21.05.1947
Efri deild: 140. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Gísli Jónsson:

Ég skal lofa því að misbjóða ekki þolinmæði hæstv. forseta og vera stuttorður. Ég vil út af því, sem ræðumaður sagði í lok ræðu sinnar, hugga hann með því, að nýbyggingarráð hefur verið undir höndum sjálfstæðismanna síðan árið 1944 og hefur vegnað nokkuð vel undir þeirri stjórn. Formaður þess hefur verið sjálfstæðismaður. að vísu einn af okkar ágætustu mönnum, og hygg ég, að ekki séu margir í okkar þjóðfélagi nú, sem geta gagnrýnt stjórn hans á þeim málum, svo ég held, að hv. þm. geti sofið rólegur fyrir hræðslu sinni um þetta mál.

Annars ætla ég að mótmæla því, sem hér hefur fram komið.

Í fyrsta lagi er það þreytandi að þurfa að þrátta við mann, sem ekki getur stundinni lengur haldið sér við málið. Þetta kann að koma af því, að aðalstarf hans er að tyggja í börn, sem ekki taka eftir, en þrátt fyrir það virðist hann ekki eiga að hafa leyfi til að koma með þessi vinnubrögð sín hingað inn á Alþingi. Hann bar það blákalt fram, að ég hafi sagt, að bæjarútgerðin í Hafnarfirði greiddi ekki skatt. Ég vil benda honum á, að ég sagði ekki þessi orð. Ég sagði. að þau ár, sem bæjarútgerðin tapaði, hafi hún ekki greitt í bæjarsjóð Hafnarfjarðar, en þá urðu togarar einstaklinga að greiða í bæjarsjóðinn, þótt þeir töpuðu. Nú snýr þessi hv. þm. þessu við, og þetta er ekki satt, en í sambandi við það vil ég leyfa mér að benda á annað. Ég man ekki betur en að Kveldúlfur væri ásakaður fyrir að taka fé úr útgerðinni og leggja í Korpúlfsstaði. Þetta hefur verið básúnað út um allt land, en ég vil spyrja, — er það ekki þetta, sem verið er að gera nú, að taka 1/2 millj. úr bæjarútgerðinni og leggja í búið í Krýsuvík? (HV: Ekki í einstaklingseign.) Hverju skiptir, hvort það er einstaklingseign? Einstaklingarnir mynda þjóðfélagið. Heldur þessi þm., að ef bærinn á togarana, liggi þeir ekki bundnir við garðinn, ef ekki er hægt að láta þá bera sig eða þéna á þeim?

Ég hef aldrei lýst mig á móti bæjarútgerð. Ég veit ekki betur en að hér á þingi hafi verið búið þannig að bæjarrekstrinum. að hann fái miklu meiri fríðindi en einstaklingarnir. Það getur vel verið, að það sé enginn skaði fyrir þá, að þeir geti sýnt, að þeir geti innt þetta starf af hendi. Bæjarreksturinn fær hærri lán og betri kjör í stofnlánadeildinni, og það er miklu betur búið að honum en einstaklingunum. þar sem bæjarfyrirtækin fá öll fríðindi, en það eru þessir menn, þessir einstaklingar, sem hv. þm. hefur verið að dómfella, þessir ríku menn. Og nú hefur hann búið út skjal. þskj. 887. þar sem hann harmar, að þessir menn hafi orðið að fara burt úr kjördæmi hans. Þetta er náttúrlega til þess að lesa í útvarpið. Þessum mönnum hælir hann á hvert reipi. Þessir menn voru svo nauðsynlegir kjördæmi hans, að nú ætlast hann til, að ríkið fari að kaupa verksmiðjur þeirra.

Það er eitt eða tvennt hér, sem mig langar til að segja. Hann segir, að ég hafi sagt, að það vissi enginn, hvenær skip væri ósjófært. Þetta er rangt. Mér gæti aldrei til hugar komið að ætla skipaskoðun ríkisins eða Lloyds þá ósvífni að leyfa skipum að ganga, sem ekki gætu gengið. Þetta er ósvífni, en ekki nema ofurlítið brot af þeirri ósvifni, sem hann sýnir, þegar hann segir, að allir þeir menn, sem greiddu atkv. með sambandsslitunum 1944, hafi verið ódrengir, þegar allir, ungir og gamlir, sameinuðust um að losa okkur úr sambandinu við Dani. Svo leyfir hann sér að segja, að þetta hafi allt verið ódrengir.

Hún á sér ekki mikil takmörk ósvífni þessa þm. Nú fer ég að skilja það, sem féll af vörum eins flokksbróður hans skömmu eftir að hann kom á þing. Það er laglegur pappír. sem þið hafið flutt inn á þing. Já, sagði hann. Þessi víxill verður aldrei framlengdur.