24.11.1947
Neðri deild: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (2456)

92. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ummælum hv. þm. Borgf. vegna afstöðu Reykjavíkurbæjar. Ég vil taka það skýrt fram, að það er ekki meiningin að stofna aðeins til rannsókna og svo einskis meir. En Reykjavíkurbæ þótti ekki óviðeigandi að rannsaka málið, áður en framkvæmdir væru hafnar, þannig að fleiri aðilar kæmu til með að athuga stað fyrir verksmiðjuna. Bæjarstjórn Reykjavíkur taldi rétt að leita hófanna um, að fleiri aðilar en einn kæmu til með að reisa þessa verksmiðju. bæði einstaklingar og félög og vinna þar með tvennt, bæði skjótari framgang málsins og það, að þá er dreift áhættunni, sem er því samfara að reisa hér verksmiðju með ekki lengri né meiri reynslu að baki um síldargöngur hér í Faxaflóa. Það er ekki ákveðið af hálfu Reykjavíkurbæjar, hve mikinn þátt bærinn skuli taka í byggingu síldarverksmiðju hér syðra, en hugmyndin er að hefja samstarf bæjar og ríkis, einstaklinga og félaga um að koma í kring framkvæmdum, sem miði að því, að við verðum sem bezt búnir til að hagnýta okkur Faxaflóasíldina fyrir haustið 1948.