06.11.1947
Efri deild: 15. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í C-deild Alþingistíðinda. (2720)

62. mál, menntaskólar

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég óskaði þess í fyrri ræðu minni að n. aflaði sér ýmissa upplýsinga, sem gætu legið fyrir okkur hér í d. Ég hef ekki fengið nein svör frá neinum nm., hvort þeir hafa tekið ósk mína til greina, en slíkt er að mínu áliti til fræðslu og leiðbeiningar um það, hvers konar afstöðu menn mynda sér. Það, sem við þurfum að fá upplýst, er það, hve margir óska eftir að komast í menntaskóla, og fá það ákveðið í tölum af þeim, sem um þessi mál fjalla. Flm. dró í efa, hvort hægt væri að segja til um, hvað mörgum væri neitað og að skólastjóri hefði skrá yfir hverjir hafa sótt um og hverjum væri neitað. Ég þekki einn skóla hér, en það er Sjómannaskólinn, þar sem hver maður er skráður, sem biður um pláss, þó að það þurfi að neita honum. Sama hlýtur að vera um menntaskólana. Það er einmitt ef slíkar tölur liggja fyrir, sem sönnun fæst um þörfina fyrir fleiri skóla, og þessar upplýsingar geta orðið til að sannfæra vantrúaðar sálir um þörfina fyrir menntaskóla.

Að mínu áliti er það ekki óþarfi að setja lög til menningarþroskunar, og þá er þessari þjóð hefur verið sýnt svart á hvítu, að við stöndum ofar, þá er það vinningur fyrir okkur í almenningsáliti, sem gjarnan má koma fram. Það hlýtur að vera hægt að fá þeim, sem mest og bezt um þessi mál fjalla og vita, hvernig þessu háttar í nágrannalöndunum, þetta mál í hendur. Það er engin ástæða til að draga þar undan að láta þessar tölur koma fram.

Það er eitt atriði sem ég vildi segja um þetta, sem flm. virðist telja meginókosti í 2 landsfjórðungum. Það eru örðugleikar fyrir fólkið að kosta börnin til náms. Ég vil taka til dæmis skóla á Ísafirði. Fyrir þá menn. sem búa á Ísafirði, verður það kostnaðarminna, en fyrir aðra er það engu ódýrara að lifa þar en í Rvík. Sama hygg ég að verði að nokkru leyti með þá skóla, sem settir verða á Austfjörðum. Það verða allir að gefa með börnum sínum, til þess að þau geti dvalið í þeim skóla. Hins vegar get ég ekki neitað því, að það er til, að fólk hafi flutt til Rvíkur af þeim ástæðum til að geta menntað börn sín. En það er hverfandi lítill hluti, sem hefur flutt beinlínis til bæjarins af þessari ástæðu, en þó hef ég ekki neinar tölur þar um. Embættismannabörn utan af landi hafa í mörgum tilfellum stundað nám hér og farið svo til háskólanáms. En það eru að vísu fleiri en embættismenn, sem senda börnin sín til náms. Ég get ekki farið fram hjá þeirri staðreynd, að það er hægara fyrir nemendur, sem eru efnalitlir, að kosta sig til náms nú en fyrir 10 árum. Ég býst við, eins og ástæður hafa verið s. l. ár. þar sem hver námsmaður getur fengið að vinna yfir heila 4–5 mánuði ársins fyrir góðu kaupi, að það nægi til þess, að nemendur geti sjálfir kostað sig til náms yfir veturinn, hvort heldur er hér eða í öðrum skólum, þar sem áður var byggt á foreldrunum. Nú þurfa það ekki endilega að vera miklir menn, sem kosta börnin sín til náms, eins og áður. Ég fyrir mitt leyti skammast mín ekkert fyrir að segja frá því, og það er nærtækt dæmi um mig, að mínir drengir fóru ekki í menntaskóla öðruvísi en að vinna sjálfir fyrir sér, og svo er það líka með hundruð heimila í þessum bæ. Ég vil segja það, að ég vil ekki draga úr því, að unga kynslóðin fái fyllstu menntun. Ég er ekki nógu kunnugur því, hver útkoman er yfirleitt nú í námsþroska þjóðarinnar og hvaða árangur námið ber. Heyrt hef ég þó því haldið fram. vegna þess hve mörgum er nú ýtt til æðra náms, að það komi lakari námssveinar nú en áður, sem vegna bætts efnahags ýtt er undir að halda áfram námi. Ég held ég fari ekki þarna með neinar rökvillur. Reynslan hefur sýnt, að þeir, sem fara í langskólanám, vilja ekki fara beint inn í atvinnulífið eða vinna hin svo kölluðu ófínni störf. Þó eru undantekningar til, en þær eru ekki almennar. Sá, sem fer í langskólanám, skoðar sig orðinn það menntaðan mann, að hann geti lifað af öðru en að strita með sínum höndum eins og verkamenn og iðnaðarmenn o. s. frv. Ég get hugsað mér, að slíkur menntamannahópur, sem hugsar sér að lifa þannig, geti orðið nokkuð stór. Ef þjóðin getur ekki sjálf skapað starf fyrir slíkan hóp, verður það fyrsta fólkið, sem leitar eftir möguleikum meðal annarra þjóða. Það er vitað, að stór hópur, sem hefur lært að skapa sér lífsstarf meðal erlendra þjóða, er okkur glatað fólk.

Ég vil taka fram við þessar umr., að ég vænti þess, að n. geri sitt bezta til að upplýsa málið sem bezt. Það er enginn vafi, að um það eru skiptar skoðanir, hve fast við eigum að stefna stórum hluta hinnar yngri kynslóðar í langskólanám.