25.11.1947
Neðri deild: 24. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (2463)

93. mál, útrýming villiminka

Jónas Jónsson:

Ég vil ekki bæta nema litlu við ræðu hv. flm., því að hann hefur, að ég hygg, rakið öll þau almennu rök, sem styðja mál hans.

Áður en þetta frv. kom fram, hafði ég hugsað mér að bera fram þáltill., sem er nú óþörf, eftir að frv. er fram komið. Till. mín var í þá átt að reyna að draga a. m. k. úr, að minkur yrði alinn á Norðurlandi, þar sem hann hefur ekki enn þá komið, svo að vitað sé, eða sloppið laus. Þar stendur sérstaklega á í einum stað, Mývatnssveit. Kæmist villiminkur þangað, mundi sú sveit gjalda það afhroð, að það væri langt fram yfir það, sem flestar aðrar sveitir gætu orðið fyrir. Þar er mikið hraun og jarðhiti og því góð lífsskilyrði fyrir þetta kvikindi. Þar er mikill silungur og fugl. Fyrst mundi minkurinn eyðileggja allan fugl, sem er við Mývatn, en Mývatn er sérstakur staður að þessu leyti, því að hvergi í Evrópu mun vera jafnmikið af önd og þar. Og þó að ekki sé mjög mikill fjárhagslegur ávinningur af þeim fugli, þá er hann þó til sérstakrar prýði fyrir þessa fögru sveit. Ég skal ekki fullyrða, hvort hann mundi eyðileggja silunginn, en áreiðanlega gera mikinn usla í honum, og hann hefur beina atvinnulega þýðingu fyrir sveitina. Mér er kunnugt, að við vötn og ár hefur það farið svo, að villifuglalíf hefur svo að kalla horfið og silungur mjög orðið að víkja fyrir minkinum. Ég tek þetta fram, að hann mundi eyðileggja mikið af þeim fugli, sem við Mývatn er, sem er svo mikil prýði fyrir sveitina og hefur mikla þýðingu nálega frá listrænu sjónarmiði, þó að hann sé ekki stórt atriði í búskapnum.

Mér er kunnugt, að á Norðurlandi hefur minkaræktin stöðugt dregizt saman á síðari árum, og ég hygg, að það, sem mjög hefur hjálpað til, að minkurinn hefur ekki gert þar eins mikinn skaða og á Suðurlandi, sé bæði það, að hann hafi síður sloppið, og sérstaklega vegna þess, að hann hafi drepizt vegna vetrarhörku. Til Mývatnssveitar mun hafa komizt einn villiminkur, en af því að hann var aðeins einn, var ekki um fjölgun að ræða, og hann náðist og var drepinn.

Nái frv. fram að ganga, þá verður fyrsta stigið, eins og hv. frsm. gat um, að afnema allt minkaeldi, og þar næst að hefja öflugar aðgerðir til að útrýma þessum vágesti. Sú statistik, sem hv. flm. vitnaði í sýnir, að hér er ekki um mikinn atvinnuveg að ræða, en tjónið er margfalt við það gagn, sem kann að vera af þessari skepnu.