15.12.1947
Efri deild: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

47. mál, togarasmíði í tilraunaskyni

Frsm. (Gísli Jónsson):

Ég skil ekki hv. 1. þm. N-M. í þessu máli. Það er engu líkara en að hann hafi ekki lesið þingskjalið. (PZ: Það hef ég ekki heldur gert.) Það má fyrirgefa honum, þegar hann viðurkennir, að hann hafi ekki lesið þskj. En þegar hann man ekki, hvað sagt er við hlið hans, þá er það orðið lakara. Ég sagði, að ég skoðaði ummæli hans ekki sem kala til málsins. Nú segir hann það. Ég sagði, að það bæri svip af ofurlitlum kala, en svo snýr hann þessu við. Þá segir hann, að ég fari hjá mér viðvíkjandi því, hver eigi að reka skipið, en ég hef sagt, að eigandinn ætti að gera það. En eins og sjá má á þskj. 174, leggur Félag íslenzkra botnvörpuskipaeigenda til, og leggur sérstaka áherzlu á það, að skipið verði byggt með það fyrir augum, að það verði notað sem leitarskip fyrir fiskiflotann og jafnframt sem hafrannsóknaskip á djúpmiðum. Síðan benti ég á fordæmi, að fiskimálasjóður hefði staðið að slíkum rannsóknum. Ég hef aldrei talað um styrk til útgerðarinnar, en hins vegar sagði ég, að eðlilegast væri, að ríkið héldi uppi tilraununum.

Viðvíkjandi því, hvort uppfylla ætti ný loforð fyrr en eldri, sagði ég, að það gæti verið sjálfsagt að gera það — og þá það fyrr, sem gæfi meiri arð.

Þá vil ég loks benda hv. þm. á það, að ráðh. óskaði þeirrar breyt. á 1. gr. frv., að ríkissjóði væri þetta heimilt, en það ekki ákveðið. Þetta var varfærni, sem n. samþykkti að taka tillit til. Bara einn nm. vildi láta samþykkja frv. óbreytt, en n. féllst annars á þá breyt., að það yrði á valdi ráðh., hve langt yrði gengið, í trausti þess, að á næsta ári yrði tæknilegum undirbúningi lokið. Ef til vill leiðir sá tæknilegi undirbúningur í ljós, að þetta sé ekki fært, en ég geri ráð fyrir, að ráðh. velji beztu sérfræðinga til þessarar rannsóknar, innlenda og erlenda, og þá sést, hvort rétt er að fara inn á þetta.

Þá vil ég loks benda á það í sambandi við nýsköpunartogarana, að n., sem fyrst fór, átti að óska tilboða í beztu tegund, sem Bretar þekktu þá. N. fékk þessi tilboð, en það var ekki nóg, því að Íslendingar vissu betur. Það þurfti þá átök til þess að fá Breta til þess að skilja þetta, en nú skilja þeir það og hafa sagt, að þeir færu inn á sömu braut, þegar þeir hefðu ráð á að byggja líka. Það er vert að taka hverri góðri hugmynd, hvaðan sem hún kemur.