03.11.1947
Efri deild: 13. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

28. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Út af ummælum hv. þm. Barð. vil ég taka það fram, að það kom skýrt fram hjá flugvallastjóra, að gjöldin, sem lögð eru á bifreiðabenzín í öðrum löndum, væru ekki lögð í sama mæli á flugvallabenzín, og hefur það bara verið af vangá minni, hafi það ekki komið fram í minni ræðu. — Hv. þm. talaði um það, — og þar fannst mér gæta misskilnings hjá honum, — að í þessu máli ræki sig eitt á annars horn. Það er ekki meiningin með þessu frv. að hækka á móti því, sem það lækkar, nein gjöld hjá hverri einstakri flugvél. (GJ: Það stendur í grg.) Það stendur ekki í frv., og í grg. er ekki heldur átt við það. Það, sem hér er um að ræða, er að lækka gjöld á hverjum einstökum gjaldanda, en þar með jafnframt tilraun til þess að fjölga gjaldendunum, og við það er einungis átt, þegar talað er í þessu sambandi um að auka heildartekjur ríkissjóðs, þannig að þær verði eins miklar eða meiri vegna þess, að gjaldendur verði fleiri, hvað sem grg. frv. líður. Það er satt hins vegar, að grg. mætti skilja svo eftir orðalaginu, að hægt mundi vera að hækka lendingargjöld hjá einstökum flugvélum til þess að auka tekjur ríkissjóðs. En það er alls ekki meiningin. Vonin um jafnmiklar tekjur a.m.k. eftir þessa breyt., sem í frv. felst, er byggð eingöngu á von um lendingu fleiri flugvéla.