23.03.1948
Efri deild: 86. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (2231)

157. mál, beitumál

Frsm. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég verð að segja, að mér virðist hafa orðið dálítið undarleg meðferð þessa máls. Þetta frv. á þskj. 338 er í raun og veru stjfrv., flutt af sjútvn. d. samkv. beiðni sjútvmrh. Sjútvn. hefur leitað umsagnar 3 aðila um þetta frv., eins og hv. frsm. meiri hl. gat um áðan og allir þessir aðilar hafa mælt með því að frv. þetta verði samþ. Samt sem áður snýst meiri hl. sjútvn. á móti málinu, og eru það allt stuðningsmenn stj. Leggja þeir til eftir að búið er að draga afgreiðslu málsins alllengi, að málinu verði vísað frá með rökst. dagskrá. Aðeins ég, sem ekki er stuðningsmaður ríkisstj., og hv. þm. N-Þ. höfum tekið þann kost að mæla með framgangi frv. í samræmi við óskir þeirra aðila, sem þarna eiga fyrst og fremst hagsmuna að gæta og samkv. mjög eindregnum tilmælum beitun. til sjútvmrh. og síðan beiðni hans til sjútvn. um það að flytja þetta frv.

Aðalrökin fyrir því að heimila þá verðjöfnun á beitusíld, sem felst í ákvæðum frv., eru þau að vegna þeirra veiða sem í Hvalfirði hafa verið tvö s. l. haust, sé mikil hætta á að menn haldi áfram að reikna með því að slíkar síldveiðar verði einnig næsta haust og áfram, og því verði engar ráðstafanir gerðar til að frysta síld til beitu yfir sumarvertíðina og á reknetjavertíðinni í Faxaflóa snemma að haustinu. Það mundi síðan leiða til þess, að ef svo færi, sem alltaf getur orðið að síðan yrði lítil eða engin síldveiði í Hvalfirði eða annars staðar við Faxaflóa næsta haust og vetur, þá stæðu menn uppi, þegar vetrarvertíðin byrjaði, ef til vill með enga beitusíld. Ég held þetta sé of mikil áhætta, ekki aðeins fyrir þá einstaklinga, sem hlut eiga að máli, heldur líka fyrir þennan þýðingarmikla atvinnuveg þjóðarinnar í heild. Það er ætlazt til með þessu frv. að koma í veg fyrir slíka þróun þessa máls með því að heimila ráðh. að ákveða verðjöfnun þeirrar síldar, sem fryst yrði til beitu, þótt keypt hafi verið inn til frystingar með mismunandi verði. En það er vitað mál og fengin fyrir því reynsla, að sú síld, sem er keypt til frystingar á sumarvertíðinni fyrir norðan og fryst þar, en flutt síðan suður til notkunar, getur verið miklu dýrari en sú, sem veiðist hér fyrir sunnan, jafnvel dýrari en reknetjasíld og miklu dýrari en herpinótasíld, sem kynni að veiðast í Faxaflóa að haustinu og vetrinum. En þessi verðmunur mundi leiða til þess, að ef menn, sem kaupa dýra síld að sumrinu til frystingar, hafa ekki neina tryggingu fyrir því að geta selt hana fyrir kostnaði, þá mundu þeir ekki afla sér neinnar síldar til frystingar. Afleiðingin gæti orðið sú, að útgerðin stæði svo uppi í vetrarvertíðarbyrjun án þess að hafa svo sem nokkra síld til beitu.

Ég álít þess vegna, að þetta mál sé svo þýðingarmikið, að ekki sé rétt af þinginu að gefa sér ekki tíma til að afgreiða það, enda hefði verið nógur tími til að vera búinn að því, ef ekki hefði verið tafið fyrir því af mönnum, sem einhverra hluta vegna eru á móti því, að þessi háttur sé upp tekinn. Það kann að vera tvísýnt nú að koma málinu í gegn. En ég vildi þó, að gerð yrði tilraun til þess.

Hv. frsm. meiri hl. færði nú hér fram m. a. þau rök móti þessu, að eins og nú væri komið, mundi þessi lagasetning ekki geta verkað neitt, þó að þetta frv. yrði samþ. nú, væri ekki hægt að nota l. til verðjöfnunar á síld, sem menn nota þessa vetrarvertíð. Ég býst við, að það sé rétt. En þar með eru þá líka fallin þau rök, sem hann flutti fram, að af þessu mundi hljótast mikill kostnaður, vegna þess að verðjöfnun mundi verða látin ná til allrar síldar, sem nú er til og e. t. v. yrði ekki notuð og yrði eyðilögð, en heimtað fyrir hana verð og tekið tillit til þess í væntanlegri verðjöfnun. Hér eru þessi rök þá niður fallin. Þetta mundi ekki hafa nein áhrif til hækkunar á beituverðinu. En þrátt fyrir það, að heimildina sé ekki hægt að nota í þetta sinn vegna þess, hve mikill dráttur hefur orðið á málinu og langt er liðið á vertíð, þá álít ég engu að síður ástæðu til og jafnmikla nauðsyn, að þetta frv. sé samþ. nú, til þess að nota megi heimildina á næsta hausti, því að eins og ég sagði áðan, ef engin heimild er til um þetta, getur farið svo, að ekki yrði séð fyrir neinni beitufrystingu í sumar eða haust og treyst eingöngu á herpinótaveiðina í Faxaflóa á næsta vetri. Og ef sú veiði bregzt, er engin beita fyrir hendi. Ef hins vegar heimild væri nú gefin og notuð, mundu menn ekki hafa af þessu þá áhættu, sem annars væri, og mundu gera svipaðar ráðstafanir og áður. Þær ráðstafanir, sem meiri hl. vill gera og felast í dagskrártill. á þskj. 572, eru hins vegar að mínu áliti alls ófullnægjandi fyrir þessa næstu vertíð. Ég fellst algerlega á það, að bezta úrræðið, sem er fyrir hendi í framtíðinni, sé að frysta síldina í loftþéttum umbúðum, til þess að hægt sé að geyma hana ár frá ári, og séu þannig alltaf tryggðar fyrirliggjandi nægar beitubirgðir, án þess að fylgi sú áhætta, að síldin eyðileggist. En jafnvel þótt undinn yrði bráður bugur að því að útvega þessar umbúðir, sem þó engin trygging er fyrir með dagskránni, þá mundi það ekki koma að gagni fyrir beituöflun á næstkomandi sumri, því að vegna þeirrar áhættu og verðmismunar, sem á þessu er, eru mestar líkur til, að sú beituöflun færi að mjög litlu leyti fram á næsta sumri, heldur yrði treyst á næsta haust og vetur. Og ef hún brygðist, yrðum við jafnbeitulausir fyrir því. Sú ráðstöfun getur gilt fyrir framtíðina. þegar búið er að útvega umbúðir og vélar til að nota þær. En þó tel ég mikla hættu á, að síldar í þær umbúðir yrði ekki aflað í sumar, nema heimild til verðjöfnunar yrði nú samþ. og hægt yrði að beita henni þegar á næsta sumri og haust. Ég vil þess vegna halda fast við það, að mikil þörf sé á því að samþ. þetta frv. og gefa ráðh. þá heimild, sem það felur í sér og styðst við meðmæli ekki aðeins beitunefndar, heldur líka annarra þeirra aðila, sem leitað hefur verið umsagnar um málið hjá. Og þær umsagnir fylgja hér með sem fskj. Það er sammála álit þeirra allra, að rétt sé og nauðsynlegt að setja heimildina. Og ég held að Alþ. ætti, þó að mjög sé áliðið tímans, að gera tilraun til að afgr. málið á þann hátt og koma þannig í veg fyrir þá hættu, sem annars kynni að hljótast af fyrir þennan aðalatvinnuveg landsmanna á þessu og næsta ári.