22.03.1948
Neðri deild: 80. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jóhann Hafstein:

Ég er einn þeirra, sem fylgt hafa þessu frv. með fyrirvara, og hef áskilið mér rétt til að fylgja brtt., sem fram kunna að koma, sérstaklega varðandi 1. lið, sem ég gerði mér von um, að hægt væri að milda. Ég er á móti 1. lið 1. gr. frv. og mun greiða atkv. á móti honum. Bæjarfélögin og sérstaklega Rvík hafa gert ákvarðanir sínar í fullu trausti á þessa löggjöf, og þetta kemur þeim því í opna skjöldu og truflar framkvæmdir. Þótt ég og aðrir séu á móti þessum 1. lið, er það ljóst. að hér er við örðugleika að glíma og að þetta stafar ekki af viljaskorti ríkisstj. Fyrir mér vakir hins vegar, að ekki verði kippt undan þessum þýðingarmiklu framkvæmdum fyrir Rvík.

Ég vil undirstrika það, sent hæstv. forsrh. sagði, að vilji væri fyrir hendi hjá stj. að taka málið til ýtarlegrar endurskoðunar. Það er skylda stj. að sjá til þess, að traustar verði um þetta búið. Ef ég hef skilið rétt, er hér um takmarkaða frestun að ræða, en ekki, að l. séu þurrkuð út, enda ekki gert ráð fyrir því í þessum lið, og má vænta þess, að gerðar verði viðunandi ráðstafanir, er tryggi áframhald laganna.

Ég mun greiða atkv. gegn 1. lið og vona, að stj. búi betur um hnútana í þessum efnum en gert hefur verið. Ef tími hefði unnizt til, hefði ég flutt áskorun eða þáltill. í þessa átt. Þingtímanum er hins vegar lokið, og samkv. ummælum hæstv. forsrh. sýnist þess ekki þörf, því að málið sé auðsótt.