18.12.1947
Efri deild: 40. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Stjórn sú, sem nú situr, tók við í febrúarmánuði s.l. Svo sem stefnuyfirlýsing hennar ber með sér, var meðal höfuðverkefna hennar að vinna að stöðvun dýrtíðarinnar og minnka verðbólguna, gera ráðstafanir til þess að tryggja afkomu framleiðslunnar og koma nýrri skipan á fjárhagsmál þjóðarinnar.

Um þessar mundir var þannig ástatt, að nýbúið var að taka ábyrgð á 30% hækkun á verði sjávarafurða vegna aukins framleiðslukostnaðar og vegna þess, að framleiðslukostnaðurinn var kominn fram úr því, sem væntanlegt markaðsverð gat með nokkru móti borið. Ríkissjóður var sokkinn í milljónatuga skuldir og þjóðbankinn búinn að festa mikið af fjármagni sínu í lausaskuldum ríkisins og ríkisstofnana. Til framkvæmda hafði verið stofnað af fullkomnu handahófi, og fjölda þeirra lá við stöðvun vegna skorts á vinnuafli, efni og fjármagni. Búið var að ráðstafa allri gjaldeyriseign þjóðarinnar og veifa leyfi í stórum stíl út á væntanlega framleiðslu. Vísitalan var orðin 316 stig og var á hraðri leið upp á við og samt óframkomin í henni áhrif af ýmsu því, sem búið var að gera.

Fyrsta skrefið, sem stigið var í viðreisnarátt, var stofnun fjárhagsráðs, sem þó ekki komst á laggirnar fyrr en komið var fram á sumar. Tók ráðið sér fyrir hendur að gera upp, hvernig komið var, og þjóðin fékk mjög gott yfirlit um ástandið. Því næst sneri ráðið sér að því að koma á fjárfestingareftirliti — ekki til þess að stöðva framkvæmdir, heldur til þess að koma í veg fyrir, að flestar þeirra framkvæmda, sem menn höfðu með höndum, stöðvuðust sakir efnisskorts, og koma því til vegar, að þær framkvæmdir, sem nauðsynlegastar væru, sætu fyrir. Þá tók ráðið upp alveg nýja stefnu í meðferð gjaldeyris — skar niður innflutning á öllu því, sem með nokkru móti varð komizt af án, og það til þess að reyna að tryggja, að þjóðin gæti fengið matvæli og brýnustu nauðsynjar vegna framleiðslunnar og áriðandi framkvæmda. Loks var komið á skömmtun nauðsynjavarnings til þess að stuðla að sem jafnastri dreifingu þeirra nauðsynja, sem til voru og til landsins flytjast á næstunni.

Ekki er því að neita, að þessar ráðstafanir hafa bakað mörgum mönnum ýmiss konar fyrirhöfn, og sumum finnst vafalaust, að þetta hafi snert sig þannig, að það sé ekki til fyrirmyndar. En mönnum ber að hafa það vandlega hugfast, að til þessara ráðstafana varð að gripa, eins og komið var, til þess að forðast algert öngþveiti og til þess að koma í veg fyrir stórfellt misrétti. Ýmiss konar mistök hafa að sjálfsögðu orðið, eins og ævinlega á sér stað, þegar til mikilla afskipta kemur með þessu móti, og er sífellt verið að læra af reynslunni og færa til betri vegar, enda vafalaust margt, sem stendur til bóta í því efni.

En hvað sem ýmsu þess háttar líður, þá er víst, að mikið björgunarstarf hefur verið unnið í gjaldeyris- og fjárfestingarmálum, og vona menn, að þess verði nú langt að bíða, að önnur eins ósköp hendi þjóðina í þeim efnum og menn hafa nú síðustu árin orðið að horfa upp á.

Næsta skrefið í dýrtíðar- og fjárhagsmálum varð að vera það að gera beinar ráðstafanir gegn verðbólgunni og til þess að efla útflutningsframleiðsluna. Ýtarlegar rannsóknir hafa leitt það í ljós um afkomu bátaútvegsins, að útilokað er með öllu, að hann geti borið sig að óbreyttum framleiðslukostnaði, miðað við söluhorfur afurðanna. Kom þá að því að ákveða, hvað gera skyldi. Kom þá að sjálfsögðu fyrst til athugunar, hvort hægt væri og framkvæmanlegt að lækka framleiðslukostnaðinn, þannig að ekki þyrfti frekari ráðstafanir að gera, og hægt væri að fella niður ríkisábyrgð á afurðum bátaútvegsins og útflutningsuppbætur til hans.

Sú athugun leiddi í ljós, að niðurfærslan hefði orðið að vera svo mikil, ef unnt hefði átt að vera að ná endunum saman fyrir bátaútveginn og fella niður útflutningsuppbætur á fiskverðið, að ekki var tiltækilegt að framkvæma slíkt, enda þá orðin miklu meiri niðurfærsla en nauðsynleg var vegna afkomu ýmissa annarra greina útflutningsframleiðslunnar. Jafnframt var það augljóst, að ekki var tiltækilegt að fara þá leið að hækka ábyrgðarverðið og láta undir höfuð leggjast ráðstafanir til stöðvunar eða lækkunar verðbólgunnar.

Úrslit langvarandi samninga um þessi mál urðu þau, sem frv. þetta sýnir, að farinn er meðalvegurinn, vísitalan lækkuð í 300 stig og fest þar, haldið áfram niðurgreiðslum dýrtíðarinnar, svo sem verið hefur, ábyrgð tekin á 65 aura fiskverði og verðlagsnefndarverði fyrir útflutt kjöt til samræmis.

Þá þurfti einnig að sjá fyrir tekjum til þess að standast væntanlegar greiðslur vegna útflutningsábyrgðanna. Til þess á að innheimta sérstakan söluskatt, sem verkar eins og aðflutningsgjald, þar sem honum er bætt við verð vörunnar, og er því annars eðlis en veituskatturinn, sem áður var á lagður, og kem ég að því síðar. Jafnframt eru lögboðnar ráðstafanir til þess að breyta verði á afurðum í samræmi við þetta og að endurskoðun fari fram á öllu verðlagi og allri verðlagningu með það fyrir augum, að allir, sem reka fyrirtæki eða rekstrartekjur hafa, leggi sinn skerf fram til þess að vinna gegn verðbólgunni. Þá á að lækka húsaleigu um allt að 10%, ef samið er um leiguna eftir 31. des. 1941, gera sérstakar ráðstafanir til þess að lækka verð á beitu til sjávarútvegsins, og samtök útvegsmanna lögskipaðir aðilar við verðlagningu veiðarfæra og viðgerða á bátum og vélum.

Þá er þeim, sem hafa safnað gróða á styrjaldarárunum, ætlað að greiða sérstakan eignaraukaskatt, sem nemur frá 5–30% á eignarauka yfir 100 þúsund kr. Þetta er þeirra sérstaka framlag umfram það, sem önnur ákvæði frv. ætla þeim og öðrum að leggja að sér í sambandi við viðureignina við verðbólguna.

Helmingur eignaraukaskattsins á að renna í framkvæmdasjóð ríkisins, en hinn helmingurinn á að verða stofnfé hlutatryggingarsjóðs bátaútvegsins, enda verði sett sérstök löggjöf um hann.

Þá er í frv. sérákvæði um eignaraukaskatt samvinnufélaga og eignaraukaskatt útgerðarmanna og útvegsmanna. Í fyrsta lagi eru varasjóðir samvinnufélaga undanþegnir skattinum og vara- og nýbyggingarsjóðir útgerðarinnar sömuleiðis. Í öðru lagi er sérstakur skattstigi fyrir þessa aðila og ekki farið hærra þar en í 10% af eignaraukanum.

Þá er í frv. ákvæði um, að reikna skuli út nýja vísitölu, miðaða við útflutningsverðmæti. Að dómi okkar framsóknarmanna er þetta mjög þýðingarmikið. Það er sannfæring okkar, að launaskipulag það, sem nú er, sé mjög óheppilegt og hljóti ásamt ýmsu öðru, sem ábótavant er, að leiða til stórvandræða á fárra ára fresti, fyrst og fremst af því, að ekkert samband er milli launagreiðslna annars vegar og verðmætis framleiðslunnar hins vegar og því engin trygging fyrir því, að greiðslur fyrir unnin störf séu í samræmi við það, sem störfin gefa af sér. Fyrsta skrefið í rétta átt er að láta semja grundvöll að vísitölu og byggja hann á verðmæti framleiðslunnar. Síðan hefst baráttan fyrir því, að sú vísitala verði tekin til greina við skiptingu þjóðarteknanna og ákvörðun launa. Þetta ákvæði snertir framtíðina, og hið sama er að segja um stofnun hlutatryggingasjóðsins. Hvort tveggja gengur í rétta stefnu og gefur vonir um, að menn vilji leita nýrra leiða og heppilegri en áður.

Þetta frv. hefur inni að halda þau úrræði, sem stjórnmálaflokkarnir þrír gátu komið sér saman um. Af því leiðir það, að stjórnmálaflokkarnir geta sagt hver um sig, að hefðu þeir einir ráðið, mundu þeir hafa lagt fram aðrar tillögur. En rétt er, að þess sé getið hér í aðaldráttum í umræðunum, hvað Framsfl. lagði til í samningunum.

Flokkurinn lagði til, að lengra yrði gengið í niðurfærslu vísitölunnar og verðlagi innlendra afurða og að grunnkaupið og landbúnaðarverðið yrði fest með lögum um sinn. Ráðstafanir væru gerðar til þess að knýja fram tilsvarandi lækkanir á öllum innlendum kostnaðarliðum, húsaleiga lækkuð og ýmsar ráðstafanir gerðar til þess að lækka framleiðslukostnað útgerðarinnar, mjög í sömu stefnu og nú er í frv. þessu. Breytt væri stefnu í verzlunarmálum, neytendum fengin aukin tök á verzluninni og aukin samkeppnin með því, að neytendur gætu ráðið því, hvar þeir hefðu viðskipti sín, og veiting innflutningsleyfa færi eftir því, en ekki kvótakerfinu. Með þessum ráðstöfunum ætti að auka kaupmátt peninganna. Eignaraukaskattur yrði á lagður, hærri en frv. gerir ráð fyrir.

Flokkurinn taldi, að ekki yrði svo langt gengið eftir verðhjöðnunarleiðinni, eins og ástatt er, að endarnir næðust saman um tilkostnað og afurðaverð allra útflutningsgreina, og lagði því til, að nokkur gjaldeyrisskattur eða aðflutningsgjald yrði á lagt og sett í sjóð og honum varið til uppbóta á verð þeirra útflutningsvara, sem ekki seldust fyrir framleiðslukostnaði.

Þá taldi flokkurinn óhjákvæmilegt, að niðurborgun vísitölu héldi áfram, þar sem sú hækkun verðlags, sem leiða hlyti af því, að þeim greiðslum væri hætt, varð að teljast óbærileg. ef kaup og afurðaverð var bundið.

Þá var lagt til, að lögboðið yrði að semja nýjan vísitölugrundvöll.

Þetta hygg ég, að gefi sanna heildarmynd af því, sem Framsfl. lagði til málanna, og fór það sumpart saman við það, sem aðrir lögðu til, og sumpart ekki, og sé ég ekki ástæðu til þess að rekja það, þar sem ætlunin með þessari skýrslu er einvörðungu sú að gefa mönnum hugmynd um afstöðu flokksins í málum þessum.

Af þessu sést, að ekki er allt það í þessu frv., sem Framsfl. lagði til, og þarf það ekki að koma neinum á óvart, þegar það er haft í huga, að samkomulagi þriggja flokka varð að ná um frv.

Þótt þessu sé nú þannig farið, vildum við eiga þátt í því að fara þær leiðir, sem frv. gerir ráð fyrir, vegna þess að við teljum, að með þessu frv. sé stigið þýðingarmikið spor til þess að koma í veg fyrir atvinnustöðvun og fjárhagsöngþveiti, þótt árangurinn fari að sjálfsögðu mjög eftir því, hvernig fer um framkvæmd laganna, en hún er aftur á móti mjög komin undir því, hvern skilning menn hafa á þessum málum.

Framsfl. mun halda áfram starfi sínu að framgangi þeirra mála, sem hann telur óleyst bíða, en eru aðkallandi, og má þar á meðal nefna t.d. verzlunarmálin, ráðstafanir til þess að koma á ítrasta sparnaði í rekstri ríkisins, ráðstafanir til lánsfjáröflunar innanlands vegna stofnlánadeilda landbúnaðarins og sjávarútvegsins og setningu nýrra jarðræktarlaga.

Framsfl. hefur jafnan barizt fyrir stöðvun verðbólgunnar og varað við afleiðingum hennar. Flokkurinn hefur hvað eftir annað beitt sér fyrir lagasetningu til stöðvunar verðbólgunni. Ýmist hafa þær tillögur verið felldar eða þau samtök rofin, sem um framkvæmd slíkrar löggjafar hafa verið gerð.

Framsfl. var í stjórnarandstöðu síðustu árin og fram yfir síðustu áramót. Það var vegna þess, að hann taldi eyðslustefnu fyrrv. ríkisstj. hljóta að leiða til vaxandi verðbólgu. Framsfl. tók þá að sér hlutverk, sem ekki er vinsælt, að berjast á móti eyðslu og ofþenslu, þegar menn höfðu nóga peninga og voru af öðrum beðnir að trúa því, að fjármagn þjóðarinnar væri óþrjótandi. Það sýndi sig, að mörgum var ljúft að trúa því, sem þeim var sagt um þetta, — en engin áhrif hafði það á óumflýjanlega viðburðanna rás.

Því hefur verið haldið fram, að Framsfl. hafi háð baráttu sína gegn verðbólgunni vegna þröngsýni og vegna þess, að hann hafi ekki unnað mönnum kjarabóta, hækkaðra launa og hækkaðs afurðaverðs. Þetta hefur aldrei verið annað en fjarstæða. Framsfl. hefur háð þessa baráttu fyrst og fremst vegna þess, að hann hefur óttazt afleiðingar verðbólgunnar, óttazt það, að erfiðara yrði að komast upp úr verðbólgufeninu en að láta sig síga ofan í það undan brekkunni.

Allir þeir, sem nú horfast í augu við afleiðingar verðbólgunnar, eins og þær birtast í rekstri sjávarútvegsins og raunar öllum atvinnurekstri landsmanna og gagnvart launastéttunum, — allir þeir hljóta að viðurkenna, að þessi ótti var ekki ástæðulaus. Ýmsir hafa hins vegar talað gáleysislega um þessa hluti og látið í ljós, að enginn þyrfti að hafa áhyggjur af því, þótt verðbólgan yxi. Það væri hægt að leiðrétta, þegar á þyrfti að halda.

Ef framsóknarmenn hefðu verið þessarar skoðunar, þá hefðu þeir ekki tekið á sig óvinsældir með því að vinna sífellt gegn hækkun verðbólgunnar. Þeir, sem hafa óttazt verðbólguna, hafa haft verðbólguna á heilanum, eins og stundum hefur verið sagt hér á Alþingi — þeir eru ekki steini lostnir nú, þótt það sýni sig, að það er ekkert áhlaupaverk að taka til á þjóðarheimilinu, eftir að verðbólgudraugurinn hefur leikið þar listir sínar og stundum setið þar að svalli með sjálfum húsbændunum.

Höfuðatriðið er að binda drauginn og byrja síðan að taka til, forðast allt, sem gengur í öfuga átt, og fylgja öllu því, sem gengur í rétta stefnu. Þetta verður langt og erfitt starf, og veltur vafalaust á ýmsu. Má búast við sigri, ef almenningur í landinu vill skilja, hvað í húfi er, og eitthvað á sig leggja til þess að tryggja velmegun og öryggi, en ósigri og niðurlægingu þjóðarinnar, ef enginn vill neitt á sig leggja eða þegnskap sýna.

Stjórnarandstaðan, kommúnistar, hamast gegn frv. þessu, eins og raunar ævinlega gegn öllum tilraunum til þess að stöðva eða lækka verðbólguna. Þeir hafa nú lagt hér fram frv. um dýrtíðarráðstafanir, sem að réttu lagi ætti að heita frumvarp til laga um, að verðbólgan skuli halda áfram að vaxa. Þeirra aðaláhugamál er að halda við vísitölukerfinu, sem er ein meginorsök þess, hvernig komið er, taka ábyrgð á óbreyttu fiskverði án þess að afla nokkurra tekna til að standa undir fjárútlátum þeim, sem það hefur í för með sér. Meginstefna þeirra er sem fyrr að láta verðbólguna vaxa, láta ríkissjóð ábyrgjast afurðaverðið, án þess að nokkuð sé á bak við, auka skuldasúpu ríkissjóðs hjá þjóðbankanum, skapa þannig peningakreppu og algert fjárhagsþrot.

Afstaða kommúnista er þessi, nánar tiltekið: Halda við skrúfugangi vísitölukerfisins og tryggja vöxt verðbólgunnar. Ríkissjóður ábyrgist fiskinn, en útvegsmenn og sjómenn búa við síversnandi afkomu samt vegna síaukinnar dýrtíðar. Ríkissjóður sé sviptur 20–30 milljón króna tekjum, sem hann hefur á þessu ári (framl. tollanna), 25 millj. séu gefnar eftir til þess að lækka vísitöluna til bráðabirgða um 17 stig í mesta lagi, og enginn söluskattur á lagður, til þess að standa undir dýrtíðarráðstöfunum. Landsbankinn á svo að bæta nokkrum milljónatugum við lausaskuldir ríkissjóðs og ríkisstofnana, sem nú nema mörgum milljónatugum fyrir og eru ein orsök lánsfjárskortsins, sem er eitt versta bölið nú þegar.

Þegar þessar ráðstafanir hafa svo stefnt öllu í þrot, fest fjármuni þjóðbankans í lausaskuldum til þess að bera framleiðsluhallann og þar með stofnað til enn stórfelldari lánsfjárskorts en við ennþá þekkjum og þar með stöðvun framkvæmda og atvinnuleysi, þá koma kommúnistar enn sem fyrr og segja: Engar ráðstafanir þarf að gera — öll vandræðin stafa af því, að landsbankaafturhaldið vill ekki lána fjármuni bankans.

Öll afstaða kommúnista í þessum málum byggist á blygðunarlausri ósvifni, og lævísin er takmarkalaus. Það á að leiða yfir menn kreppuna og atvinnuleysið undir því yfirskini, að barizt sé fyrir kjarabótum og vaxandi velmegun. En öll er baráttan háð til þess að gera þjóðfélagið óstarfhæft, koma í fullkomið öngþveiti, sem magnar óánægju, sundrung og óvild — og allt þetta á þjóðin að þola vegna þess, að nokkrum dugmiklum ofstækismönnum finnst sinn heiður því meiri, sem þjóðinni vegnar verr í landinu, því að það verður að sýna sig í reyndinni, hvað sem það kostar, að ekki geti vel farið, á meðan ekki er búið að taka upp ráðstjórnarfyrirkomulag, þar sem einn flokkur er leyfður, stjórnin ræður öllu rituðu máli og getur vikið kjörnum fulltrúum frá og selt aðra í staðinn o.s.frv.

Ef almenningur í landinu gerir sér ekki ljóst, hvað þessir ofstækismenn eru að fara, þá munu menn gjalda skammsýni sinnar og hljóta þungar búsifjar.

Einn gleggsti vottur um óheilindi kommúnista er gambur þeirra um milljónamæringana og skatta á hina ríku. Því er haldið uppi til þess að blekkja til fylgis menn, sem vilja breytingar og aukið þjóðfélagsréttlæti, en ekki eru hrifnir af Moskva-stefnunni og þjónustunni við hana.

Þótt leitað sé með logandi ljósi um dýrtíðarfrv. kommúnista, sést þar hvergi neitt ákvæði um skatt á þá ríku. En ef leitað er í grg., þá finnst þar aftast ofurlítil klausa um það, að fjáröflunartillögur verði lagðar fram, þegar séð sé fram á að frv. þeirra verði samþykkt. Þeir vissu, að það var ekki mikil hætta að gefa þetta fyrirheit, þar sem frv. þeirra gat ekki orðið tekið alvarlega.

En hvers vegna ekki að leggja fram tillögur um skatt á þá ríku, svo að menn gætu séð, hvernig á að fara að því að skattleggja þá? Kannske hefur þótt praktískara að orða þetta nokkuð almennt heldur en að bókfesta það of nákvæmlega — gæti komið sér illa, að það væri of nákvæmt til samanburðar, næst þegar þeir þyrftu að taka saman höndum við þá ríku um ráðstafanir til þess að færa mér lokamarkinu, sem er svo óendanlega miklu þýðingarmeira en slíkir skattar, að þeirra dómi?

Við þekkjum líka dæmi þess, hvernig kommúnistar skattleggja milljónamæringana. Aðalúrræði þeirra til þess að leggja á þá ríku, meðan þeir voru við völd, var veltuskatturinn, sem hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, sagði í umræðunum um þetta frv. í neðri deild, að hefði verið skattur á auðmennina. Hvernig var skattur sá í lagður? Þar hann miðaður við eignir, þannig, að þeir ríku greiddu mest? Var hann miðaður við gróða, þannig að þeir, sem græddu mest, greiddu mest? Nei, hann var miðaður við veltu einvörðungu og mátti ekki taka hann til greina í söluverði vara eða þjónustu. Þessi skattur á auðmennina var því þannig, að eftir því sem menn höfðu meiri vörusölu eða seldu meiri þjónustu, því meiri skatt guldu menn og fyrirtæki, jafnt milljónamæringurinn og hinn, sem ekki átti fyrir skuldum. Og jafnt greiddi sá, sem græddi stórfé, og hinn, sem ekkert græddi eða jafnvel beinlínis tapaði. Sá skattur var refsing á þá menn og þau fyrirtæki, sem seldu mikið eða framleiddu mikið og lögðu lítið á. — Auk þess var veltuskatturinn slíkrar náttúru, að menn áttu að greiða tekjuskatt og útsvar af þeim peningum sem hagnaði, sem þeir höfðu varið til þess að gjalda veltuskattinn. Á samvinnufélögin, verzlunarsamtök almennings, verkaði skatturinn þannig, að þau urðu fyrst að greiða veltuskattinn sjálfan fyrir sína félagsmenn og viðskiptamenn eins og hvert annað aðflutningsgjald eða toll og síðan tekjuskatt og útsvör af veltuskattinum — alveg hliðstætt því, að tollagreiðslur samvinnufélaganna væru taldar gróði þeirra og þeim yrði gert að borga skatta af tollgreiðslunum. Þannig var „auðmannaskattur“ kommúnista. Söluskatturinn í þessu frv. á ekkert skylt við veltuskattinn. Honum er bætt við söluverð vara og þjónustu eins og aðflutningsgjaldi, og hann er ekki metinn til gróða við álagningu beinna skatta og útsvara.

Kommúnistar segja, að í þessu frv. felist árásir alþýðu manna í landinu. Það er nú að vísu táknrænt um réttlætistilfinninguna, að þeir nefna aldrei bændastéttina í því sambandi, nema til þess að krefjast sérálaga á hana, og er þó bændastéttinni ætlað að sitja við sama borð og öðrum. En sleppum því að sinni og athugum annað.

Hvernig hefur vísitölufyrirkomulagið reynzt alþýðu landsins? Það ættu flestir að geta verið sammála um það nú, að í því fyrirkomulagi felist engin trygging fyrir bættum lífskjörum, og verkað hefur það þannig á sjávarútveginn sérstaklega, að það hefur holgrafið undan afkomu hans og undan afkomu fiskimannastéttarinnar. Aldrei hafa hlutarsjómenn haft tekjur eftir mánaðarlegri vísitölu. Er það árás á aðra, þótt þeirra hlutur sé gerður óbreytanlegur um sinn, á sama hátt og hlutarsjómennirnir verða að búa við fast fiskverð? — Og hvað segir reynsla annarra þjóða um þetta efni? Hvernig hafa þær farið að? Ætli það sé af fjandskap við launastéttirnar, sem allt öðruvísi er haldið á þessum málum í öðrum löndum, þar sem menn geta stjórnað sér? Mér er ekki kunnugt um, að nokkurs staðar hafi verið farið inn á þá braut nema hér að lögleiða þennan skrúfugang kaupgjalds og verðlags. Hitt er vitað, að í fjölmörgum löndum hafa kommúnistar nú eftir stríðið reynt að koma þessari svikamyllu af stað, og hefur það sízt orðið þeim til álits eða fylgisauka í þeim löndum. Er mönnum kunnugt um hrakfarir þeirra.

Kommúnistar halda því fram, að ástæðulaust sé, að menn leggi nokkuð að sér. Auðséð ætti að vera, hvað þeir eru að fara, og hef ég áður undirstrikað það. En rétt er að draga það fram hér, að hagfróður maður frá Sósfl. komst að þeirri niðurstöðu strax í fyrravetur í félagi við aðra menn, sem fengnir voru til að rannsaka fjármálaástandið í landinu og afkomu atvinnuveganna, að málum væri svo komið, að þjóðin yrði öll að taka á sig nokkrar byrðar til bráðabirgða til þess að losa sig við verðbólguskrúfuna og tryggja áframhaldandi rekstur framleiðslunnar.

Kommúnistar munu nú reyna að nota sínar gömlu og þekktu aðferðir til þess að koma í veg fyrir, að löggjöf þessi nái tilgangi sínum. Þeir munu syngja tvísöng eins og fyrri daginn. Við launamenn munu þeir segja, að þeirra hlutur sé herfilega fyrir borð borinn, og við framleiðendur til sjávarins munu þeir segja, að öll vandræði þeirra séu því að kenna, að stjórnin vilji ekki, að fallið sé frá vaxtaheimtu og skuldheimtu, vátryggingariðgjöldin lækkuð o.s.frv. Síðan munu þeir bæta við, að allt megi þetta gera á kostnað bankanna og allar afurðirnar megi selja í clearing-samningum með ofurverði, og ekki mun það á þeim sjást, að þeir vita sjálfir, að þetta er ekki hægt.

Af öllu þessu moldvörpustarfi kommúnista lýsir framkoma þeirra í garð sjávarútvegsins einna mestri flærð. Þeir hafa átt drýgstan þátt í því að reka áfram verðbólguna. Hún skellur fyrst og fremst á sjávarútveginum og hefur komið því til leiðar, að bátaútvegurinn og fyrirtæki hans eru skuldum vafin í lok uppgangstíma, sem áttu að vera. Meðan þessu hefur farið fram, hefur ekki linnt fleðulátum kommúnista við útvegs- og fiskimenn. Á fundum þeirra og þingum risa upp hinir kommúnistísku útsendarar, lýsa því, hvernig komið sé fyrir útveginum, en reyna jafnframt að draga athyglina frá undirrót erfiðleikanna, en benda á úrræðin: meiri ábyrgðir, meiri lán, meiri skuldir. En þegar svo kemur þar í sveit, sem ráðgazt er um, hvað gera þurfi, til þess að útvegurinn geti borið sig án aðstoðar, þá er það helzta hlutverk sömu persóna að tæta sundur þau gögn, sem útvegsmenn bera fram máli sínu til stuðnings og til þess að sýna fram á, að veruleg átök þurfi að gera í dýrtíðarmálunum, til þess að útvegurinn geti staðizt og veitt hlutarsjómönnum lífvænlega afkomu. Það væri nú mál til þess komið, að kommúnistar hlytu makleg málagjöld fyrir framkomu sína í garð sjávarútvegsins.

Menn þekkja nú orðið nokkuð til hlítar vinnuaðferðir kommúnista og hvert þeir eru að fara. Það, sem er að gerast í öðrum löndum nærri okkur, greiðir einnig fyrir því að útbreiða réttan skilning í þessum efnum, og ekki er nýja línan frá Moskvu meira aðlaðandi en þær forskriftir, sem áður hafa verið gefnar þaðan.

Að endingu aðeins þetta um frv. Enginn heldar því fram, að það leysi allan vanda, en það gengur í rétta átt.

Nú munu undirtektir verða mismunandi. Sumir munu segja: Það eru of miklar byrðar á lagðar — það er árás að ófyrirsynju, Gegn þessu ber að rísa. Það er hlutverk kommúnistanna að halda þessu fram, það er þeirra hlutverk að tryggja hrunið, draga lokur frá hurðum og grafa sundur innan frá, svo sem dæmi sanna frá öðrum löndum. Ef menn hlíta þeirri forustu, þá er ekki vandséð, hvernig fara muni.

Aðrir munu segja: Þetta er þýðingarlaust kák, allt of skammt gengið, og tekur því ekki að leggja neitt á sig í baráttu fyrir þessu. Þetta er hættulegur hugsunarháttur, og ef margir hugsa svona og breyta í samræmi við það, þá reynist kommúnistum ekki erfitt að tryggja áframhaldandi vöxt verðbólgunnar.

Allir þeir, sem sjá, hvert stefnir, og vilja vinna í viðreisnarátt, þurfa að sameinast um framkvæmd þessara laga og þá stefnu, sem þau marka, og það jafnt fyrir því, þótt þeir kysu, að ýmsu væri öðruvísi fyrir komið. Beri menn gæfu til þess, þá má halda áfram að byggja upp á grundvelli þeirra og vinna að því að bæta úr agnúum þeirra og að framgangi ráðstafana, sem mönnum þykir vanta nú. En standi menn svo sundraðir um þessa tilraun, að til tjóns verði í framkvæmdinni, þá verður ekki auðvelt verk að bæta það tjón.

Við skulum vona, að þjóðin beri gæfu til þess að sjá við vélráðum kommúnista og standi fast saman að þeirri tilraun til viðreisnar, sem ríkisstj. beitir sér fyrir.