þær nauðsynlegu heimildir og það nauðsynlega vald. En árangurinn af þessari löggjöf fer að mestu eftir framkvæmdunum, og skulum við vona, að hann verði góður, en úr því getur reynslan ein skorið.

Óhugsandi er, að þeir, sem eru í ráðinu eða ríkisstj., taki að framkvæma l. svo sem þarf, nema þm. sameinist um það að upplýsa þjóðina um ástandið og fá hana til að mæta ráðstöfunum ráðsins með skilningi, fá hana til að skilja það, að með jafntakmörkuðum gjaldeyri er ekki hægt að gera mikið í einu, og ef vel á að fara, verður að minnka eyðsluna og neyzluna, því að það getur ekki farið saman, mikil uppbygging og önnur eins eyðsla og hér hefur verið nú undanfarið.

Það verður að gera margar og miklar ráðstafanir í framhaldi af þessari löggjöf. Hún er ekki einhlít til úrbóta. Hún er fyrsta skrefið, og mikils vert skref, því að án þessa valds gæti stjórnin ekki haft tök á að framkvæma það, sem þarf.

Það eru aðeins 2 atriði, sem hafa komið fram í þessum umr. og mig langar til að minnast á. Þau komu fram hjá hv. 2. þm. Reykv. Ég vil biðja afsökunar, ef það, sem ég segl, hefur verið tekið fram áður, en ég gat ekki verið viðstaddur allar umr. í gær.

Það er þá í fyrsta lagi varðandi 1. gr. frv., þar sem tekið er fram, að af andvirði útflutnings hvers árs skuli jafnan leggja 15% til hliðar til kaupa á framleiðslutækjum og til annarrar nýsköpunar í atvinnulífi þjóðarinnar. Hv. þm. sagði, að með þessu væri það ákveðið, hve miklu skyldi varið til nýsköpunarinnar. Ég held, að hv. þm. megi ekki líta svona á þetta ákvæði. Ég er ekki á móti þessari grein, en ég held, að það sé ákaflega þýðingarlítið, hvert þarna stendur 15% eða 25% eða einhver önnur tala. Það veit enginn ennþá, hvert verður verðmæti útflutnings okkar í ár. Enn er ekki farið að selja fiskugga, ekki dropa af síldarlýsi eða kg. af síldarmjöli, og þó er komið fram í marz. Nú höfum við ekki hugmynd um, hvert verður verðmæti útflutningsins. Svo gæti farið, að hægt yrði að taka meira en 15%, og þá er sjálfsagt að gera það. Þá ýrðu þessi 15% aðeins lágmark. En svo gæti farið, að útflutningurinn hrykki aðeins fyrir brýnustu nauðþurftum, og þá neyddumst við til þess að nota allt útflutningsverðmætið til að greiða með þær nauðþurftir, frekar en að taka gjaldeyrislán. Það er ekkert á móti því að hafa áætlanir um, hversu miklu skuli verja í þessu skyni, en það fer eftir ráðdeild stjórnarvaldanna, hversu mikið hægt er að nota. Og reynslan er ólygnust í þessu efni frá s.l. ári. 1946. Það stendur skýrt í l., að 15% af útflutningsverðmæti skuli leggja á nýbyggingarreikning. En hvar eru þessi 15%? Þau eru ekki til, þau hafa farið fyrir innflutning. Af þessu sést vel, að það er engin trygging, þó að eitthvað standi í lögum. Árangur næst aðeins með ráðdeild í gjaldeyrismálum. Niðurstaðan verður alltaf sú, að ef gjaldeyri skortir, þá er hann ekki lagður til hliðar, heldur notaður til að greiða þær kröfur, sem fyrir eru.

Ég er ekki að mæla á móti því, að þessi gr. standi, en ég vil vara við því, að menn fái oftrú á lagabókstafnum í þessu sambandi og geri ráð fyrir, að 25%, eða 30% tryggi nokkuð í þessu efni, og mætti tilgreina fleiri dæmi því til staðfestingar.

Þá vildi ég minnast á gjaldeyrisástæðurnar, eins og þær eru nú, því að búast má nú við, að þessa dagana verði yfirfærsluvandræði. Hv. 2. þm. Reykv. benti á það réttilega, að það mætti ekki koma fyrir, að ríkið taki gjaldeyrislán. En slíkt gæti verið nauðsynlegt til þess að komast yfir það tímabil, sem fram undan er. ef dregst með verzlunarsamninga, en kröfur koma um yfirfærslu og ekkert flyzt út. Á nýbyggingarreikningi munu vera um 120 millj., en búið mun að veita leyfi út á það allt, þó að ekki sé alveg komið að því að borga. Ég veit ekki, hvað á að gera, en má ef til vill nota eitthvað af því til yfirfærslu í bili. En aðalatriðið er að ráðstafa gjaldeyrinum vel og skynsamlega. En ég hef talið rétt að benda á þetta atriði, því að mér fannst hv. 2. þm. Reykv. gera of mikið úr þessu atriði og vilja leiða hug manna að því, að með 15% sé stefnt of lágt og með því sýni stjórnin, að hún hafi lítinn áhuga á að kaupa ný framleiðslutæki. Ég held, að þetta sé misskilningur hinn mesti og að það verði ekki framkvæmt meira, þó að talan væri hækkuð, en þessi tala segir ekki, að ekki verði notað meira, ef ástæður eru fyrir hendi.

Hitt atriðið, sem hv. 2. þm. Reykv. lagði mikla áherzlu á, var það, að ekki væri gert ráð fyrir, að fjárhagsráð hefði meira vald yfir útlánastarfsemi bankanna. Í þessu sambandi vil ég segja það, að þetta mál er ekki leyst, þó að ráðið gæti fyrirskipað bönkunum að lána til tiltekinna framkvæmda. Málið er ekki leyst, vegna þess að svo getur staðið á, að bönkunum sé ómögulegt að gera þetta nema með því að auka verðbólguna með aukinni seðlaútgáfu. Ég get í þessu sambandi vísað til álits hagfræðinganefndarinnar, en þeir telja, og leggja áherzlu á það, að það sé ekki hægt að skylda bankana til útlána vegna aukinnar verðbólguhættu, og þetta er engin fjáröflunarleið. En vitanlega verður útlánapólitík bankanna að vera í samræmi við stefnu ríkisstj., fjárhagsráðs og Alþ., en spursmálið um fjáröflun verður ekki leyst með einni málsgr. í lögum. Það spursmál, sem leysa þarf, er fjáröflunin. Það hafa verið sett ýmiss konar lög af Alþ., t.d. lögin um stofnlánadeildina, sem útheimta það, að bankapólitíkin sé rekin í samræmi við þingið, en til þess þarf ekki lög, því að Alþ. og ríkisstj. ráða yfir bönkunum.

Í 4. gr. segir. að fjárhagsráð skuli hafa samvinnu við lánsstofnanirnar um samning fjárfestingaráætlunar, og enn fremur: „Nú telur fjárhagsráð eigi nægilega séð fyrir fjárþörf fyrirtækja, er það telur nauðsyn til að stofnsetja, og skal það þá leita samvinnu við ríkisstj., lánsstofnanir og aðra aðila, er hlut gætu átt að máli, um fjáröflun til þeirra fyrirtækja.“ M.ö.o., komist ráðið að því, að fjármagn sé ekki nægjanlegt fyrir hendi, þá hefur ráðið frumkvæði að því að taka málið upp við stjórnina til þess að leysa það. Þetta atriði er beint sett inn til þess, að ráðið geti átt frumkvæði að þessu leyti, en það er misskilningur, að fjáröflunarspursmálin eigi að leysa í þessu frv. Þau mál þarf að leysa, en ekki í þessu sama frv., sem fjallar um fjárfestingarleyfin og fjárhagsráðið. En í þessu frv., í 4. gr., er ákvæði, sem tryggir það, að ráðið hafi frumkvæði í samráði við þá aðila, sem þar eru greindir, að lausn þessara mála.

Ég er hv. 2. þm. Reykv. sammála um það, að það er nauðsyn að dreifa atvinnutækjunum um landið meir en verið hefur. Það hafa verið sett mörg lög í þessa átt, og þau gera ráð fyrir miklu meiri lánum en áður hefur tíðkazt. En víða er þannig ástatt, að þau lán hrökkva ekki til, og þá segir hv. 2. þm. Reykv., að það verði að fyrirskipa lánsstofnununum að lána allt að 100%. En ég tel mjög varhugavert að fara þá leið, heldur á að setja sérstaka löggjöf um þetta efni, sem miðuð sé við þá staði, sem þurfa á þessum aukalánum að halda. Það held ég, að væri skynsamlegri leið.

Ég hef nú á tveimur þingum flutt frv. um fiskimálasjóð, til þess að taka að sér þessi viðbótarlán. Þessu frv. var vísað frá á síðasta þingi. og hefur ekki enn verið samþ. á þessu þingi, þó að það væri eitt af þeim frv., sem fyrst komu fram. En ég vil mjög eindregið benda á þessa leið í sambandi við viðbótarlánin.

Ég hef látið þessi orð falla um afstöðu Framsfl. til þessa máls til þess að láta það koma fram, hvers vegna við erum fylgjendur þess. Ég vil undirstrika það, að aðalatriðið er að fá fram betra skipulag, og það, að segja þjóðinni hreinskilnislega, hvernig málunum er háttað. Þau viðfangsefni, sem fram undan eru, eru erfið, og það verður að gera margar þær ráðstafanir, sem menn hefðu viljað komast hjá að gera. En það skortir mikið á, að menn geri sér almennt ljóst, hvað viðfangsefnin eru í raun og veru erfið, vegna þess að það hefur svo lítið verið gert að því að segja mönnum, hvernig ástatt er.