03.12.1947
Efri deild: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

72. mál, dýralæknar

Gísli Jónason:

Út af ummælum, sem komu fram hjá hv. 1. þm. N–M., vil ég segja það, að þetta skal verða tekið til athugunar, þegar þessi liður er afgr. frá fjvn., og gert í samráði við landbrh., sem ég geri ráð fyrir, að hafi með þessi mál að gera. Um hitt atriðið, að þessi styrkur hafi verið veittur þannig, að sumir dánir hafi styrk, en aðrir ekki tekið styrkinn í lengri tíma, þá er þetta ekkert einsdæmi um styrki, sem ákveðnir eru í l. Það eru menn á 18. gr. fjárl., sem hafa verið þar, frá því að fjárl. voru afgr., en ekki tekið styrkinn, og þar af leiðandi fellur styrkurinn niður. Það hefur verið veittur styrkur af menntamálaráði til listamanna og rithöfunda, sem aldrei hafa hirt hann, og það er ekki hægt að ásaka neinn í þeirri stofnun fyrir það. það er einkamál þessara manna, hvort þeir hirða sinn styrk eða ekki. En hins vegar hefur sá háttur verið hafður á um þetta mál, síðan ég kom í fjvn., að í samráði við yfirdýralækni hefur verið ákveðið, hvernig þessum styrk skyldi skipt milli viðkomandi aðila og slík skipting verið send ráðuneytinu til þess að fara eftir um úthlutunina. Að öðru leyti hefur fjvn. ekki afskipti af þessu máli, nema aðeins að fara eftir till. yfirdýralæknis um skiptinguna og ákveða síðan upphæðina í heild í fjárl. til þess að forðast að vera að setja inn mörg nöfn í fjárl.