17.11.1947
Neðri deild: 19. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í C-deild Alþingistíðinda. (2394)

68. mál, öryggi verkamanna við vinnu

Flm. (Hermann Guðmundsson) :

Herra forseti. Á síðasta þingi flutti ég frv. shlj. þessu og var því þá vísað til allshn. Allshn. leitaði umsagnar Alþýðusambands Íslands og verksmiðjuskoðunarstjóra um frv. Alþýðusambandið lagði til að frv. yrði samþ. óbreytt, en verksmiðjuskoðunarstjórinn hafði ýmislegt við frv. að athuga, en taldi þó mörg ákvæði þess til stórbóta fyrir aðbúnað og öryggi verkamanna. Í þinglok skilaði allshn. áliti sínu og lagði til, að málið yrði afgr. með rökst. dagskrá í trausti þess, að ríkisstjórnin léti semja reglur um öryggi verkamanna við vinnu í sambandi við væntanlega endurskoðun á eftirliti með verksmiðjum og vélum, í samráði við verkalýðssamtökin og vinnuveitendasamtökin. Ég gat sætt mig við þessa afgreiðslu, en vegna þess, hve áliðið var, fékkst dagskrártill. ekki lögð fyrir þingið. Þess vegna legg ég nú frv. fram á ný. Hér er um velferðarmál verkalýðshreyfingarinnar að ræða. Öryggisleysið er meira í þessum málum en forsvaranlegt er, meira en á Norðurlöndum og í öðrum sambærilegum löndum. Alvarlegast er það, hve mikill mismunur er á öryggi eftir því, hvar verkamenn vinna. Þar sem verkalýðsfélögin eru sterk, hafa þau knúið fram reglur, sem ekki eru í gildi annars staðar. Það er með hliðsjón af þessu, sem frv. er borið fram. Þingið hefur áður fjallað um þetta mál, en það hefur bara komizt í n. og umsagnar verið leitað um það, en ekkert verið aðhafzt. Frv. er ekki eins fullkomið og æskilegt væri, en það er vísir í rétta átt og stefnir til stórbóta frá því, sem nú er. Það væri ef til vill eðlilegast, að hæstv. Alþ. kysi n. til þess að rannsaka málið og leita sér upplýsinga um löggjöf nágrannaþjóðanna í þessum efnum. Það mundi vera bót í máli, ef þeirri rannsókn yrði hraðað, en vegna fyrri samþykkta og aðgerðaleysis í sambandi við þær er ég ekki eins bjartsýnn á þá leið. Ég tel bezt, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem á því kunna að verða gerðar til bóta. Ef hæstv. Alþ. hefur aðra skoðun í því efni, mun ég þó að sjálfsögðu beygja mig undir það. Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Frv. fylgir ýtarleg grg., og er flest tekið þar fram, sem máli skiptir. Ég vildi óska þess, að frv. verði vísað til allshn.umr. lokinni.