15.12.1947
Efri deild: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (1362)

47. mál, togarasmíði í tilraunaskyni

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Barð. fyrir upplýsingarnar, sem hann hefur gefið. Ég skil nú, hvað fyrir honum vakir, að þessi togari á að vera ríkisfyrirtæki, en hann á enn eftir að gera það upp við sig, hvort ríkið hafi fé til þess arna.

Hv. þm. fór að tala um Búnaðarbankann og landbúnað, málefni, sem koma þessu, sem hér er verið að ræða um, ekkert við. Hann talaði um vísindastarfsemi mína. Hún hefur aldrei verið til, og það hefur aldrei verið ætlazt til þess af mér í starfi mínu hjá Búnaðarfélagi Íslands. Atvikin hafa þó nokkrum sinnum borið upp í hendurnar á mér lausn atriða, sem áður voru ókunn, og hef ég þá ritað um þau t.d. í erlend sérfræðingarit, eins og um arfgengi ýmissa kvilla, og getur hv. þm. lesið um það þar.

Ég fæ ekki betur séð en nauðsynlegt sé að leggja ákveðinn grundvöll um rekstur þessa togara. Um það er ekkert í frv. Ég vil því skora á sjútvn. að athuga það gaumgæfilega. Ef ætlazt er til, að ríkið reki skipið, verður það að koma skýrt fram í frv. Ef hins vegar þetta á að vera styrkur til einstaks manns, sem reka á skipið, verður það einnig að koma skýrt fram. Þegar maður ætlar að gera eitthvað, verður maður alltaf að hugsa til enda það, sem gera á, en ekki bara um byrjunina. Það verður þess vegna að ákveðast, hver á að reka slíkan togara, sem á að kosta fjórar millj. króna. Ég hef aldrei verið hræddur við ríkisrekstur, eins og sumir aðrir, og get því vel fallizt á, að ríkið reki þetta skip, en það verður bara að koma skýrt fram, að svo eigi að vera.