14.03.1947
Neðri deild: 95. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég minntist á það, þegar ég drap á gjaldeyrisástæðurnar og ástæðurnar í fjárhagsmálum hér á landi yfirleitt, að eitt af því, sem áreiðanlega hefði dregið til sín gjaldeyri. vinnuafl og fjármagn. væru óhæfilega umfangsmiklar byggingar „lúxusíbúða“. Hæstv. dómsmrh. telur, að þetta sé minna atriði en menn hafi gert ráð fyrir. Ég hef ekki gögn til þess að ræða þetta ýtarlega nú, en ég nefndi þetta sem dæmi um það, sem hefði átt sér stað. Hinu datt mér ekki í hug að halda fram, að þetta væri eina ástæðan til þess, hvernig ástatt er í gjaldeyrismálunum hér nú. Þar kemur margt til greina. En einn tilgangur með þessari löggjöf, sem frv. þetta er um, er að koma í veg fyrir, að of langt sé gengið í þessu efni. sem sagt að koma í veg fyrir ónauðsynlegar framkvæmdir. En á undanförnum árum hefur óhæfilega mikið af gjaldeyri farið til slíkra framkvæmda. — Ég skal ekki fara út í það nú að ræða það nánar en gert hefur verið við þessa umr.

Það lætur nærri, að það hafi verið ráðstafað um eða yfir 1000 millj. kr. í erlendum gjaldeyri á síðustu tveimur árum. Þar koma margar ástæður til greina. En ástæða er til að benda á það, í framhaldi af því, sem hæstv. dómsmrh. tók fram, að það hefði ekki verið nóg bundið af fjármagninu innanlands, eins og þurft hefði að vera, og þess vegna hefði það leitað á með svo gífurlegum þunga, að menn hafa bognað fyrir því, og þess vegna hefði innflutningurinn orðið of mikill. Og þess vegna hefur einnig verið lagt í framkvæmdir, sem mikil óhæfa er að hafa átt sér stað sumar hverjar. Þar á ég auðvitað ekki við nýtilegar framkvæmdir eða framkvæmdir í atvinnumálum, heldur framkvæmdir allt annarrar tegundar, sem mikið hefur verið um á síðustu árum.

Hv. 2. þm. Reykv. spurði mig að því, hvort ég hefði hugsað mér að tryggja samræmi í útlánastefnu hjá bönkunum og starfsemi fjárhagsráðs, þar sem ég vildi ekki fallast á það að gera fjárhagsráð að eins konar yfirstjórn fyrir bankana. Í fæstum orðum sagt vil ég svara þessu í fyrsta lagi með því, að ég vil vinna að því að útiloka ónauðsynlegar framkvæmdir. Það er eitt af hlutverkum fjárhagsráðs. Í öðru lagi með því, að ríkisstj. gegnum yfirráð þings og stjórnar yfir bönkunum. sem eru ríkisstofnanir, hafi áhrif á útlánastarfsemi þeirra, þannig að þeir geri það, sem að eðlilegum hætti er hægt að krefjast af þeim. Og auðvitað yrði hvaða ríkisstj. sem er og hvaða þingmeirihluti sem væri að gera þær breyt., sem þyrfti. á yfirstjórn bankanna, sem gerði það að verkum, að þetta næðist. Það er ekki hægt öðruvísi. Og í þriðja lagi vil ég tryggja þetta með lagasetningu um fjáröflun til lánaframkvæmda, sem yrði sett á Alþ. til styrktar þeim stofnlánadeildum, sem upp hafa verið settar, til þess að bankarnir séu megnugir að lána. — Hitt, sem er ofarlega í hv. 2. þm. Reykv., að gera það eitt að setja í þessi l. ákvæði um að fyrirskipa bönkunum að lána, er ekkert úrræði út af fyrir sig.

Að lokum vil ég aðeins segja, að mér er sagt, að hv. 6. þm. Reykv. (SigfS) hafi haldið því fram, að í þessu frv. væri verið að fara inn á kreppupólitík, sem ég hefði fylgt og stýrt hér áður. Í þessu frv. er ekki ráðgert annað en það, að fjárhagsráð geti valið og hafnað framkvæmdum. Það er þannig meiningin, að það sé hægt að hafna þannig miður nauðsynlegum framkvæmdum, til þess að hægt sé að framkvæma aðrar, sem meira eru aðkallandi og meiri þýðingu hafa fyrir almenning í landinu. Þetta er sú pólitík, sem fjárhagsráði er ætlað að reka. Og þetta er pólitík, sem ég hef reynt að fylgja, sem ég kalla framfarapólitík, en ekki kreppupólitík. En kreppupólitík kalla ég það að leggja vinnuafl, fjármagn og gjaldeyri í ónauðsynlega hluti og gagnslausa, svo að það, sem nauðsynlegra er, verði að sitja á hakanum. Ég ætla ekki að segja hér, hverjir hafa rekið þessa pólitík, sem ég kalla kreppupólitík.