08.03.1948
Efri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í C-deild Alþingistíðinda. (2746)

62. mál, menntaskólar

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég á hér brtt. á þskj. 426, sem er smávægileg. Þessi brtt. er við brtt., sem hæstv. dómsmrh. flutti. og fellur inn í brtt. eins og hún var, þegar ég samdi mína brtt. En nú hefur sú breyt. orðið á, að hæstv. ráðh. hefur gert brtt. að nýju, eins og hann lýsti. Mín brtt. fellur því ekki lengur inn í brtt. hæstv. dómsmrh., nema eitthvað sé sniðin til önnur hvor brtt. Ég vil því leyfa mér að bera fram skriflega brtt. við brtt. frá hæstv. dómsmrh. á þskj. 438. En skriflega brtt. er svo hljóðandi. með leyfi hæstv. forseta: „1. málsgr. fyrri gr. orðist svo: Menntaskólar skulu vera í Reykjavík og á Akureyri. Enn fremur er heimilt að reisa menntaskóla í sveit á Suðurlandi, þegar fé er veitt til þess á fjárl.“ Þetta er enginn efnismunur frá því, sem er í minni prentuðu brtt., heldur er hún felld á eðlilegan hátt við þá brtt., sem ég ætlaðist til, að brtt. mín væri flutt við. En fyrri brtt. mína, á þskj. 426. tek ég aftur.

Um þetta mál að öðru leyti er óþarft fyrir mig að vera margorður. Og þó að ég leggi hér til, að menntaskóla verði heimilað að reisa á Suðurlandi, geri ég það alls ekki af því, að ég hafi verið hvattur fram til þess af Sunnlendingum, af því að þeir telji sér svo bráðnauðsynlegt að fá menntaskóla. Það er annað, sem fyrir mér vakir, nefnilega það, að hér hafa fyrir hæstv. Alþ. einatt legið till. um að stofnaður skuli verða menntaskóli í sveit og þá á Suðurlandi einhvers staðar. Ég geri ráð fyrir, að þeir hv. þm., sem flutt hafa þetta fram á Alþ., allt aðrir en sunnlenzkir þm., hafi gert það ekki af hvötum, sem miðast hafa við það, frá hvaða héraði þeir hafa verið, heldur hafi till. þessar miðazt við það, hvað heppilegast væri í málinu, þegar lítið er til þess, að hagkvæmt mætti vera að nokkur hluti menningarstarfsemi menntaskólanna fari fram í sveit, í staðinn fyrir að sú starfsemi fari öll fram í kaupstöðum. Og þetta eitt vakir fyrir mér með því að flytja þessa brtt. En mér þykir of mikið í ráðizt eins og gert er ráð fyrir í frv., að gera ráð fyrir fjórum menntaskólum í landinu. Ég efa, að nokkurri menningarþörf á Íslandi sé eins vel borgið og þeirri, sem menntaskólar uppfylla, þegar miðað er við höfðatölu þeirra, sem útskrifast sem stúdentar á ári hverju. Það mætti svo fara, að of mikil stúdentaframleiðsla gæti, orðið eins mikið til böls eins og bóta hér á landi. Og ef menntaskólar koma upp víða á landinu, verður að gæta þess, að þeir verði ekki því ófullkomnari sem þeir verða fleiri, með tilliti til kennslukrafta. Þetta verður að athuga vel og hleypa ekki hlassinu fram fyrir sleðann. Ég sé ekki eftir því, þótt Ísfirðingar og Austfirðingar njóti aukinnar menntunar og njóti skilnings Alþ. um þær þarfir sínar. En ég held, að þessum stöðum sé þörf á annarri aðhlynningu en að keppast við að koma þar upp menntaskólum. Það er rétt, sem hér hefur verið bent á, að fátækir, námfúsir piltar, sem heima eiga langt úti á landi, eiga nú við erfiðleika að etja um að njóta menntaskólanáms. En ég vona, að sá skilningur um þessi mál verði alltaf fyrir hendi, að hæstv. Alþ. og aðrir, sem hlut eiga að máli, verði fúsir til að vinna að lagfæringu á þessu máli með því að koma upp heimavistum til þess að létta undir með þessum námsmönnum, sem erfiðasta aðstöðuna eiga um menntaskólanám.

Ég vil ljúka máli mínu með því að taka það aftur fram, að með þessari brtt. minni um heimild til þess að reisa menntaskóla í sveit, og þá á Suðurlandi, þegar fjölgað verði menntaskólunum, með þessari till. nefni ég Suðurland sem líklegan stað til þessa. En ég vil standa fjarri allri héraðapólitík í þessu efni. Og ég vil með því að nefna Suðurland í þessu sambandi taka í sama streng og Pálmi Hannesson hefur gert og fleiri menntamenn hafa gert áður, og enginn hneykslaðist þá á því. Og það er af sömu rótum, sem ég ber fram mína brtt.