10.12.1947
Neðri deild: 30. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (1468)

45. mál, búfjárrækt

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Þetta er nú allstór lagabálkur, og brtt. þessar við frv. eru mjög víðtækar. Og það er ekki hægt að átta sig vel á þessu öllu á mjög stuttum tíma. Ég hef reynt, á meðan á umr. stóð um annað mál, að hlaupa yfir þetta frv., og má vera, að í því séu ekki mjög miklar till. um breyt. frá því, sem nú er í gildandi l., heldur teknir saman og athugaðir lagabálkar og færðir í eina heild. Þó eru í þessu frv. nýmæli, eins og t.d. að því er snertir svína- og hænsnarækt, sem er mjög merkileg.

Hv. landbn. hefur auðsjáanlega lagt mikið starf í að endurskoða þetta lagafrv., og ég vil á engan hátt draga úr því verki, sem í þetta hefur verið lagt. En ég vildi aðeins benda á nokkur atriði, sérstaklega í fyrsta kafla frv. um nautgriparækt, sem mér hefði fundizt ekki alveg óviðeigandi, að breytt væri eitthvað orðalagi á. Það er t.d. í 7. gr. frv. talað um, að heimilt sé „að taka hærri nautstoll af utanfélagsmönnum“. Mér finnst þarna dálítið óviðkunnanlega að orði komizt í lagasetningu, og mætti sjálfsagt orða þetta þannig, að meir væri í samræmi við íslenzkar málvenjur. — Í 10. gr. er sagt, að bæta skuli kúakynið og að þau félög, sem þar eru greind, geti fengið styrk til þeirrar starfsemi sinnar, eins og þar greinir, en þar er aftur á móti ekkert sagt um það, hvaðan þessi styrkur eigi að vera. En þetta hefur kannske staðið svona í l. áður og ekki komið að sök. En þar sem talað er um styrk í frv. frá nokkrum öðrum stöðum en úr ríkissjóði, þá virðist mér rétt, að það komi fram, hvaðan þessi styrkur, sem um er talað í 10. gr. frv., eigi að koma. — Það má vera, að það sé siður í sveitinni að segja, að naut eigi dætur. Það er talað um það í 14. gr. frv., að „fyrstu verðlaun geti þau naut ein hlotið, sem eiga dætur á sýningunni,“ og að heimilt sé að „veita einstökum kúm heiðursverðlaun, ef þær hafa sýnt með afkvæmum sínum, að þær hafa verulega kynbætandi áhrif á nautgripastofninn.“ Af því að n. hefur lagt svo mikla vinnu í þetta frv., þá hefði mér ekki fundizt óviðeigandi, að hún hefði tekið þetta orðalag svolítið til athugunar, því að það mundi ekki muna um eina brtt. til. — Í 19. gr. er sagt, að það eigi að greiða 50 kr. styrk fyrir hvern l. verðlauna hrút og allt að einni kr. „á hverja kynbótaá, sem í félaginu er og skýrslur eru haldnar yfir“, o.s.frv. Ég veit ekki, hvort þarna er vel heppilega að orði komizt. Þó að það kunni að vera nokkuð annar siður með félagsskapinn í sveitinni en annars staðar, hef ég aldrei heyrt getið um, að ærnar séu meðlimir í félögum þar. Ég vildi aðeins benda á þetta, ef hv. n. fyndist það þess virði að færa þetta til betra máls, og væri æskilegt, að hún tæki þetta til athugunar á milli umr.

Annars mætti e.t.v. segja um þá grundvallarreglu viðkomandi greiðslum, sem kemur fram í þessu frv., að þetta gæti verið dálítið einfaldara á þann hátt, að ríkissjóður legði fram árlega vissar upphæðir til búfjársýninga og til þeirra félaga, sem rætt er um í frv., að stofnuð séu í sveitum í þeim tilgangi að bæta bústofn landsmanna, og að þær upphæðir væru árlega ákveðnar í fjárl., án þess að beinlínis væri til tekið svona, eins og hér er gert, að styrkurinn eigi að nema frá tveimur aurum upp í 10 aura á hverja skepnu. Það mætti kannske hafa þetta dálítið einfaldara en gert er ráð fyrir í frv. og fella niður verulegan hluta frv. á þann hátt, jafnvel þótt ekki væri á neinn veg dregið úr því, að ríkissjóður styrkti þessa mjög merkilegu og nauðsynlegu framkvæmd. — Þetta eru aðeins lauslegar aths.