06.11.1947
Efri deild: 15. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í C-deild Alþingistíðinda. (2717)

62. mál, menntaskólar

Flm:

(Hannibal Valdimarsson) : Herra forseti. Umr. um þetta mál hafa að nokkuð verulegu leyti snúizt um Menntaskólann í Rvík, og er kannske ekkert við því að segja. Hæstv. dómsmrh. hefur sérstaklega rætt um það mál og skal ég strax taka það fram að ég er ekki hneykslaður á því, þó að hann fjölyrði um þetta mál, því að bæði er málið mikilsvert fyrir höfuðborgina og þar að auki tilfinningamál, eins og hv. þm. Barð. gat um, og skil ég það mjög vel. Ég hef að vísu aldrei verið nemandi í menntaskólanum í Rvík, en mér finnst samt, að ég skilji þá menn vel, sem halda því fram, að meðan hægt er að hafa menntaskólahúsið á gamla staðnum, eigi þar menntaskóli að vera. Ég er því síður en svo andvígur, ef það er hægt formsins vegna, að inn í l. um menntaskóla kæmi ákvæði um það, að menntaskólinn skuli vera á þeim stað, þar sem hinn almenni menntaskóli hefur frá öndverðu verið. En frv. okkar fjallar ekkert um það, að því er Rvík snertir, svo að það er síður en svo, að við séum nokkuð að ganga fram hjá rétti Rvíkur, eins og hæstv. dómsmrh. orðaði það. Við höfum ekki haggað einum stafkrók í gildandi l. að því er Rvík snertir og menntaskólahald þar. Við höfum aðeins sett töluna 4 í staðinn fyrir, að nú eru aðeins 2 menntaskólar. Greinin er tekin upp í frv. eins og hún er í gildandi l. að því er Rvík snertir. Einasta breyt., sem í frv. okkar felst, er þessi, að til viðbótar við þessa menntaskóla skuli koma menntaskóli á Vesturlandi og annar á Austurlandi.

Annað atriði viðvíkjandi ræðu hæstv. dómsmrh. er þegar hann segir að það sem ég sagði í framsöguræðu minni um að Rvík hefði vaxið svo ört, að hún gæti ekki séð sómasamlega um skólahald í bænum, væri ekki rétt, vil ég segja þetta. Ég talaði engan veginn um þetta sem árásarefni. Ég tók aðeins til dæmis nokkur fjölmennustu hverfin í bænum, sem enga eða mjög litla skóla hafa. Þannig er það t. d. með Laugarnesskólann, að hann er svo fullskipaður, að það verður að þrískipa í sumar stofurnar, eftir upplýsingum, sem ég hef fengið. Vegna þess, hversu nemendur af stóru svæði þurfa að sækja þann skóla, hefur orðið að flytja börnin á bíl, sem kostar 300 kr. á dag. Því verður ekki neitað, að vöxtur Rvíkur er svo mikill, að þrátt fyrir góðan vilja hefur ekki verið hægt að sjá fjölmennum nýjum úthverfum fyrir skólum.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. landsk. þm. (SÁÓ) var að spyrja um. hve margir nemendur væru í menntaskólunum, get ég upplýst þetta. Samkvæmt upplýsingum menntaskólakennaranna Sigurkarls Stefánssonar og Einars Magnússonar eru í Menntaskólanum í Reykjavík á fimmta hundrað nemenda, en húsið rúmar þó ekki meira en 250 til 300 nemendur, í mesta lagi. Auk þess er upplýst að enn fleiri nemendur mundu sækja að skólanum, þ. e. námsfólk utan af landi, sem vegna húsnæðisleysis og næstum óheyrilegs kostnaðar hér í bænum er bægt frá skólanum. Nú, þannig eru þá á fimmta hundrað nemendur í Menntaskólanum í Reykjavík, en auk þess útskrifar svo Verzlunarskóli Íslands nokkra stúdenta. Í Menntaskólanum á Akureyri eru nálægt 300–350 nemendur.

Svo spurði hv. 1. landsk. um það, hvaða menn það væru, sem neitað væri um skólavist, hversu margir þeir væru og hvaðan. Ég hygg, að rektor Menntaskólans í Reykjavík hafi ekki skráð neitt um það og ekki heldur aðrir, en það er vitað, að þeir eru ekki svo fáir. Ég hef sjálfur fyrir skömmu fengið neitun um skólaveru fyrir einn nemanda. Þó tekur skólinn hér í Rvík til sín alla þá nemendur, sem með góðu móti er hægt, og fleiri þó.

Hv. 1. landsk. vildi einnig fá að vita, hve mikill hundraðshluti íslenzku þjóðarinnar stundaði nám í menntaskólum í samanburði við aðrar þjóðir. Ég hygg, að okkar hlutfall sé mjög miklu hærra en hjá milljónaþjóðunum. Í samanburði við þær erum við dvergþjóð á flestum sviðum. Þó er þetta hliðstætt bókaútgáfu hér á landi, sem við munum hafa heimsmet í að tiltölu við fólksfjölda. Þetta er ekkert óeðlilegt. Það er eins og þjóðina hungri eftir meiri menntun, og fróðleiksþráin hefur gripið hana sterkum tökum um leið og hún er að rétta sig úr kútnum, eftir margra alda áþján og menningarlegan skort. — Ég get ekki skilið, að enn skuli örla á þeim ótta hjá mönnum við það, að of margir af þjóðinni stundi nám í stað þess að þeir ættu að beita kröftum sínum við framleiðslustörf þjóðarinnar. Frá því fyrsta, er ég man um þessi efni, hefur þessi ótti alltaf verið til staðar. Það hefur verið sagt, að ekki væri betra að hafa atvinnulausa stúdenta en aðra, og var það ein höfuðröksemd gegn stofnun Menntaskólans á Akureyri á sínum tíma. Þessar hrakspár hafa ekki rætzt. Reynslan hefur sýnt allt annað. Ég skal nú skýra frá því, hvernig mér finnst málið blasa við nú. Í Reykjavík er menntaskóli. Gagnfræðadeild hans starfar nú í seinasta sinn í húsinu, og verður hann þá úr því 4 ára skóli. Hann verður skóli Rvíkur og rúmar um 250 til 300 nemendur, sem stunda þar nám seinustu fjögur árin að stúdentaprófi. Auk þess er svo verzlunarskólinn. Það eru því tveir skólar í Rvík, sem útskrifa stúdenta, og í nágrenni Rvíkur, eða á Laugarvatni, er svo verið að stofna menntaskóla, en á Vestfjörðum er enginn skóli og ekki heldur á Austurlandi. Norðlendingar hafa sinn skóla, sem er Menntaskólinn á Akureyri. Það er því undir sanngirni komið, hvort menn vilja fyrst byggja skóla í Rvík, sem hefur þegar tvo, á undan skólum á Austfjörðum og Vestfjörðum. Ég skal viðurkenna það, að undireins og ég sæi fram á, að Rvík þyrfti á þriðja skólanum að halda, mundi ég telja mér það ósamboðið að berjast gegn því. Eins og hæstv. dómsmrh. tók hér fram áðan, þá mega ekki efnahagsörðugleikar hindra það, að hæfileikamenn eigi kost á því að ganga í menntaskóla og taka stúdentspróf. Þetta er alveg rétt hjá hæstv. dómsmrh., en því miður er reyndin oft sú, að einmitt fjárhagsörðugleikar koma í veg fyrir það, að ágætlega gefið fólk geti stundað nám hér í Rvík, vegna þess hvernig málunum er skipað. Ef nægjanlegt skólarými hefði verið í menntaskólanum á Akureyri og í Rvík, hefði verið erfitt að knýja fram þetta frv. um menntaskóla á Ísafirði og á Eiðum. En nú standa þannig sakir, að það er skortur á skólahúsnæði á Akureyri og í Rvík. Spurningin er því sú, hvort á að byggja skólahús hér í Rvík til viðbótar þeim, sem eru fyrir eða litla menntaskóla í þessum landsfjórðungum, Austurlandi og Vesturlandi sem enga hafa og losna þannig við flutning manna milli landshluta. Ég fullyrði að úr mínum skóla eru nú a. m. k. 20 nemendur í Rvík og álíka margir á Akureyri, þ. e. a. s. frá gagnfræðaskólanum á Ísafirði. Þessu fylgir ærinn kostnaður fyrir aðstandendur, að kosta unga fólkið að austan, norðan og vestan til Rvíkur í fjögur ár, sem það þarf til undirbúnings undir stúdentspróf. — Ég held, að það hafi verið hv. 1. landsk., sem sagði að það væri vegna þess, að fólk flytti til Rvíkur, að það vildi koma ungu fólki til náms. Ég skal viðurkenna, að það er ekki höfuðorsökin, en mörg dæmi eru samt til þess, að menn taki sig upp þegar unglingarnir eru búnir með héraðskólana og ef möguleikar eru á að flytjast brott, og setjist að í Rvík. Í slíkum tilfellum er mikil eftirsjá eftir fólki, sem flyzt þannig burtu. Ég hef í huga mörg slík tilfelli frá Ísafirði og nágrenni.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta miklu meira. Það er þó eitt atriði, sem kom fram í ræðu hv. þm. Barð. Hann var að tala um, hvort ekki mundi vera hægt að auka skólatíma skólanna á Ísafirði og á Eiðum um tvo vetur. Þetta væri að vísu hægt, en skólakerfinu er nú þannig háttað, að menntaskólinn hér og á Akureyri búast við að taka við nemendum eftir miðskólapróf og hafa þeir alltaf rúm fyrir þá nemendur, sem svo fylla bekksagnirnar. Ef svo kæmi stór hópur nemenda í miðju námi frá tveim stöðum á landinu, væri áreiðanlega erfitt að troða þeim inn í fullar bekksagnir, því að nemendur úr bóknámsdeild skólans á Núpi og skólans á Ísafirði mundu samsvara heilum bekksögnum í menntaskólunum. — Hér er aðeins um að ræða, hvort við eigum að veita unga fólkinu sem jafnasta aðstöðu til mennta, og réttasta leiðin til þess er að stofna litla menntaskóla, svo að slíkir skólar yrðu í öllum landsfjórðungum.

Hæstv. forseti hefur farið þess á leit, að menn yrðu stuttorðir, og skal ég ekki skorast undan því. Ég treysti að lokum sanngirni manna í þessu máli. Ég skal fúslega taka allan mögulegan þátt í athugunarstarfi n., sem mun fá þetta mál til að fjalla um.