23.03.1948
Efri deild: 86. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (2230)

157. mál, beitumál

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að vera langorður. Frv. þetta hefur verið rætt í sjútvn. og hún ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Minni hl., hv. 4. landsk. og hv. þm. N-Þ., vill samþykkja það óbreytt og munu þeir gefa út sérstakt nál. Sjútvn. ræddi við beitun., um þetta atriði og fékk skriflega umsögn frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna og Fiskifélagi Íslands, og fiskimálastjóri hefur mætt á fundi n. Álit þessara aðila kemur fram í fylgiskjölum og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að þeir séu allir sammála um að ógerlegt sé að láta l. ná til þeirrar beitu, sem var seld á þessari vertíð. Auk þess er annað vandamál í sambandi við verðjöfnun. Ætla ég að því verði ekki mótmælt, að meðalverð á síld mundi hækka. Þetta mundi ekki hvetja menn til að geyma beitu til næsta árs og ekki heldur til að afla nýrrar beitu. Meiri hl. n. lítur svo á, að nauðsynlegt sé, ef mögulegt er, að haga þannig frystingu í framtíðinni, að hægt sé að geyma beituna óskemmda ár frá ári. Og það liggja þegar fyrir upplýsingar um, að þetta er hægt með því að frysta í loftþéttum umbúðum. Meiri hl. leggur því aðaláherzluna á, að unnið sé að því nú þegar að afla slíkra umbúða. Mætti ef til vill bjarga miklu af þeirri beitu. sem ekki er seld. Ég vænti að hæstv. ríkisstj. ljái þessu máli lið, svo að hægt verði fyrirvaralaust að afla slíkra umbúða til landsins,þar sem útgerðarmenn ættu þess kost að bjarga beitunni á þann hátt. Því er haldið fram að nokkuð mikill vafi sé á, að menn vilji afla beitu á sumarvertíðinni til frystingar, vegna þess að vel geti komið til mála, að á næsta hausti verði ódýr beita við Faxaflóa. En við þessi skilyrði hafa útgerðarmenn alltaf orðið að búa meira og minna. að taka áhættu með beituöflun, hvað geymsluna snertir. Sú áhætta minnkar mikið með greiðum aðgangi að þeim umbúðum, sem við höfum talað um.

Ég hygg einnig, að minni hl. fallist á, að svo framarlega sem þeirra till. verða felldar í d., þ. e. að dagskráin verði felld, þá óski þeir þó eftir, til þess að eitthvað verði gert í málinu, að stigið verði þetta spor, sem ætti að verða til mikilla bóta, að afla réttra umbúða. Ég legg því til f. h. meiri hl., að hin rökst. dagskrá verði samþ.