21.11.1947
Efri deild: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

53. mál, ullarmat

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég heyri, að hv. þm. Barð. hefur algerlega misskilið mig. Ég var að skora á hv. fjvn. að gera tillögur um samræmingu dagpeninga opinberra starfsmanna. Það hefur verið samþykkt hér áður að samræma greiðslu dagpeninga og skorað á ríkisstj. að láta til sín taka um þetta mál, en hún hefur svikizt um það. En þetta þarf að endurtaka, enda er nú önnur stjórn, og má vera, að hún taki frekar tillit til vilja Alþingis en sú, er sat, er málið var rætt síðast. Óánægja mín út af misjöfnum dagpeningum breytir í engu fylgi mínu við frv. það, sem hér liggur fyrir, og það er engin ástæða til að setja nein ákvæði um dagpeninga þar inn í. Fjvn. á að sjá um þetta og koma á samræmi hér. Vilji hún ekki gera það, getur verið, að aðrir geri það, enda þótt ég verði að telja það verk hennar.