04.02.1947
Efri deild: 64. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

35. mál, matsveina- og veitingaþjónaskóli

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft þetta mál til meðferðar. N. er ljóst, að það er aðkallandi þörf fyrir skóla, þar sem hægt sé að kenna mönnum matreiðslu, sem ætla að stunda þau störf á fiski- og farþegaskipum. Hefur sjútvn. orðið sammála um að leggja til, að slíkur skóli verði settur á stofn. N. telur hins vegar ekki ástæðu til þess, að inn í þetta frv. verði tekin sérstaklega ákvæði um skyldukennslu fyrir aðra matsveina eða veitingaþjóna, þar sem ákvæði um þau atriði eru í gildandi iðnfræðslulögum. Hins vegar þótti sjútvn. rétt að taka upp hér heimildarákvæði um það, að heimilt sé að halda uppi við skólann, eftir því sem við verði komið og fé er veitt til þess í fjárl., bóklegri og verklegri kennslu fyrir þá, sem nema vilja að fullu matsveina- og veitingaþjónaiðn samkv. gildandi l. um iðnfræðslu. Þá þótti n. rétt að setja í þetta frv. heimildargr., þar sem ríkisstj. væri heimilað að starfrækja matsölu í sambandi við skólann. Það er ætlazt til þess, að þessi skóli verði í sjómannaskólahúsinu, og með því að ljóst er, að mjög mikil þörf er á matstofu fyrir allan þann fjölda nemenda, sem hefur aðsetur þar í því húsi að vetrinum, og jafnvel eru líkindi til, að hægt mundi vera að starfrækja þar í húsinu matstofu að sumrinu, þá þykir rétt og eðlilegt, að ríkisstj. hafi heimild til þess að láta starfrækja slíka matstofu. Og mætti vænta þess, að ágóði af slíku fyrirtæki gæti staðið að miklu eða öllu leyti undir kostnaði skóla þess. sem hér er um að ræða.

Sjútvn. taldi ekki ástæðu til þess að setja í lög ákvæði um skipun sérstaks skólaráðs við þennan skóla fremur en aðra skóla, sem starfræktir eru í sjómannaskólanum. Það mun vera svo, að skólarnir mynda með sér sjálfir skólaráð hver fyrir sig. Hins vegar þykir rétt, að ef sett er upp mötuneyti. þá sé sett stjórn yfir það fyrirtæki, skólastjóra og bryta til aðstoðar, en ætlazt er til, að skólastjóri og bryti sé einn og sami maður við þennan skóla.

Sjútvn. hefur því orðið sammála um að leggja til, að þetta frv. verði samþ. með nokkrum breyt., sem ég skal gera hér nokkra grein fyrir. Brtt. n. eru á þskj. 352, og er 1. tölul. brtt. við 1. gr. frv., um, að sú gr. orðist um og verði: „Stofna skal og starfrækja skóla í Reykjavík, er veiti hagnýta kennslu þeim, er gerast vilja matsveinar á fiski- og flutningaskipum.“ 2. tölul. brtt. n. er um, að 2. gr. frv. verði breytt á þá leið, að nafn skólans verði Matsveinaskóli Íslands og að hann skuli hafa aðsetur í sjómannaskólanum og heyra undir sama ráðuneyti og sjómannafræðslan, og leggur sjútvn. til, að þessar tvær gr., tölul. 1. og 2. í brtt., komi í staðinn fyrir þær gr., sem eru í frv. 1. og 2. gr., eins og það kom frá hv. Nd. — Eftir till. n. verða 3. og 4. gr. frv. óbreyttar. En 5. gr. frv. þótti n. ástæða til að breyta nokkuð eins og kemur fram í 3. tölul. í brtt. n., þar sem lagt er til, að úr þeirri gr. verði felld orðin „og framreiðslumenn“, þannig að tekin eru út úr þessari gr. ákvæði um námsskyldur og námstíma fyrir veitingaþjóna sem annarra nema undir iðnfræðslul. og aðeins haldið sig við, eftir till. n., þann hluta, gr., sem snertir matsveina, sem ætla að starfa á fiski- og flutningaskipum.

Þá leggur n. til, að á eftir þessari gr. komi tvær nýjar gr., og hef ég áður getið um efni þeirra. Sú fyrri verði um það, að heimilt sé að halda uppi kennslu fyrir þá, sem ætla að verða matsveinar eða veitingaþjónar, þó að ekki sé á skipum, heldur samkv. gildandi l. um iðnfræðslu, en síðari gr. verði um heimild til að starfrækja mötuneyti við skólann. Þetta eru að vísu aðeins heimildargr. og ákvæði þeirra bundin við það, að fé verði veitt til þessa á fjári. hverju sinni.

5. brtt. er við 6. gr. (sem verði þá 8. gr.), um það, hvernig skipa skuli skólastjóra og kennara og þá stjórn, sem ætlazt er til, að sé skólastjóra til aðstoðar við mötuneyti og matsölu skólans, og er ætlazt til, að þrír menn verði í þessari stjórn, til 4 ára í senn, og hafi einn þeirra verzlunarþekkingu.

Svo er við 7. gr. frv. brtt. undir tölul. 6 í brtt. n., um, að með reglugerð skuli sett nánari ákvæði um starfsemi skólans, kennslutíma, námsefni og kennaralið. svo og um mötuneyti og matsölu skólans. — Við 8. gr. er brtt. um, að í stað orðsins „skólaráði“ komi: ráðherra. Og við 9. gr. um, að í stað orðsins „skólahaldið“ komi: skólahald, mötuneyti og matsölu.

Að síðustu er svo lagt til, að fyrirsögn frv. verði breytt og verði: „Frv. til l. um Matsveinaskóla Íslands.“

Allar þessar breyt. á frv. hafa verið ræddar við hæstv. samgmrh., sem málið heyrir undir og hefur tjáð, að hann gæti fellt sig við þessar breyt. og að hann geri það ekki að kappsmáli, þó að frv. sé breytt í þetta horf, sem n. leggur til. Sjútvn. hefur því lagt einróma til. að frv. verði samþ. með þeim breyt. sem ég nú hef lýst.