09.12.1946
Efri deild: 30. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

45. mál, menntaskólar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Þetta frv. fer fram á tvenns konar breyt. Aðra þá, að kennurum sé ekki skylt að kenna nema 24 stundir á viku í staðinn fyrir 27 stundir. sem ákveðið var í l., sem samþ. voru hér á síðasta þingi, og að þetta skuli ekki vera látið gilda fyrir kennara, sem nú kenna við skólana, heldur skuli þeir kenna það, sem ákveðið er í reglugerð fyrir Menntaskólann í Reykjavík, nr. 3 frá 8. febrúar 1937. En það mun vera 22 stundir hæst. — Ég vil benda á, að þetta á ekki heima í l. sjálfum um menntaskóla, en ætti að vera ákvæði. sem sett væri í væntanleg l. um skyldur og réttindi embættismanna. Mér finnst eðlilegra, að slík ákvæði sem þessi væru tekin þar upp í heild fyrir alla embættismenn, heldur en að slíkt sé verið að ákveða í öðrum sérstökum l., sem oft mundi skapa misræmi og framkallar ýmiss konar nauðsynlegar breyt. á l. síðar og einnig sumpart nokkurs konar kapphlaup í þessum efnum. Hefur það komið í ljós, að þessi áhrif hafa orðið af fyrirmælum l. um þessi efni. sem ég tel óheppilegt og óhollt. Ég vona, að hv. n., sem fær mál þetta til meðferðar, taki til athugunar, hvort ekki sé hægt að stöðva þetta mál, þar til hægt er að fá fram frv. um réttindi og skyldur embættismanna. Hæstv. Alþ. var lofað því, að þetta frv. skyldi verða lagt fram, nokkru eftir að launal. væru samþ. En það bólar ekki á efndum á því loforði, því miður, og þykir mér furðu gegna, að hv. þm. Snæf., sem skrifar undir nál., skuli mæla með því. að hæstv. Alþ. samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir, óbreytt, m.a. af því, að hann veit, að það hvílir á hans herðum að uppfylla það loforð, sem Alþ. gaf á sínum tíma í sambandi við flutning frv. um réttindi og skyldur embættismanna.

Það hefur þegar komið mjög greinilega fram, að allar þær aðvaranir, sem fram voru settar í sambandi við setningu launal., hafa verið á rökum byggðar, og hefur það, sem varað var við, komið fram, og það róttækar heldur en þeir þm. gerðu sér hugmynd um sem róttækastir voru í þessum efnum. Það er því ekki nema um tvennt fyrir ríkissjóð að gera, annaðhvort að binda sér stórkostlegan skuldabagga um mörg ókomin ár til þess að uppfylla þessi lagafyrirmæli. sem engin vissa er fyrir, að hann geti risið undir, eða að setja önnur l. um að fresta framkvæmd þessara l. Fjvn. hefur athugað þessi l. í sambandi við skólabyggingar og séð hvert stefnir, og hefur hún orðið að fresta störfum sínum vegna þess, hversu gersamlega hefur verið látið undir höfuð leggjast að afla nauðsynlegra tekna til þess að uppfylla þær kröfur um fjárframlög þess opinbera, sem geróar eru með l., sem samþ. voru á síðasta ári.

Í þriðja lagi vil ég leyfa mér að benda á það, að ég tel það þjóófélaginu óhollt að lögbinda. að menn skuli hafa aðeins 22 stunda vinnu á viku hverri. Það getur enginn maður. sem er heilbrigður, látið sér nægja svo stuttan vinnutíma, hvað þá 18 stundir á viku, og er þá tilgangur l. sýnilega eingöngu sá að hækka laun viðkomandi manna. og skal þá nokkuð farið inn á það, hvort það sé nauðsynlegt í þessu tilfelli.

Það lá mjög skýrt fyrir fjvn. á síðasta Alþ., að sumir kennarar, sem kenna við menntaskóla. höfðu allt að sextíu þús. kr. laun, að vísu ekki allt frá menntaskólanum sjálfum, en þeir höfðu það frá ríkisstofnunum. Þeir höfðu að vísu ekki nema takmarkaðan tíma að kenna, sem þeir fengu fyrir sín laun. En þeir höfðu svo margar aukakennslustundir í sjálfum skólanum. sem þeir voru launaðir kennarar við, að laun þeirra þutu svona upp. Það er einnig ljóst af landsreikningnum 1945, að laun kennara við Menntaskólann í Reykjavík eru 348 þús. kr., föstu launin, en 228 þús. kr. hafa verið greiddar fyrir stundakennslu í þeim skóla, og langmestur hluti af þessari stundakennslu er dreifður á þá kennara, sem hafa föst laun. og nú orðið góð laun, við skólana. Fjvn. hefur óskað, að rektor sendi sundurliðaða skýrslu yfir launagreiðslu fyrir stundakennslu. Þessi skýrsla hefur ekki borizt fjvn. enn. Vil ég mjög mælast til þess við hv. menntmn., að þetta mál verði ekki afgr. frá hv. þd., fyrr en þessi skýrsla liggur fyrir frá rektor. Þegar hún kemur, mun það koma í ljós, að margir kennarar, sem sitja með föst laun við skólann, hafa allrífleg laun við sama skóla og komast þannig upp í miklu hærri laun, en þjóðinni er kunnugt um.

Ég skal viðurkenna, að það lítur kannske nokkuð einkennilega út, að það sé verið að lengja vinnutíma þeirra gömlu kennara, sem nú eru við skólana og hafa aldrei unnið lengri tíma, heldur en reglugerðin frá 1937 ákveður. En það ber þá einnig að gæta þess, að þegar sú reglugerð var ákveðin, þá sátu þessir menn sem fastir embættismenn við skólana með mjög lágum launum, og einmitt ákvæðin um, að vinnutíminn skyldi ekki vera lengri, hafa áreiðanlega markazt af því, að það hefur átt að bæta þessum mönnum upp laun þeirra með því að stytta vinnutímann, þótt ekki þætti rétt að hækka laun þeirra beinlínis. En nú er þetta ástand ekki fyrir hendi, því að laun þessara manna hafa verið hækkuð, og það var talið hæfilegt, að þeir ynnu fullt verk fyrir þau laun. Ég sé því ekki, að ástæða sé til að stytta vinnutíma þessara manna frá því, sem ákveðið hefur verið með l. frá síðasta Alþ. Auk þess nær það ekki nokkurri átt að setja í l. heimild til þess að fækka kennslustundafjölda þessara kennara í 24 kennslustundir á viku úr 27 stundum, eins og í fyrra var ákveðið, að þeir hefðu, þar sem í fyrra var einnig ákveðið að stytta kennslustundirnar sjálfar úr 50 mínútum í 45 mínútur. Þessi kennslustundalengd er þess vegna nokkru minni heldur en ákveðið var í reglugerðinni frá 1937. Ég vil enn fremur benda á, að inn í lög var tekið viðkomandi launum þessara manna, að þeir hefðu frí frá störfum á fullum launum 10. hvert ár. Þetta eru vissulega mikil fríðindi, sem sjálfsagt hefðu getað haft einhver áhrif á upphæð launanna. ef þessar kröfur hefðu verið settar fram, þegar launal. var breytt. Þá má einnig benda á, að þessir kennarar, flestir eða allir, kenna ekki nema 9 mánuði af árinu og hafa því 3 mánaða frí, sem eru miklu meiri fríðindi, heldur en hjá öðrum embættismönnum.

Ég held, að mönnum sé ljóst, að málum sé nú svo komið í okkar þjóðfélagi. að við verðum að gera annaðhvort að lækka laun almennt í landinu eða krefjast meiri vinnu fyrir sömu laun. (PZ: Eða hvort tveggja.) Ég hygg, að ekki væri óeðlilegt að krefjast ekki aðeins af kennurum, heldur öllum þjóðfélagsþegnum yfirleitt meiri vinnu og betri afkasta heldur en nú eiga sér stað í þjóðfélaginu. Og þess vegna er það röng stefna að fara nú enn á ný — ofan á allt annað — að stytta vinnutíma nokkurrar stéttar manna í þjóðfélaginu og þá sérstaklega öfugt að farið, þegar um þá stétt manna er að ræða, sem hefur fastákveðnari vinnutíma heldur en aðrar styttir landsins. eins og hér á sér stað.

Ég mun því greiða atkv. á móti þessu frv. og vænti þess, að hv. menntmn. athugi allar þær aths., sem ég hef gert við málið á þessu stigi. Og sjái hún sér fært að mæla með nokkrum breyt. á l. frá síðasta Alþ.. nr. 58 frá 1946. vænti ég þess, að þær breyt. fari í þá átt að gera meiri kröfur til þeirra manna, sem mestar hafa fengið kjarabætur á undanförnum árum í sambandi við launalögin.