26.02.1948
Neðri deild: 64. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í C-deild Alþingistíðinda. (2475)

93. mál, útrýming villiminka

Jón Pálmason:

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja hér nokkur orð um þetta mál, sem hér er til umr. í þriðja eða fjórða sinn í svipuðu formi.

Ég skal taka það fram, að þegar menn eru að ræða einhver stór vandamál. er það virðingarvert af hverjum þeim, sem vill reyna að fá úrbót í þeim efnum. Það er síður en svo, að ég vilji fara að þræta við hv. flm. um þá skaðsemi, sem af þessum dýrum stafar, því að sannleikurinn er sá, að flest, ef ekki allt, sem þeir hafa um það sagt, er á réttum rökum reist, því að hér er um að ræða landplágu, sem er í uppsiglingu og er þegar komin yfir mörg héruð. En það má segja um þessa hv. þm., eins og oft vill verða bæði hér á hæstv. Alþ. og annars staðar, að þeir hafa vaknað nokkuð seint í þessu máli, því að saga málsins er sú, eins og síðasti ræðumaður vék að, að upptök þessarar plágu eru þau, að á árunum 1929–1930 var samþ. hér á hæstv. Alþ. og beitzt fyrir því af Framsfl. að senda einn þm. þess flokks út, með ríflegum styrk, til þess að kynna sér loðdýrarækt og flytja inn dýr. Það er fyrsti innflutningurinn af þessum minkum hingað til lands. Ég hygg, að það hafi verið á árinu 1930, sem þessi hv. þm. flutti þá inn. Og það þótti þá svo mikils um vert, að hér væri verið að stofna nýjan atvinnurekstur, að aðkomumönnum, sem komu hingað til Rvíkur, var boðið austur að Ölfusá til þess að sjá þessi merkilegu dýr, og það hittist svo á, að það var í fyrsta sinn sem ég kom á þann stað, því að mér var boðið í þessa ferð. Ég var ekki hrifinn af því að sjá þessi kvikindi, sem þá voru þarna í lélegri girðingu inni í hlöðu. Reynslan hefur svo orðið sú, að sú framkvæmd, sem þarna átti sér stað, sem er gerð, eins og síðasti ræðumaður vék að í andstöðu við aðvaranir okkar helzta náttúrufræðings, Guðm. Bárðarsonar, hefur orðið mjög mikið óhappaspor, því að reynslan hefur sýnt, að þessi starfsemi var byggð á fullkominni fáfræði. Ég veit ekki hvort þessir tveir flm. þessa frv. hafa greitt atkv. með þessum ráðstöfunum hér á Alþ. Ég hef ekki getað fundið atkvgr. upp á nöfn um það, hverjir hafa fylgt þessari fjárveitingu, sem svo mikið illt hefur af hlotizt. En það er a. m. k. óhætt að segja, að ekki er hægt að ásaka núverandi form. og form. landbn. um þetta mál, því að hann var ekki kominn á þing þá, enda hefði ég trúað honum betur en mörgum öðrum til að standa þar á móti. En það hefur komið í ljós, að einmitt af þessum minkastofni eru allir þeir villiminkar, sem veiddir hafa verið á undanförnum árum. Ég verð að segja það, að ég hef, eins og síðasti ræðumaður vék að, verið því fylgjandi að undanförnu, að minkaeldi væri bannað og sannleikurinn er sá, að ég teldi það mjög litlu til kostað að banna eldi á minkum, ef ég hefði nokkra trú á því, að með því væri þetta vandamál leyst. En því fer mjög fjarri, að svo sé því að hér er í rauninni byrjað á öfugum enda hvað þetta snertir og að vissu leyti hafa komið fram ný gögn í þessu máli frá því að það var til umr. í fyrra. Það kom í ljós 1943 og 1946. að ekki voru nema örfáir menn í þessari d., sem voru því fylgjandi að banna minkaeldi að fullu, en það hafðist þó upp úr meðferð þessa máls á þinginu í fyrra. 1946. að l. um loðdýrarækt var breytt á þá lund, að hert var á ákvæðunum um varnir í þessu efnt. Og sannleikurinn er sá, að það má segja, að það sé hálfgerður skrælingjaskapur, að ekki skuli vera hægt í okkar landi eins og öðrum löndum að hafa loðdýrarækt án þess að af því stafi sú hætta, að þessi dýr sleppi úr því haldi, sem þau eiga að vera í. Í þeim l., sem sett voru á þingi í fyrra til breyt. á loðdýraræktarl., eru ákvæði til frekari tryggingar því, að ekki verði sleppt dýrum úr búrum, og eitt af því, sem ég tel mikils virði í því efni, er það að hverri hreppsn. er gefið vald til þess að taka leyfi af loðdýraeiganda, ef hann vanrækir nokkuð af þeim reglum og fyrirmælum, sem um þetta eru sett. Að þessu leyti horfir málið öðruvísi við en var í fyrra, því að það vannst þó þarna töluvert mikið á. Í öðru lagi liggja fyrir upplýsingar um það, að á síðasta ári voru veiddir 800 villiminkar, og það er staðhæft af þeim, sem með það hafa haft að gera, bæði loðdýraræktarráðunaut og þeim, sem hafa haft eftirlit með því, að þeir villiminkar séu allir af þeim stofni, sem sá fyrrverandi þm. flutti inn, sem ég gat um áðan, en það sé ekkert af þeim minkastofni, sem nú er ræktaður hér í landi. Það er ekki einu sinni, að það sé svo mikið til af þessum dýrum eins og hv. síðasti ræðumaður telur, því að samkvæmt upplýsingum voru 1947 ekki nema 1600 fullorðin dýr í búrum, en hann hefur kannske talið hvolpana með. Nú er því þess vegna ekki til að dreifa, að um það sé að ræða í þessu sambandi og það, sem er aðalatriðið er það, að gera allt sem unnt er til þess að útrýma villiminkum. Ég vil ekki segja, að ég hafi mikla trú á því að þetta takist, en það bætir ekki mikið úr í því sambandi, þó að drepnir séu þeir minkar, sem í búrum eru, eftir að það er upplýst, að það hefur verið stórkostleg framför í aðhaldi varðandi þessi efni og ekki sannað, að það hafi sloppið neitt af þeim minkategundum, sem nú eru í haldi. Við höfum í þessum efnum mjög greinilegan samanburð í þjóðlífi okkar, því að þótt það sé eldri samanburður, þá er hann alltaf gildandi. Sá samanburður er við hið alþekkta íslenzka dýr, fjallarefinn, sem hefur verið plága fyrir íslenzka bændur og íslenzka sauðfjáreigendur í margar aldir. Þar er svo ástatt, að það eru ekki miklar líkur til þess taldar, að hægt verði að útrýma því dýri, og ég held, að við værum ákaflega lítið nær því marki, útrýmingu á þeirri plágu, þó að drepnir væru allir þeir refir, sem nú eru ræktaðir í búrum hjá loðdýraeigendum hér á landi. Mér finnst þarna um beina hliðstæðu vera að ræða, þar sem er refurinn annars vegar og minkurinn hins vegar. Hvort tveggja eru skaðræðisdýr fyrir annað dýralíf í landinu, fyrir landbúnaðinn er óhætt að segja. En það er það, sem hér er um deilt, hvort það sé aðalatriðið að drepa það af þessum dýrum, sem eru í haldi, en hafa jafnframt litla eða enga von um að geta útrýmt þeim dýrum sem tjóninu valda og villt eru í okkar náttúru. Nú höfum við þær fregnir frá Noregi, sem er hvað líkast okkar landi, að þar sé verið að efla mjög mikið minkarækt með styrk úr ríkissjóði. Ég veit ekkert um það með neinni vissu, hvort farið hefur eins ógæfulega fyrir Norðmönnum og Íslendingum, að svo klaufalega hafi verið að þessum málum farið, að sloppið hafi mjög mikill hluti af þessum dýrum og þau séu orðin plága í landinu, eins og hér er orðið. En ef það er ekki, þá sýnir það, að Norðmenn eru varkárari í þessum efnum en Íslendingar, enda er hér eftirlits vant um marga hluti. Þessi plága, sem hér um ræðir, er karakúlplága nr. 2 og upprunnin á líkan hátt og síðasti ræðumaður vék að. Ég hef fyrir mitt leyti ekki trú á því, að það sé aðalatriðið í þessu máli að útrýma þeim minkum, sem hér eru í búrum. En ef hægt vært að setja þar einhverjar frekari ráðstafanir en gert var með l. í fyrra, þá skal sízt standa á mér, að svo miklu leyti sem ég hef aðstöðu til að standa þar með. En ég sá ekki, eins og nú standa sakir, að það hefði beina þýðingu að fara að kljúfa landbn. út af þessu máli vitandi það, að engin von var um, að frv. næði fram að ganga, en það er miklu meira virði að fá um það lögfest, að hér yrðu gerðar miklu ýtarlegri og öruggari ráðstafanir til þess að útrýma hinum villtu minkum en gert hefur verið hingað til.

Það var vikið að því af flm., að það væri ákaflega óviðfelldið og þýðingarlítið að setja vonir sínar í þessu efni undir vald hreppsnefndanna í landinu. Ég skil ekki þetta hjá flm., vegna þess að einmitt hliðstæðan í þessum efnum, sem er refaveiðarnar, hefur frá því að hreppsnefndir voru stofnaðar heyrt undir þær. Þess vegna er það svo, að það er ekki eðlilegra, að nokkrum öðrum aðila sé falið að annast það, sem æðri stjórnarvöld eiga ekki að sjá um á þessu sviði, heldur en einmitt hreppsnefndunum. Og hluturinn er sá, að hreppsnefndirnar hafa aðgang að öllum innanhéraðsmönnum og hafa þess vegna mjög fyrir augum þá hagsmuni, sem hér er um að ræða, ef eitthvað ber út af varðandi þau villidýr, sem í haldi eru, hvort sem það eru refir eða minkar. Annars er sannleikurinn sá, að fram að þessu hefur ekki orðið svo mikið tjón af völdum loðdýraræktarinnar eins og margir gera ráð fyrir, og nú síðasta ár næsta lítið.

Að öðru leyti en þessu sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Ég skal taka það fram, að ef menn sjá einhver ráð til að herða betur á ákvæðunum um útrýmingu þessarar plágu eða slá á hana meira en gert hefur verið, þá er alveg sjálfsagt, að það verði reynt, að allir fylgist að í því efni. Sem betur fer er þessi minkaplága ekki komin sem neinu nemur um nokkuð af landinu, og frá mínu sjónarmiði er vafasamt, hvort minkar geta lifað norðanlands og austan, ef harðir vetur eru á þeim svæðum landsins, en á því vantar náttúrufræðilega þekkingu, og ég get eðlilega játað mína vankunnáttu í því efni. En það er ekki neitt aðalatriði í málinu, heldur hitt, að með því að útrýma þeim tiltölulega fáu minkum, sem hér eru í haldi, er málið engan veginn leyst, síður en svo. Ég held þess vegna, að við verðum í þetta sinn að láta okkur nægja að samþykkja þær till., sem landbn. ber fram, eða eitthvað svipað og ef menn geta hugsað sér eitthvað harðari ákvæði í því efni, er gott að taka þau upp.