01.03.1948
Efri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í C-deild Alþingistíðinda. (2730)

62. mál, menntaskólar

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég man ekki svo vel, hvernig umr. stóð síðast. En hitt er mér ljóst, hvaða þskj. hér er um að ræða. Og það hefur verið rætt um þetta mál í menntmn. þessarar hv. d., og ég hef áskilið mér óbundnar hendur um afstöðu mína til málsins. Ég gerði það af því, að eins og frv. liggur fyrir, um það, að þessir skólar skuli vera fjórir eða fimm í landinu, þá hrýs mér hugur við svo hraðri aukningu á menntaskólunum. Það er ekki af því, að ég viðurkenni ekki, að full rök séu fyrir því, að aðstaða ungra og framgjarnra manna sé mjög mismunandi til náms í menntaskólum í þessu landi. Og ef hægt væri að liðka til á þann veg, að þeir sem hæfastir væru til að stunda stúdentsnám, fengju tækifæri til þess að geta það, hvar sem þeir annars eiga heima á landinu, þá væri slíkt mjög æskilegt. En það má setja lög um það atriði á misjafnlega hentugan veg, og má kannske líka kaupa þetta of dýru verði og þannig, að það komi ekki að eðlilegum notum. Og þó að segja megi, að auðveldast sé fyrir nemendur að sækja nám heimanað, fyrir þá sem hafa aðstöðu til þess, þá álít ég of dýru verði keypt að jafna aðstöðumuninn í þessu efni með því að fjölga menntaskólunum úr tveimur allt í einu upp í kannske fimm. Stúdentaframleiðslan í landinu þarf að vera eðlileg. Hún er nú úr þremur skólum í landinu, því að Verzlunarskólinn hefur rétt til að útskrifa stúdenta, og sýnist hún vera að höfðatölunni til nóg. Ég geri fyrirvara um það, hvort þeir menn, sem náð hafa stúdentsprófi, eru þeir, sem hentugast er frá þjóðhagslegu sjónarmiði, að nái því framar öðrum mönnum í landinu. Um slíkt verður seint nokkuð sannað. En ef setja á niður nýja menntaskóla á Ísafirði og Eiðum, þarf að athuga mjög vel, hvort nóg kennaralið væri fyrir hendi til þess. Ef slíkir skólar hafa ekki sæmilegum kennurum á að skipa, er verr farið en heima setið að stofnsetja þá. Og þetta er verulegt atriði í málinu. Jafnvel segja sumir, að ekki megi tæpara standa, að nóg kennaralið sé fyrir hendi til þess að annast kennslu í þeim menntaskólum, sem til eru nú. Þetta kann að vera rangt. En gott væri að fá skýringar á þessu, sem ég ber hér fram eftir umsögn, en ekki eftir eigin reynslu. Ég hygg, að stúdentar séu nógu margir að höfðatölu, og að þrátt fyrir allt okkar skólakerfi sé það á allt öðru sviði, sem menn hafa ekki fengið nægilega undir búningsmenntun hér á landi fyrir lífsstarf sitt. Ég vildi gjarnan að Vestfjarðarkjálkinn, sbr. till. um Ísafjörð, og Austfirðingafjórðungur, sbr. till. um Eiða, nytu sem beztra möguleika um fræðslu unga fólksins. (Rv: Gott er að heyra það). En ég held, að þessi stúdenta-buket, sem hér er réttur fram af þinginu, sé ekki sá rétti veizlubúnaður. Ég held, að það rétta í því efni mundi frekar vera fólgin í öðru. — Ég vil samt áskilja mér rétt til þess við 3. umr. að bera fram nokkrar brtt., þar sem ég, eftir því sem ég hef helzt hug á, miðaði við það, að menntaskólarnir væru áframhaldandi tveir, eins og nú er í Rvík og á Akureyri, og ef heimild yrði veitt um fleiri menntaskóla, þá yrði næsti menntaskóli reistur í sveit á Suðurlandi, þegar veitt yrði fé til þess á fjárl. Það er langt síðan bornar voru fram á Alþ. fleirum sinnum till. um, að svo væri gert af allt öðrum en mér og án tillits til allrar héraðatogstreitu um að hlynna að einu héraði öðru fremur. Þetta vakir alls ekki fyrir mér af því að Sunnlendingar þurfi þess vegna fjarlægðar frá höfuðstaðnum eða af því að það séu hlunnindi fyrir Sunnlendinga, að þeir fái menntaskóla í sveit, heldur álít ég, menningarlega séð, gott að hafa einn menntaskóla í sveit, sem tilbrigði frá kaupstaðaskólunum. (LJóh: Mundi ekki menntaskóli koma að sama gagni á Eiðum?). Ef till. koma um það, eru þær til umr. Og á það er að líta, að mér hefur ekki verið falið neitt í sambandi við menntaskála á Suðurlandi. Það er ekki sérstakur áhugi fyrir því meðal Sunnlendinga, að þar verði settur menntaskóli. Það er allt annað skálakerfi, sem þeirra áhugi er fyrir. En ég vildi opna dyrnar fyrir því, að reynt væri, hvort sveitin markaði stúdentafræðslunni nokkuð annan farveg en kaupstaðirnir gera.