26.02.1948
Efri deild: 69. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

165. mál, byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp

Frsm. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Landbn. hefur athugað mál þetta á ný, eins og lofað var við 1. umr., og orðið sammála um að flytja við það tvær brtt., og þar sem ekki hefur unnizt tími til að prenta þær, flyt ég þær hér skrifl. Ég leyfi mér að lesa þær, með leyfi hæstv. forseta. Sú fyrri er við 3. gr. og er á þessa leið: „Í stað orðanna „5. gr. tölulið 1–7“ (í nýrri 6. gr. laganna) komi: 5. gr., 2. tölul., undirtöluliði 1–7.“ Þetta er aðeins leiðrétting, því að hér er ekki um að ræða neina efnisbreyt., heldur er þessu breytt til þess að það verði ljósara og skýrara.

Í samræmi við það, sem fram kom hjá hæstv. landbrh. og hv. 1. þm. Eyf. um það, hvort komið gæti til mála, að ein sýsla í byggingarumdæminu fengi greidd laun úr byggingarsjóði, án þess að samþykkt um sameiginlegan byggingarfulltrúa kæmi til, hefur n. flutt aðra brtt. við nýja 6. gr. laganna, og hljóðar hún svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nái samþykkt um sameiginlegan byggingarfulltrúa ekki löglegu samþykki, samkvæmt 2. málsgr. þessarar greinar, getur hluti af byggingarumdæmi, sem þó verður að ná yfir eitt sýslufélag minnst, ráðið sér byggingarfulltrúa og fengið hlutfallsleg laun hans úr byggingarsjóði miðað við matsverð fasteigna á svæðinu borið saman við heildarfasteignamat í öllu byggingarumdæminu.“

Með þessu álítur n., að minni hlutinn geti ekki sett stólinn fyrir dyrnar og byggingarfélög meiri hlutans geti þá fengið greidd laun byggingarfulltrúa samkv. matsverði viðkomandi héraðs. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum og læk því máli mínu lokið.