17.12.1947
Neðri deild: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

102. mál, almannatryggingar

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það þarf ekki að þykja neitt undarlegt, þó að frá mér hafi komið þessi brtt., því að m.a. hv. 1. þm. Rang. ætti að vera kunnugt um, hver mín afstaða til þessara l. hefur verið frá upphafi. Og er ekki undarlegt, þó að fram komi brtt. um að fá leiðréttingu á þeim órétti, sem með þessum l. er hafður í frammi í sambandi við 112. gr. 1. — Hv. 1. þm. Rang. talaði um, að ef þessi brtt. væri samþ., þá verði l. gerð óstarfhæf, og það sé sama og að afnema l., vegna þess að breyt. hafi það í för með sér, að tekjur til tryggingastofnunarinnar rýrni mjög mikið. Það er náttúrlega ekki annað en það, sem ég vissi, þegar ég bar brtt. fram, að ef hún yrði samþ., þá mundu tekjur tryggingastofnunarinnar rýrna, ef ekki væru annars staðar fengnar tekjur í staðinn. En þessi hv. þm. hefur nú áður sagt það og sagði það reyndar nú, að það þyrfti með öllu að afnema þessa 112. gr. Og ekki hefur hann, þegar hann kom með þá fullyrðingu, bent á neitt annað, sem ætti að koma í staðinn til þess að mæta þeim tekjumissi, sem kæmi fram hjá tryggingunum við það, að þessi gr. væri felld niður. Annars verð ég að segja það, að ef það er svo, að þessi 112. gr. hafi getið á síðasta ári hátt á 12. millj. kr., eins og hv. frsm. sagði, þá ætti mönnum að vera það ljóst, að þetta er tilfinnanlegur skattur á framleiðsluna í landinu. Það er ljóst, að á hverju einasta þingi og jafnvel oft á hverju þingi er verið að íþyngja framleiðslunni með ýmiss konar sköttum og álögum. Athafnalífið í landinu byggist þó á því, að einhverjir vilji við framleiðslu fást. Og þetta atvinnurekendagjald er þess vegna það óréttlátasta gjald, sem lagt hefur verið á, því að það er eins og það sé verið að hegna þeim, sem vilja skaffa öðrum atvinnu.

Í sambandi við uppkomin börn og unglinga, sem eru hjá foreldrum sínum, skal bent á, að það hefur verið reynt að leiðrétta þetta ákvæði með því að láta viðkomandi aðila ekki greiða nema 1/4 hluta þessa gjalds, miða það við 13 vikur á ári. Samt sem áður er þetta gjald mjög tilfinnanlegt á þeim mönnum, þar sem unglingar á aldrinum 16 til 20 ára eru margir, en vinna sér ekki inn neinn eyri, heldur eru á skólum og eru til stórkostlegs kostnaðar fyrir foreldra sína af þeim ástæðum. — Ég held satt að segja, að þótt þessi brtt. verði ekki samþ., þá verði l. alls ekki starfhæfari, síður en svo. En verði brtt. samþ., þá minnka að vísu tekjur tryggingastofnunarinnar, það er rétt, nema annar tekjustofn sé fundinn í staðinn. En vilji tryggingaráð endilega leggja það til, að hlunnindin, sem tryggingarnar veita mönnum, haldist þau sömu og áður hafa verið, þá er ekki um annað að ræða en að leggja fyrir Alþ. frv. eða till. um, hvernig eigi að ná því fé inn, sem atvinnurekendum áður var ætlað að greiða. Hins vegar held ég það, að a.m.k. þeir menn, sem hafa talað á móti tryggingalöggjöfinni og öllum þeim útgjöldum, sem þau l. hafa í för með sér, þeir ættu ekki að barma sér yfir því, þó að útgjöldin til trygginganna lækkuðu eitthvað og eitthvað yrði þá líka dregið úr þeim hlunnindum, sem þau veita. Hv. frsm. sagði hér áðan, að tæplega væri komin enn sú reynsla á þessi l., að hægt væri að gera stórkostlegar breyt. á þeim eins og sakir stæðu. En þetta eru sömu rökin, sem hann tilfærði hér á síðasta þingi, þegar hann varð til þess að hafa framsögu fyrir rökstuddri dagskrá um að vísa frá frv., sem hv. þm. V-Húnv. flutti á því þingi og var í flestum atriðum samhljóða því frv., sem sá hv. þm. hefur nú flutt ásamt fleirum. Þá var því frv. vikið frá afgreiðslu á þeim forsendum, að ekki væri nægileg reynsla fengin á tryggingal. og ekki tímabært að gera breyt. á þeim fyrr en á næsta þingi. Og nú er þetta næsta þing komið, og þess vegna er ekki hægt að taka það gott og gilt, þó að sagt sé: Það er ekki nægileg reynsla fengin, við verðum enn að bíða til næsta þings, því að ef við segjum þetta nú aftur, þá erum við að leika þann skollaleik, sem a.m.k. þm. geta ekki látið bjóða sér. Og sannleikurinn er sá, að nægileg reynsla er fengin nú þegar á þessi l., á það, að sá baggi, sem þessi l. binda atvinnurekendum, er þannig, að þeir fá ekki undir honum risið. Og það er ekki að ástæðulausu, að áskoranir hafa borizt hvaðanæva af landinu um það að afnema þessa gr. úr l. Og það er vegna þess, að menn stynja undir þeim byrðum, sem á eru lagðar í sambandi við þessa gr. Og ég er hissa á því, að þessi hv. þm., sem talaði hér áðan og ég veit, að vill létta þessar byrðar, skuli láta sér nægja þessa 25% lækkun, sem á þskj. 155 er farið fram á. Það er svo lítið, að það er nokkuð, sem menn sætta sig ekki við, þótt kannske megi segja, að það sé betra en alls ekki neitt, ef ekkert væri annað fáanlegt. Ég tel, að tryggingaráð geti endurskoðað sína fjárhagsáætlun. Og það er fjarstæða að halda því fram, að tryggingal. öll séu óstarfhæf á næsta ári, þó að þessi brtt. mín væri samþ. Hitt er ekki nema sjálfsagt og velkomið. að taka brtt. aftur til 3. umr. og gefa heilbr.- og félmn. og tryggingaráði tækifæri til þess að athuga málið á milli umr., ef það þykir eitthvað betra. Skal ég því verða við þeirri ósk að taka brtt. aftur til 3. umr.