16.12.1947
Efri deild: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

47. mál, togarasmíði í tilraunaskyni

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það kom til orða í n. að gera þessa brtt., sem hv. 2. þm. Árn. hefur borið fram, og að það þætti kannske eðlilegra að hafa það orðalag. En við samanburð á þessu við eldri l., t.d. um Síldarverksmiðjur ríkisins, þá sást, að þar var þetta orðalag: „Ríkissjóði er heimilt að láta smiða“. Það kom líka til orða að hafa það þannig: Ríkisstjórninni er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs o.s.frv. Ég er ekki á móti því að samþykkja þessa brtt. hv. 2. þm. Árn., ef hv. þd. þykir ástæða til.

Um aths. frá hv. 3. landsk. þm. (HV) vildi ég mega segja, að ég persónulega legg enn þá meira upp úr öryggi skipanna en þó hinu atriðinu, sem hann minntist á. Það er að vísu ljóst, að það kemur ekki undir stærð skipanna, hvert öryggi þeirra er fyrir sjómennina, en það er hins vegar mjög mikið komið undir borði fyrir báru, sem skipin hafa, hvort þau eru góð sjóskip eða ekki. Og það er ljóst, að þetta skip fengi a.m.k. þrefalt borð fyrir báru á við önnur skip af sömu stærð. Auk þess er ljóst, að slysahætta á slíku skipi, sem hér er gert ráð fyrir, mundi verða margfalt minni en á öðrum, þó að ekki sé til tekið nema af vírum. Og í þriðja lagi er það, sem ég legg ákaflega mikið upp úr, að mögulegt er með þessu móti, sem hér er gert ráð fyrir, að skapa aðstöðu til að vinna undir þaki, svo að sjómenn þurfi ekki að vera ofan þilja við vinnu, berskjaldaðir fyrir veðri og vindi. Þetta atriði og hitt líka, að geta unnið sem bezt úr aflanum, er fyrir mér mikið atriði. En meginatriðið fyrir mér er þó öryggið fyrir sjómennina.