20.12.1947
Sameinað þing: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég fæ ekki séð, hvernig hæstv. sjútvmrh. fær það út úr ræðu minni, að líklegt sé, að eitthvað sé að mér. Hann talaði um, að ég hefði verið taugaóstyrkur. Ég verð að segja. að mér virðist eitthvað vera að hæstv. ráðh., að hann skuli komast að slíkri niðurstöðu. — Till. mín var um að fela ríkisstj. að athuga tiltekið mál. Það, sem ég hef fundið að, er, að hann sem form. n., sem málinu þá var vísað til í fyrra, og nú sem sjútvmrh. skyldi aldrei hafa sýnt þessari till. hinn minnsta áhuga. Kom það fyrst fram í því, að till. var aldrei tekin fyrir í n. í fyrra, og eftir að till. hefur verið endurflutt nú og ekki enn verið afgreidd í n. á þessu þingi, horfir hann á þetta aðgerðalaus gagnvart n., en lætur framkvæma þá rannsókn, sem um er að ræða, án þess að tala við n., sem hafði till. mína til meðferðar — og án þess reyndar líka að tala við mig, en til þess ætlaðist ég þó ekki. — En til hins hefði mátt ætlast af honum, að hann talaði við þá n., sem hefur með höndum till. um mál, sem hann lætur rannsaka og flytur svo frv. um. Ég er viss um, að hann á fáa skoðanabræður um það, að það sé óeðlilegt, sem ég hef sagt um þetta nú. Ég býst við, að hv. þm. yfirleitt muni þykja þetta mjög undarleg og óviðeigandi vinnubrögð. Og mér kemur það ekki óvænt, þó að ýmsir allshnm. taki undir þessa skoðun mína, að sjálfsagt hefði verið, að ráðh. sýndi n. þann sóma a.m.k. að segja henni af því, að hann væri að gera ráðstafanir, sem jafngiltu samþykkt till., sem sú n. hefði með höndum athugun á. Hæstv. ráðh. þarf því ekki að kvarta yfir því, þó að ég lýsi yfir, að ég' áliti þetta af hans hendi vera skort á góðum þingsiðum og góðum mannasiðum, því að það er rétt.