08.03.1948
Neðri deild: 70. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

79. mál, kaupréttur á jörðum

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég vildi rétt segja örfá orð um það mál, sem hér er til umr. og komið er frá Ed.

Ég skal fyrst taka það fram, að frá mínu sjónarmiði er það töluvert mikið vafamál, að rýra rétt leiguliðanna á jörðunum til forkaupsréttar, því að frá mínu sjónarmiði séð er það nauðsynlegt, að sem allra flestar jarðir séu í sjálfsábúð, og ég fyrir mitt leyti er ekki hlynntur því að stuðla að því, að jarðirnar komist í eigu sveitarfélaganna. Mér þykir því þessi frestur, sem til er tekinn í brtt., of langur. Hann hefði gjarnan mátt vera ekki nema 2 ár, því að ég álít, að leiguliðar eigi að ganga fyrir um kaup á jörðunum. En ég hef gengið inn á að leggja til, að fresturinn verði 3 ár, eins og á sér stað í ríkjandi lögum um ættaróðal og óðalsrétt.

Viðvíkjandi brtt., sem lögð er fram af hv. 1. þm. Skagf. (StgrSt) og 8. þm. Reykv. (SG), að gera meiri breyt. viðvíkjandi rétti skyldmenna, er ég henni alveg mótfallinn, ekki einasta af þeim orsökum, sem frsm. tók fram, heldur af því, að ég vil ekki ganga á rétt erfingja umfram það, sem segir í erfðal. Það er komin fram þáltill. um að breyta erfðal. Ef það verður gert, kemur þetta til athugunar, en ég vil mælast til þess, að þm. samþykki ekki brtt. á þskj. 433.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Ég tel þetta frekar lítið mál, sem ekki sé mjög áríðandi að koma í gegn. Enda þótt þess kunni að vera einhver dæmi, að leiguliðar séu hafðir fyrir leppa, þá held ég, að þau séu mjög fátíð.

Sem sagt, ég mun fylgja frv. með þeim brtt., sem n. hefur lagt til, en mæli móti brtt. á þskj. 433.