15.12.1947
Neðri deild: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Forseti (BG):

Samkvæmt samþykkt hv. 3. hefur hv. þm. lokið ræðutíma sínum. (EOl: Ætlar hæstv. forseti að beita valdi sínu til að taka málfrelsi af þm., þegar ráðherrarnir hafa hver eftir annan talað hér og borið hinar ósvífnustu blekkingar fyrir þingheim?)

Það skal upplýst, að þegar samþykkt var að takmarka ræðutíma hv. þm., þá hafði hv. stjórnarandstaða notað við umr. 4 klst. og 21 mín., en stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. 4 klst. og 9 mín. Enn fremur vil ég út af orðum hv. 2. þm. Reykv. taka það fram, að ekki virðist ósanngjarnt, að ræðutíminn sé takmarkaður, og hér hefur verið gerð lögleg samþykkt þar að lútandi, og má forseti ekki víkja frá henni. Aðeins hv. þd. getur leyst mig frá þeirri samþykkt, sem gerð hefur verið. (EOl: Herra forseti. — Má ég halda áfram ræðu minni?) Ég hef þegar tekið fram, að ég get ekki hvikað frá samþykkt hv. d. (EOl: Herra forseti. — Má ég tala um þingsköp?) Það virðist óþarfi að ræða þetta nánar, því að samþykkt hv. d. er skýr. Annars getur hv. 2. þm. Reykv. fengið að tala um þingsköp.